3 min read

„Valkyrjur“ DataLab smíða afkomuspá ríkisins

„Valkyrjur“ DataLab smíða afkomuspá ríkisins

 

Lausnin er gott dæmi um hagnýtingu gervigreindar til að stuðla að betri rekstri. Þær Helga, María og Stella leiða verkefnið fyrir hönd DataLab.

 

Undanfarin misseri hefur áhugi almennings jafnt sem rekstraraðila aukist mikið á möguleikum spunagreindar (e. generative AI) enda framþróun þar gríðarhröð. Þar hefur DataLab ekki látið sitt eftir liggja og hefur þegar víða innleitt háþróaðar spunalausnir í líki Ara, þarfasta þjónsins.

En möguleikar gervigreindar liggja ekki síður í greiningu á mynstri í gögnum sem hægt er að nýta til að spá fyrir um framtíðarþróun. Þetta eru snjöll spálíkön sem byggja allt sitt á ríkulegum og vönduðum gagnasöfnum.

Svo heppilega vill til að stofnanir íslenska ríkisins eru sprengfullar af gæðagögnum sem um þessar mundir er verið að þjóðnýta til mikils gagns.

Þær Stella Kristín Hallgrímsdóttir, M.A.S. í hagnýtri tölfræði, María Ármann, M.Sc. í Business Analytics og Helga Dís Halldórsdóttir, einnig M.Sc. í Business Analytics, sérfræðingar hjá DataLab, leiða nú spennandi verkefni í samstarfi við Fjársýsluna:

Um er að ræða þróun spálíkans sem vonir standa til að stuðli að betri rekstri hjá stofnunum ríkisins.

Stella, María og Helga Dís gáfu sér nokkrar mínútur í spjall um verkefnið.

Spálíkön fyrir fjölbreytta starfsemi

Hvers konar spálíkön hafið þið verið að smíða hingað til?

„Eitt af þeim fyrstu sem við smíðuðum er líklega meðmælakerfi Domino’s, sem spáir fyrir um áhuga á tilteknum pizzum og meðlæti út frá fyrri viðskiptum og pöntunum annarra, viðskiptavina með svipaðan smekk. Lausnin fór í loftið 2019 og lifir enn góðu lífi."

Það var mjög spennandi verkefni, hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, og hefur skilað Domino’s töluverðri aukningu í viðbótarsölu með hverri pöntun“, segir Helga Dís.

„Við höfum verið í samstarfi við Orku náttúrunnar um smíði líkans sem spáir fyrir um orkunotkun niður á klukkutíma í rauntíma, sem dæmi. Mjög krefjandi verkefni sem reynir á tæknilega hæfni enda gögnin afar stór og viðfangsefnið flókið. Sama gildir um verkefni sem við erum að vinna með Veitum en þar erum við að greina gögn úr snjallmælum og þróum ýmsa snjalla mælikvarða sem verða birtir með aðgengilegum hætti á mínum síðum. Ólík og krefjandi verkefni, en mjög spennandi, hvert og eitt”, segir Stella.

En auðvitað hefur DataLab frá stofnun árið 2016 komið að smíði fjölda spálíkana enda fókusinn í upphafi á þá tækni. Kannski má segja að verkefnið okkar með Skattinum sé það stærsta en þau stigu sín fyrstu skref í hagnýtingu gervigreindar í starfseminni í samstarfi við DataLab á árunum 2019 til 2021. 

Nú hefur verið mikil framþróun í svokallaðri spunagreind (e. generative AI) - hefur tæknin á bak við spálíkönin þróast með sama hraða? Eru spálíkön betri eða nákvæmari í dag?

„Í raun hafa líkönin sjálf ekki mikið breyst síðustu ár, en það eru fleiri, öflug þróunarumhverfi í boði til að þróa líkönin í og prufukeyra.

„Við erum til dæmis að nota kerfi sem heitir Databricks í þessu verkefni með Fjársýslunni sem gefur okkur mikla reiknigetu til að prófa líkönin með risastórum gagnasöfnum og ýmis tól til að greina gögnin“, útskýrir Helga Dís.

