6 min read

“Það þýðir ekkert að fálma út í myrkrið”

“Það þýðir ekkert að fálma út í myrkrið”

Hjá DataLab starfar öflugur hópur sérfræðinga í gervigreind og gagnavísindum, með ólíkan bakgrunn og sérhæfingu. Tveir þeirra, Jónas Johansen og Dennis Mattsson, hafa nokkra sérstöðu.

Jónas hóf störf hjá DataLab á þessu ári (2024) og er því einn af nýjustu meðlimum í teyminu. Dennis er hins vegar einn af fyrstu starfsmönnum fyrirtækisins, en hann gekk til liðs við það 2019.

Jónas og Dennis eiga hins vegar sameiginlegt að hafa alist upp í öðru landi; Dennis í Finnlandi og Jonas í Noregi.

Ísland kallaði

Þið eigið sameiginlegt að hafa alist upp og lært ykkar fræði á Norðurlöndunum – hvað dró ykkur til Íslands?

Dennis:

„Ég kom til Íslands fyrst sem skiptinemi frá Finnlandi 2016 og fann að hér vildi ég búa og starfa. Eftir MS nám heima í tölvunarfræði 2018 leitaði ég logandi ljósi að starfi hér og fann auglýsingu á netinu frá DataLab, var tekinn í netviðtal og fékk starfið, sem betur fer. Ég hef verið hér síðan og líkar mjög vel – bæði hjá DataLab og á Íslandi.“

„A minimalist landscape merging elements from Norway and Finland, transitioning into an abstract depiction of Icelandic mountains and glaciers, symbolizing the engineers’ journey to Iceland.“ Mynd: ChatGPT.

Jónas:

„Já, ég er alinn upp í Noregi af íslenskri móður og norskum föður. Ég kom þó oft á sumrin hingað og hafði taugar til Íslands. Ég kláraði BS nám í viðskiptafræði og MS í viðskiptagreiningum (e. business analytics), þar sem ég tók ýmsa kúrsa í gagnagreiningu og forritun. Eftir nám vann ég aðallega við viðskiptagreiningar, meðal annars fyrir Norwegian Airlines.

Eftir að mamma lést 2022 fann ég að ég vildi tengjast Íslandi betur, læra málið, prófa að búa hér og vinna. Ég fann draumastarfið auglýst á Alfred.is og var ráðinn til DataLab.“

Dennis, þú hefur einna lengstan starfsaldur í teyminu – hvernig hefur fyrirtækið og verkefni þess breyst á þessum fimm árum?

„Verkefni okkar og fókus hefur breyst töluvert á þessum fimm árum, en tæknin hefur líka þróast gríðarlega á sama tíma. Við byrjuðum á verkefnum tengdum vélnámi (e. machine learning) og smíðuðum líka ýmis konar forspárlíkön

Síðar þróuðum við meðmælakerfi (e. recommendation systems) fyrir aðila eins og Domino’s, sem hafa reynst mjög vel og verið í áframhaldandi þróun síðan. 

Við höfum svo tekið að okkur sífellt fleiri verkefni á sviði gagnaverkfræði, þar sem við erum að tengja saman kerfi og setja upp gagnapípur – gera gögnin klár – til að nýtast gervigreindinni. Þetta er reyndar krítískt verkefni sem mörg fyrirtæki hafa lítið hugað að en nauðsynlegt þeim sem vilja ráðast í að þróa AI lausnir.

Undanfarin misseri höfum við svo hellt okkur í spunagreindina (e. generative AI). Þar erum að þróa háþróaðar, sérsmíðaðar lausnir fyrir íslenskan markað sem byggja á stórum mállíkönum eins og ChatGPT og Google Gemini. 

Það er gríðarmikill áhugi á þessari tækni núna og margir eru að setja þetta á dagskrá.“

„An abstract interpretation of a modern office building, with sharp, clean lines and a glowing, digital aura surrounding it, representing DataLab as a beacon of innovation in Reykjavik.“ Mynd: ChatGPT.

Mikil gróska í þróun gervigreindar á Íslandi

Jónas, hvað hefur komið þér mest á óvart í störfum þínum fyrir DataLab? Hvernig sérðu tæknilandslagið á Íslandi miðað við það sem þú þekkir frá Noregi?

„Hvað varðar verkefni mín hjá DataLab eru töluverð viðbrigði þessi fjölbreytni í starfi, að vera að vinna kannski í fimm verkefnum í einu, með nýjustu tækni sem í boði er á markaðnum. Í fyrra starfi var ég að starfa hjá stóru fyrirtæki þar sem ég var að vinna á mjög þröngu sviði, aðallega í innanhússlausnum.

