6 min read

Gervigreind og snjallar lausnir í opinberri þjónustu – I. hluti: Hindranir og tækifæri

Gervigreind og snjallar lausnir í opinberri þjónustu – I. hluti: Hindranir og tækifæri

Notkun gervigreindar og snjallra lausna í opinbera geiranum eykst stöðugt um allan heim.


Tæknin þróast hratt og verður áreiðanlegri, aðgengilegri og ódýrari með hverju árinu sem líður. Gríðarleg tækifæri eru fyrir opinberar stofnanir til að nýta slíka tækni enda búa opinberir aðilar yfir miklu magni gagna sem er aðalfóður snjallra lausna.


Hér verður fjallað um nokkrar áskoranir vegna innleiðingar gagnadrifinna og snjallra lausna í opinberum rekstri en sjónum svo beint að sviðum þar sem þegar er verið að nýta tæknina á spennandi hátt víða um heim til að bæta nýtingu fjármuna og þjónustu við borgarana og auka sjálfvirkni.


Reynt verður að setja umræðuna í íslenskt samhengi.

 

HELSTU PUNKTAR TIL AÐ TAKA MEÐ:

  • Gríðarleg tækifæri eru fyrir opinbera aðila að nýta sér möguleika gervigreindar, enda búa þeir iðulega yfir miklu magni gagna sem eru aðalfóður snjallra lausna
  • Ýmsar áskoranir eru í vegi snjallvæðingar hins opinbera, meðal annars tortryggni gagnvart nýrri tækni, siðferðisleg álitamál gagnvart skjóstæðingum, kerfistregða og skortur á hæfum sérfræðingum í samkeppni við einkageirann
  • Nú þegar er tæknin víða nýtt til að bæta opinbera þjónustu og rekstur, til dæmis með sjálfvirknivæðingu ýmissar bakvinnslu sem og afgreiðslu og upplýsingagjafar
  • Nettengdir nemar (e. Internet of Things) fæða gögn til reiknirita sem bæta eftirlit og viðhald með ýmiss konar innviðum og mannvirkjum
  • Umhverfismál og grænar lausnir verða stórt viðfangsefni snjallra lausna í næstu framtíð, þar sem lágmörkun sóun og betri nýting auðlinda verður helsta markmiðið

 

Er fyrirtæki þitt tilbúið fyrir gervigreindarbyltinguna? Hjá DataLab starfa sérfræðingar á sviði hagnýtingar gagna í snjöllum lausnum sem m.a. aðstoða við stefnumótun, fræðslu og leiðsögn vegna hagnýtingar slíkra lausna. Hafðu samband og fáðu stutta kynningu á möguleikum gagnadrifinna og snjallra lausna þér að kostnaðarlausu.


Óþekkti embættismaðurinn gegnir lykilhlutverki í snjallvæðingu hins opinbera

 

GERVIGREIND – GAGNADRIFNAR OG SNJALLAR LAUSNIR

Auk gagna byggja snjallar lausnir á hugbúnaðarinnviðum, ýmsum reikniritum (e. algorithms) og reiknigetu. Hugtakið „gervigreind“ er oft notað í almennri umræðu til að lýsa slíkum lausnum þar sem þær leysa í mörgum tilfellum verkefni sem áður kröfðust mannlegra vitsmuna.

Í þessari samantekt er það heiti notað þegar við á en einnig er talað um „gagnadrifnar og snjallar lausnir“ sem lýsir tækninni ágætlega. Á ensku eru lykilorðin data science, machine learning og AI.

ÁSKORANIR FYRIR OPINBERA GEIRANN

Tæknin býður upp á marga möguleika til hagræðingar og betri þjónustu en það eru þó ýmsar áskoranir sem þarf að takast á við á vegferðinni sem framundan er.

Tortryggni gagnvart gervigreind

Opinberir aðilar sem starfa í almannaþágu hafa ríkari skyldur gagnvart almenningi en fyrirtæki á markaði. Það kemur því ekki á óvart að stjórnendur þar og starfsmenn séu hikandi við tækni sem er ný af nálinni, oft umdeild og höndlar þar að auki með viðkvæmar persónuupplýsingar. Þessi viðhorf endurspegla að mörgu leyti viðhorf borgaranna sem einnig eru tortryggnir gagnvart notkun gervigreindar.