„Það sem hefur líka breyst síðustu ár er að við getum nýtt spunagreindina að skrifa kóða hraðar. Einnig er hægt að nýta spunagreindina með spálíkönum, til dæmis með því að rýna í niðurstöður og fá skýringar og tillögur á mannamáli“, segir María.

Fjársýslan

Nýtt spálíkan fyrir Fjársýsluna - og öll Norðurlöndin

Verkefnið með Fjársýslunni er fjármagnað með styrk frá Norrænu embættismannanefndinni um atvinnustefnu, en það snýr að því að smíða gervigreindarlausn - spálíkan - til að spá fyrir um afkomu ríkisins og lykilstofnana ríkisins í árslok, hvorki meira né minna.

Verkefnið - sem er kallað „Valkyrjuverkefnið“ í gríni meðal starfsmanna DataLab - hófst í júlí, er alls 5 lotur og er langt komið.

„Við tökum inn í líkanið alls kyns breytur og bókhaldslykla, launakostnað og fleira. Vonin er sú að líkanið læri hvers kyns útgjöld eru líklegri en önnur til að fara fram úr áætlun, og að hægt verði að greina fyrr ef stefnir í framúrkeyrslu hjá tilteknum stofnunum þannig að hægt sé að bregðast tímanlega við því“, segir Helga Dís.

Hvernig er þetta spálíkan ólíkt öðrum sem þið hafið unnið að?

„Í fyrsta lagi eru gagnasöfnin rosalega stór. Það flækir aðeins fyrir. Við þurftum að gera ákveðnar breytingar á kóðanum til að hann gæti unnið með svona stór gögn“, segir María.

„Við erum líka enn að venjast því að vinna allt í umhverfi Databricks sem hýst er á innviðum Fjársýslunnar þar sem gögnin eru vistuð. Við þurfum að vera mjög meðvitaðar um kostnað, sem hefur ekki verið eins krítískt áður - hver prufukeyrsla á líkaninu kostar sitt, útskýrir Stella.

„En það er líka munur á þessu verkefni og öðrum að gögnin eru ótrúlega vel skipulögð, sem er sjaldgæft í okkar verkefnum. Það er mjög algengt að gögnin séu ekki klár, ekki rétt tengd saman og flokkuð, eða að það eru villur í þeim“, bætir María við.

„Já, það hefur verið mjög gott að vinna á móti Fjársýslunni - góð gögn og gott samstarf“ segir Stella.

Norðurlöndin bíða eftir niðurstöðum

Það mikið undir að verkefnið heppnist vel. Ef að vonum lætur getur íslenska ríkið - og skattborgarar - sparað mikla fjármuni og vandað betur áætlanir í framtíðinni.

En stofnanir á Norðurlöndum bíða einnig spenntar eftir niðurstöðum. Þegar spálíkanið er tilbúið og komið í rekstur hjá Fjársýslunni verður kóðinn gerður opinber og aðgengilegur og ef árangur verður eftir væntingum stendur til að sænski skatturinn innleiði það hjá sér - og vonandi fleiri.

Við óskum Valkyrjum DataLab góðs gengis!

HJÞ.

Nordic Visitor: Allt að 60% skjótari svör með aðstoð Ara

1 min read

Nordic Visitor: Allt að 60% skjótari svör með aðstoð Ara

Nordic Visitor innleiddi Ara, spunagreindarlausn DataLab, í starfseminni sinni nýlega og hefur náð að hraða svörun til viðskiptavina um allt að 60%.

Read More
„Gervigreindin gefur okkur sköpunarkraft“

1 min read

„Gervigreindin gefur okkur sköpunarkraft“

Ungt fólk er áberandi meðal þeirra sem leiða vagninn í þróun gervigreindar. Það er ekki skrýtið, enda er þar unnið á jaðrinum, með nýjustu þekkingu...

Read More
Stefnur og gagnastraumar 2023: Datalab spáir í spilin

Stefnur og gagnastraumar 2023: Datalab spáir í spilin

2023 er gengið í garð og Datalab spáir í spilin fyrir árið. Það er gríðarhröð þróun í snjöllum gagnalausnum eins og í allri stafrænni tækni. Hér...

Read More