Hjá Datalab er ég hins vegar að þróa nýjar lausnir fyrir ytri notendur, þar sem við vinnum með nýjustu gervigreindartækni. Þannig að það er heilmikill munur.

En það hefur komið mér á óvart hversu langt íslensk fyrirtæki eru komin í að nýta sér gervigreindina – eða eru minnsta kosti að þreifa fyrir sér með hana.“

Gervigreindin tekur stökkbreytingum á nokkrum mánuðum – er ekki erfitt að fylgjast með nýjustu vendingum í tækninni?

Dennis:

„Það er hluti af okkar starfi að fylgjast með og prófa nýjustu tækni, þannig að við gefum okkur tíma til þess. Við kíkjum á nýjar lausnir og tól, prófum þau og könnum hvort og hvernig þau gætu nýst í okkar verkefnum.

Open AI kynnti til dæmis nýlega Advanced Voice Mode fyrir ChatGPT sem býður upp á náttúrulegri samtöl í rauntíma, sem greinir og bregst við tilfinningu og blæbrigðum í röddinni. Þetta er mjög spennandi nýjung sem við erum að máta við okkar verkefni.“

Jónas:

„Við tökum líka kúrsa á netinu í því nýjasta hverju sinni, en svo er gervigreindin auðvitað mikið áhugamál hjá okkur öllum, ekki bara vinna. Við mætum ekki bara á skrifstofuna til að forrita lausnir og stimplum okkur svo út. Við hlustum meðal annars á hlaðvörp sérfræðinga þar sem verið er að fjalla um tæknina frá ýmsum sjónarhornum.“

Það þýðir ekkert að fálma út í myrkrið

Hvaða ráð mynduð þið gefa fyrirtækjum sem vilja kanna möguleika spunagreindar og annarra gervigreindarlausna?

Dennis:
„Númer eitt er að fá gögnin í lag, hreinsa þau og skipuleggja. Svo þarf að setja niður stefnu, greina hvar sársaukinn liggur, hvar helstu tækifærin liggja – það þýðir ekkert að fálma út í myrkrið. 

Við höfum verið að bjóða fyrirtækjum svokallaðan Vegvísi, sem er stefnumótunarverkefni sem lýkur með skilgreiningu á fyrstu prótótýpu. Þetta er leið sem við mælum með og hefur reynst mjög vel.“

Miklar væntingar viðskiptavina

Hverjar eru stærstu áskoranir ykkar í starfi?

Dennis:
Væntingastjórnun gagnvart viðskiptavinum kemur fyrst upp í hugann. Sumir hafa háar hugmyndir um að keyra í gegn alls kyns lausnir og hafa væntingar um skýran árangur á stuttum tíma. 

Til að sjá raunverulegan árangur þarf hins vegar að byggja á góðum grunni, skoða t.d. vel hvaða gögn eru fyrir hendi og í hvaða ástandi þau eru. Það er miklu betra að byrja smátt, velja eitt prufuverkefni af tíu mögulegum, og byggja svo ofan á það.“

Jónas:
„Já, ég er sammála þessu, ekki síst punktinum með gögnin. Það getur tafið og truflað að hafa ekki gott aðgengi að gögnunum, að þau séu rétt sett upp og hægt að vinna úr þeim. Þetta á sérstaklega við um talnagögn, það er heldur auðveldara að vinna með textagögn og mállíkön. Tölurnar krefjast meira skipulags.“ 

Dennis og Jónas á skrifstofu DataLab í Borgartúni

Hvaða verkefni hjá DataLab standa upp úr? Eru einhver sem eru meira spennandi en önnur?

Jónas:

„Mér finnst þetta bara allt mjög spennandi. Þetta eru vissulega mjög ólíkir viðskiptavinir og þarfir.

Við höfum verið að þróa mjög flotta lausn sem nýtir þessa nýju gervigreindartækni, þ.e. spunagreind. Lausnin heitir „Ari – þarfasti þjónninn” og framundan er vinna við að koma honum fyrir í starfsemi fyrirtækja og stofnana hér á landi, gera hann að sannkölluðum sérfræðingi í starfseminni sem margfaldar afköst starfsfólks. 

Arion banki og Samband íslenskra sveitarfélaga hoppuðu fyrst á vagninn með okkur og nú erum við komin á kaf í ferðaþjónustuna sem er mjög spennandi. Svo erum við á fullu að vinna í því að loka næstu dílum, áhuginn þarna úti er mikill enda um tímamótatækni að ræða.“

Dennis:
„Lausnirnar fyrir Domino’s er í miklu uppáhaldi hjá mér. Þar höfum við verið að þróa meðmælakerfi til að stækka körfu og bæta notendaupplifun. Notendur eru auðvitað gríðarlega margir þannig að hver breyting sem við gerum í lausninni hefur áhrif á svo marga.