Eftir því sem tæknin þroskast og hagnýtingartilfellum fjölgar er viðbúið að tortryggnin víki fyrir skynsamlegu mati á kostum þess að nýta tæknina þar sem hún hentar.

Tæknin finnur sér farveg í sátt við samfélagið sem hún þjónar.

Breytingar eru erfiðar fyrir fólk og ferla

Breytingar eru erfiðar fyrir allar skipulagsheildir, en þær geta mætt enn meiri mótspyrnu hjá opinberum aðilum, ekki síst ríkisstofnunum, þar sem krafan um arðsemi og að halda í við samkeppnina eiga síður við.


Innleiðing snjallra lausna snýst ekki aðeins um að ráða inn nokkra sérfræðinga til að sjá um málið, heldur felur hún oft í sér stefnumótun og endurskipulagningu á ferlum og vinnulagi allra starfsmanna, sem getur tekið á.


Markmiðið með því að innleiða gagnadrifnar og snjallar lausnir í opinberum rekstri er m.a. að létta álag og auka afkastagetu svo starfsfólk geti betur sinnt verkefnum þar sem slíkar lausnir nýtast ekki. Tilgangurinn er ekki að leysa starfsfólk af hólmi.

Til að lausnirnar fái brautargengi í opinberum stofnunum er mikilvægt að leiðtogar miðli þessari hugsun skýrt innan sinnar skipulagsheildar.

Skortur á þekkingu og hæfum einstaklingum

Hæfir sérfræðingar á þessu sviði eru eftirsóttir og má gera ráð fyrir umframeftirspurn eftir þeirra kunnáttu á næstu árum — bæði á sviði tæknilegra úrlausnarefna en ekki síður á sviðum sem snúa að innleiðingu nýrra lausna í starfseminni.

Það kann því að vera áskorun fyrir opinbera aðila að laða að hæfa sérfræðinga sem einkageirinn sækist jafnframt eftir. Opinberir aðilar þurfa að taka skrefið og fjárfesta í slíku fólki og auðvelda núverandi sérfræðingum að „stíga upp“.

Með sterka sveit starfsmanna í fararbroddi fá opinberar stofnanir mun meira út úr samstarfi við utanaðkomandi sérfræðinga.


“Comme de l’escargot!”

Kerfistregða

Stóru kerfin okkar virðast oft þróast á hraða snigilsins þótt víða sé vilji fyrir hendi að uppfæra þau og nútímavæða. Hugmyndir að úrbótum mæta andstöðu hagsmunaaðila, best sé að stíga varlega niður og hrófla sem minnst við hlutunum. Landbúnaður, menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi koma upp í hugann.

Innbyggð kerfistregða er og verður til staðar. Við sem sjáum tækifæri í hverju horni ættum því að stilla væntingum í hóf og hugsa til lengri tíma.

Nýjungar verða innleiddar í skrefum og meðvindur fæst með því að sýna fram á skýran ávinning og á grundvelli reynslu og þekkingar sem byggist upp innan þeirra stofnana sem ríða á vaðið.

Tækifærin: SNJALLAR LAUSNIR Í OPINBERUM REKSTRI

Nú þegar eru gagnadrifnar og snjallar lausnir notaðar í opinberum rekstri víða um heim með góðum árangri. Framundan er umbylting ferla og þjónustu, sjálfvirknivæðing og aukin afkastageta með tilheyrandi sparnaði og betri gagnadrifnum ákvörðunum.


Hér að neðan er fjallað um nokkur dæmi.

Tæknin nýtt til að auka afköst í opinberri þjónustu

Kröfur og væntingar til opinberra aðila hvað varðar hlutverk og þjónustu eru sífellt að aukast. Ein leið til að mæta þessum kröfum er að ráða fleira fólk til að sinna hinum ýmsu verkefnum sem samfélagið hefur falið opinberum aðilum að sinna.

