2 min read

Jensen og NVIDIA sköpuðu framtíðina

Jensen og NVIDIA sköpuðu framtíðina

Jensen Huang er einn þriggja stofnenda fyrirtækisins NVIDIA sem nýlega náði toppsætinu á lista verðmætustu fyrirtækja heims. Skákuðu þar með Microsoft, Apple, Amazon og Alphabet. Hann er klárlega aðalkallinn af þeim þremur og verðskuldar því að vera andlit fyrirtækisins. 

Það var Jensen sem barðist á móti straumnum í kringum 2010 og veðjaði öllu á þróun örgjörva og tilheyrandi hugbúnaðar til að styðja við massífa gagnaúrvinnslu sem aðeins örfáir aðilar höfðu not fyrir á þeim tíma. Stofnanafjárfestar í NVIDIA höfðu áhyggjur og voru farnir að pressa á breytingar. Fyrirtækið ætti að halda áfram að sinna sínum aðalmarkaði sem voru skjákort fyrir tölvuleiki í stað þess að fjárfesta öllum hagnaði í vöruþróun sem engu myndi skila.

Það var ekki fyrr en AlexNet frá Geoffrey Hinton og félögum kom fram árið 2012 sem boltinn fór svo að rúlla hjá Jensen og NVIDIA. Þeir höfðu þjálfað djúpt tuganet með búnaði frá NVIDIA og unnu með því ImageNet keppnina það árið. Það markaði endurkomu djúpra tauganeta og eftirspurn eftir tölvum með massífa reiknigetu fór upp úr öllu valdi og gerir enn. Akkúrat varan sem Jensen og NVIDIA höfðu þróað.  

Um þetta má lesa í nýútkominni bók, The Thinking Machine eftir Stephen Witt. Saga Jensen Huang og NVIDIA er nefnilega ansi merkileg. 

IMG_3186  

Nokkrum árum síðar, árið 2015, keypti sprotafyrirtækið OpenAI eina af fyrstu sérhönnuðu ofurtölvunum af NVIDIA. Hana átti að nota til að þjálfa gervigreindarlíkön á grunni tauganeta. Myndin hér að neðan var tekin þegar Jensen afhenti tölvuna. Elon Musk tók á móti henni fyrir hönd OpenAI. 

jensen

Í dag framleiðir NVIDIA ofurtölvur í massavís, nánar tiltekið um 1.000 slíkar í hverri viku. Ofurtölvur hafa ekki áður verið framleiddar á þessum skala. 

Þetta eru sérhannaðar tölvur til að knýja áfram spunagreind (e. Generative AI). Þær skaffa reiknigetu til að þjálfa stór mállíkön (e. LLMs) og reiknigetu svo við getum notað spunagreind í leik og starfi, t.d. ChatGPT, Gemini eða Le Chat.  

Þessi nýja tegund hugbúnaðar sem hagnýtir spunagreind gerir allt aðrar kröfur til vélbúnaðar en gamla tegundin. Nýja tegundin þarf tölvur sem framleiða 'intelligent tokens’, spá fyrir um næsta orðið í setningunni með aðstoð djúpra tauganeta. 

Það er þeirra eina hlutverk. 

Gervigreindarlíkönin tala í auknum mæli við sig sjálf áður en þau framreiða sitt lokasvar. Er það kallað rökhugsun (e. reasoning). Rétt eins og við gerum þegar við hugsum og tæklum málin í átt að niðurstöðu. Þessi eiginleiki býr til aukið álag á tölvunar sem aftur kallar á stærri og öflugri tölvur. 

Og nú vilja allir eignast slíkar tölvur til að styðja við gervigreindarbyltinguna. Þjóðríki og fyrirtæki. Þeim er komið fyrir í gagnaverum sem Jensen kallar “AI Factories” og mætti lýsa sem vélarrúmi þessarar nýju iðnbyltingar. 

Þær gera okkur fært að nota hugbúnað sem hugsar og framkvæmir með aðstoð spunagreindar og erindreka (e. AI agents), sem má lýsa sem stafrænum vélmennum.

Og svo eru það vélmennin sjálf sem búa í raunheimum. Þau eru víst á leiðinni til okkar líka. Og þau þurfa nú aldeilis vinnslugetu og þar kemur NVIDIA líka við sögu eins og sjá má í upptökunni hér að neðan, frá NVIDIA viðburði í Frakklandi sl. sumar. Hér flytur Jensen Huang aðalræðu dagsins með glæsibrag. 

Hann hefur svo sannarlega ekki sungið sitt síðsta!