En mér finnst líka mjög spennandi það sem við erum að gera fyrir Oceans, sem er sprotafyrirtæki sem býður gagnalausnir fyrir sjávarútveginn.

Þar erum við að þróa spunagreindina inn í lausnir þannig að hægt verði að „spjalla við gögnin“, biðja t.d. á mannamáli um gröf sem sýna tiltekna þróun eða spá um verð inn í framtíðina.”

„Domino´s árið þitt 2022“ var verkefni í anda „Spotify Wrapped“, þar sem viðskiptavinir fengu persónulega greiningu út frá viðskiptum yfir árið.

Margar leiðir inn í gervigreindina

Hvaða ráð eigið þið fyrir ungt fólk sem vill vinna við að þróa gervigreindarlausnir, t.d. hvað varðar nám? Er formlegt nám kannski að verða úrelt?

Jónas:

„Nei, góð menntun er mikilvæg og verður áfram. Nám í tölvunarfræði, stærðfræði og gagnavísindum er allt saman gagnlegt, en þetta er líka spurning um hvar þú vilt sérhæfa þig, hversu djúpt þú vilt kafa. 

Það er heldur ekkert vitlaust að koma úr dálítið annarri átt, eins og ég – það eru ýmsar leiðir inn í geirann. Og það er líka mikilvægt fyrir þróunarteymi að þar sé fjölbreyttur bakgrunnur og ólík sýn á hlutina.“

Dennis:

„Það er mjög gott að hafa grunn í forritun, eyða tíma í að æfa sig á því og vinna með gögn. Það er margar open-source lausnir til, t.d. www.kaggle.com, þar sem fólk deilir kóðum og gagnasöfnum til að æfa sig.“

Byltingin er raunveruleg

Hvernig sjáið þið fyrir ykkur þróun gervigreindar á næstunni? Er einhver leið að spá hvert leiðin liggur?

Dennis:

„Það er mjög erfitt að spá fyrir um þróunina, hún er svo hröð. Við vitum samt að þetta verða sífellt fullkomnari tól, nákvæmari, hraðari. Þau munu geta unnið með fjölbreyttara efni; mynd, hljóð og texta, og blandað því öllu saman. 

Svörin verða miklu betri, gæðin meiri, notkunarsviðin fleiri.

Það er til dæmis stór bylting handan við hornið í vídeóvinnslu, sem mun hafa mikil áhrif á t.d. leikja- og kvikmyndaiðnaðinn. Það verður miklu ódýrara að framleiða CGI efni og verður jafnframt aðgengilegt fyrir einstaklinga. Þetta verður sprenging.“

Jónas:

„Nú er verið að þjálfa upp nýjustu líkönin á miklu stærri gagnasöfnum. Nýjasta GPT módelið er t.d. þjálfað á margfalt meiri gögnum en GPT-4. Ég spái því að eftir 3-5 ár munum við virkilega finna fyrir tækninni, hvernig hún mun hafa áhrif á allt okkar líf og störf.

Það er mikil samkeppni á milli þróunaraðila og mikilvægt að læsast ekki í tiltekinni lausn, t.d. ChatGPT. Við verðum að geta tengt í allar áttir.

En það er klárlega raunveruleg bylting framundan – það er innistæða fyrir “hype-inu” í þetta sinn.“

Jónas ásamt samstarfsfólki í lyftu á leið til jarðar!

Hans Júlíus Þórðarson.

„Gervigreindin gefur okkur sköpunarkraft“

1 min read

„Gervigreindin gefur okkur sköpunarkraft“

Ungt fólk er áberandi meðal þeirra sem leiða vagninn í þróun gervigreindar. Það er ekki skrýtið, enda er þar unnið á jaðrinum, með nýjustu þekkingu...

Read More
Stafræn umbylting kallar á snjallvæðingu

Stafræn umbylting kallar á snjallvæðingu

Datalab réði á dögunum til starfa tvo unga sérfræðinga, Bjarna Braga Jónsson (t.v.)og Ágúst Heiðar Gunnarsson (t.h.), en þeir hafa báðir nýverið...

Read More
Generative AI hjá DataLab: Stafrænir ráðgjafar og mælaborð sem spjalla

Generative AI hjá DataLab: Stafrænir ráðgjafar og mælaborð sem spjalla

Generative AI – eða spunagreind – fer nú eins og eldur um sinu hvert sem litið er. Það heyrast spádómar um endalok Google og netsins eins og við...

Read More