Önnur leið er að nýta tæknina til að taka smám saman yfir verkefni sem áður kröfðust aðkomu starfsmanna. Gagnadrifnar og snjallar lausnir hafa verið notaðar til leysa mannshöndina af í stöðluðum og endurteknum verkefnum eins og við útgáfu, meðhöndlun og eftirfylgni reikninga, launagreiðslur, áætlanagerð, útgreiðslu bóta og útgáfu ýmissa vottorða og skjala.

Talað er um sjálfvirknivæðingu í þessu sambandi og þar er gervigreindin á heimavelli.

Sjálfvirkt og bætt eftirlit með greiðslukerfum

Þá hefur tæknin verið nýtt til að finna og koma í veg fyrir kostnaðarsöm frávik í launa-, skatt- og bótakerfum, gegn peningaþvætti og til að greina misferli og óhagræði í innkaupum og stórum útboðum á vegum hins opinbera.

Gervigreindarlausnir henta sérlega vel til þess að bæta og sjálfvirknivæða hvers kyns eftirlit með greiðslukerfum sem geta til dæmis bætt skattheimtu svo um munar og tryggt að takmarkaðir fjármunir hins opinbera renni til þeirra sem á þeim þurfa að halda.


Gervigreindartækni er beitt til að finna og koma í veg fyrir skattsvik sem árlegra kosta ríkissjóð tugi milljarða króna.

 

Stórbætt þjónusta og upplýsingagjöf

Gervigreind er þegar notuð til að auka sjálfvirkni í þjónustuverum þar sem spjallþjónar svara algengustu fyrirspurnum og beina skjólstæðingum áfram réttan farveg til lausnar sinna mála. Þannig nýtist starfsfólk betur til að svara flóknari fyrirspurnum sem spjallþjónarnir ráða ekki við og reynsla og tími starfsfólks nýtist betur. Dæmum um slíkt fjölgar nú hér á landi.


Slíkar lausnir má nýta í velferðarkerfi til að upplýsa borgara betur um réttindi sín og benda á frekari þjónustu og úrlausnir. Augljóst tækifæri fyrir slíka tækni eru í fyrstu snertingu í heilbrigðiskerfinu þar sem slíkar lausnir mætti nýta til að svara einföldum fyrirspurnum og þannig létta álagið.

IoT eftirlitstækni mælir slit og spáir fyrir um viðhaldsþörf

Það er mikið og flókið verkefni að hafa eftirlit með og viðhalda hinum fjölmörgu innviðum sem opinberir aðilar bera ábyrgð á, svo sem vegakerfi, veitukerfi, almenningssamgöngur og upplýsingarkerfi. Fyrir vikið er hætta á að viðhaldsaðgerðir mótist af kostnaðarsömum viðbrögðum við óvæntum áföllum.

IoT (e. Internet of Things) nemar og gervigreind sem nýtir sér gögn þeirra gerir mögulegt að greina í tíma viðhaldsþörf og hættu á þjónustufalli vegna slits og bilana ýmissa kerfa og tækja. Samkvæmt skýrslu McKinsey er áætlað að nýting IoT tækni í þessum tilgangi geti haft í för með sér efnahagslegan ábata sem svarar þúsundum milljarða dala árlega þegar árið 2025.


Bilun í veitukerfi veldur tjóni í HÍ á dögunum (mynd frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins)

 

Stýring umferðar

Ýmis dæmi eru um að gervigreind sé notuð til að greina umferð í þeim tilgangi að bæta ljósastýringu og jafna álag á vegakerfi, fækka slysum, sjá fyrir umferðarhnúta og minnka þar með losun koltvísýrings.

Yfirvöld í Pittsburg í Bandaríkjunum hafa náð miklum árangri á þessu sviði, en þar hefur tekist að minnka umferðartíma um 20% og útblástur koltvísýrings um sama hlutfall með gervigreindartækni.

Í Kína er tæknin notuð til að gefa rauntímaupplýsingar um umferðarhraða, ólöglegan akstur og líkur á slysum á tilteknum vegum og svæðum, þar sem einnig er tekið tillit til þátta eins og veðurskilyrða.

Umferðarhnútar á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi mengun, slysahættu og sóun á dýrmætum tíma fólks er verðugt vandamál fyrir gervigreindartækni.

Stytting vinnuvikunnar

Eitt af verkefnum næstu ára er að standa við skuldbindingar um styttingu vinnuvikunnar án þess að fjölga starfsfólki.

Gagnadrifnar og snjallar lausnir munu gegna stóru hlutverki í viðleitni opinberra aðila til að bæta þjónustu og standa undir lögbundnu hlutverki sínu á sama tíma og vinnuframlag starfsmanna minnkar.

Reglubundnar og einfaldar aðgerðir munu í auknum mæli falla undir verksvið sjálfvirkra lausna en sérhæfðir starfsmenn mun sinna hinum flóknari og áhugaverðari verkefnum.

Umhverfismálin og grænar lausnir

Gagnasöfnun og snjallar lausnir munu gegna stóru hlutverki í baráttunni gegn hvers kyns sóun. Framundan er betri nýting auðlinda á grundvelli gagna og snjallra lausna. Fyrir vikið mun draga úr orku- og matvælasóun og samgöngur og framleiðslutæki verða umhverfisvænni.

Hér mun hið opinbera gegna lykilhlutverki með skattaívilnunum vegna fjárfestinga einkafyrirtækja í grænni tækni og beinum styrkjum til frumkvöðla. Einnig mun hið opinbera sýna gott fordæmi og hagnýta slíkar lausnir í eigin rekstri.

Menntun og heilbrigðismál

Mennta- og heilbrigðismál eru tveir risastórir málaflokkar sem gervigreindin á eftir að umbreyta á næstu áratugum og verðskulda dýpri umfjöllun — seinna meir.

Frumkvöðlar og fjármagn leita í þessar áttir um allan heim og þróunin er hröð. Krafa almennings er að kerfin nútímavæðist, verði skilvirkari og veiti betri þjónustu. Úr annarri átt, frá pólitíkinni, kemur svo krafan um betri nýtingu fjármagns. Faraldurinn hefur flýtt fyrir þróuninni eins og við þekkjum vel.

Lausnir sem hagnýta gervigreindartækni og sérsníða þjónustu að þörfum og einstökum aðstæðum hvers og eins og auka skilvirkni og afkastagetu eru handan við hornið.

Og jarðvegurinn er frjór. Niðurstaðan verður betra heilbrigðis- og menntakerfi fyrir notendur og starfsmenn.

Samantekt

Tækifærin til að nýta gögn í snjöllum lausnum sem hagnýta gervigreindartækni eru víða í opinberum rekstri og ávinningurinn getur verið mikill — betri þjónusta, aukin afköst og betri nýting fjármuna.


Margar þjóðir eru komnar lengra á þessu sviði en við og því er full ástæða til að hvetja opinberar stofnanir hér á landi til að kynna sér tæknina og hagnýtingarmöguleikana, læra af reynslu nágrannaþjóða, til dæmis systurstofnana og nýta hvers kyns samstarfsvettvang sem þau hafa aðgang að. Hefja svo markvissa og skynsamlega fjárfestingu í fólki, innviðum og ferlum sem styðja við innleiðingu tækninnar.

Skref fyrir skref.

Gervigreind og snjallar lausnir í opinberri þjónustu - II. hluti: Lýðvæðing, grænar lausnir og siðfræði

Gervigreind og snjallar lausnir í opinberri þjónustu - II. hluti: Lýðvæðing, grænar lausnir og siðfræði

Í fyrra bloggi DataLab um snjallar lausnir í opinberri þjónustu var fjallað um þau tækifæri sem liggja í notkun gervigreindar hjá hinu opinbera. Í...

Read More
Eru gagnadrifnar lausnir í þínum áætlunum fyrir 2021?

Eru gagnadrifnar lausnir í þínum áætlunum fyrir 2021?

Gagnadrifnar og sjálfvirkar lausnir eru sannarlega komnar á dagskrá um allan heim, bæði í einkageiranum og hjá opinberum aðilum, stórum sem smáum....

Read More
Innleiðing snjallra gagnalausna: 4 öngstræti og 4 leiðir út úr þeim

Innleiðing snjallra gagnalausna: 4 öngstræti og 4 leiðir út úr þeim

Það er að mörgu að huga þegar innleidd er framandi tækni sem hefur bein áhrif á störf fólks, ferla og skipulag. Tilgangurinn kann að vera óljós,...

Read More