Við lifum á áhugaverðum tímum | Annáll DataLab 2023 | SEINNI HLUTI
Við höldum áfram þar sem frá var horfið…á þessu tímamótaári í tæknisögunni þegar gervigreind varð í fyrsta sinni hluti af meginstraumnum.
Gott, viðburðaríkt, krefjandi og skemmtilegt ár er að baki hjá DataLab.
Ár númer átta.
Það er engin lognmolla í hringiðu gervigreindarbyltingarinnar. Hvorki hér né annars staðar.
Á bilinu 30-40 fyrirtæki og opinberir aðilar áttu viðskipti við DataLab á árinu og við þökkum þeim öllum kærlega fyrir.
Enn fleiri áttu við okkur samskipti á fundum og kynningum sem við kunnum líka vel að meta. Það er svo lærdómsríkt að hitta fólk í atvinnulífinu og ræða hvernig nýta megi gögn og gervigreind til góðra verka.
Viðskiptavinir okkar á árinu er fjölbreyttur hópur fyrirtækja í verslun, heildsölu, fjármálastarfsemi, fjarskiptum, ferðaþjónustu, orkuvinnslu og veitustarfsemi. Opinberu aðilarnir eru líka fjölbreyttir; sveitarfélög, stéttarfélög, ráðuneyti og æðstu stofnanir ríkisins.
Það var í mörg horn að líta hjá Dennis, Fannari og Helgu á árinu, enda fjölgaði viðskiptavinum umtalsvert.
Þjónustan sem við veittum þessum aðilum er líka fjölbreytt. Fyrirferðamestar eru lausnir DataLab, t.d. Ari eða ýmsar gagnalausnir sem miða að undirbúningi gagna fyrir hagnýtingu þeirra eða hagnýta gögnin með snjöllum hætti. En fræðsla og ráðgjöf hefur líka sótt í sig veðrið, t.d. Vegvísir, Kortlagning tækifæra eða Hugvekja. Stundum byrjum við á þeim endanum og færum okkur svo yfir í lausnir. Eða öfugt.
Við áttum í góðu samstarfi við nokkur fyrirtæki á tæknisviðinu og vonandi verður hægt að fjölyrða meira um það á næstu mánuðum. DataLab hefur haslað sér völl sem hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar gervigreindarlausnir og undirbýr jarðveginn - gögn og innviði - fyrir hagnýtingu slíkra lausna. Það dugar okkur.
Að lokum má nefna fjölda viðburða þar sem fulltrúar DataLab komu fram til að fræða starfsfólk og fundargesti um framfarir gervigreindar. Þeir skipta tugum á árinu og eru mjög gefandi.
Binni Borgar á Mannauðsdeginum í október 2024 þar sem hann flutti erindi um hagnýtingu spunagreindar í starfsþróun.
Árið 2025 verður vægast sagt spennandi.
Við iðum bókstaflega í skinninu að hefjast handa við að leysa verkefnin sem bíða okkar strax í upphafi árs.
Helga og Fannar hvíla lúin bein á bogahestinum, tilbúin í átök ársins.
Þegar árið sem er að líða var gert upp, komu fram fjögur áberandi þemu sem fanga það ágætlega.
Ari | Þarfasti þjónninn frá DataLab var fyrst kynntur á UT messunni í febrúar sl.
Þá hafði þróun lausnarinnar staðið yfir í tæpt ár, allt frá því að opnað var á GPT-4 mállíkanið frá OpenAI.
Við fjölluðum um Ara í bloggpósti í febrúar 2024 og töluðum m.a. um nafngiftina.
Auðvitað er Ari fróði Þorgilsson (f. 1067 – d. 1148) ofarlega í huga. Höfundur Íslendingabókar og Landnámu og talinn upphafsmaður þeirrar hefðar að skrifa handrit á íslensku (forn-norrænu) fremur en latínu eins og lenskan var á þeim tíma. Svo var Ari fróði gjarn á að vísa í heimildir sem okkur þykir til fyrirmyndar.
Þeir nafnar eiga því ýmislegt sameiginlegt.
Ari fróði og Ari klári.
Nú eru nákvæmlega 900 ár síðan Ari hóf að skrifa Íslendingabók og tímabært að einhver haldi nafni hans á lofti á gervigreindaröld.
Svo hafa glöggir lesendur áttað sig á því að það eru ansi mörg orð í íslensku sem enda á …ari. Við getum nefnt forritari, skrifari, teiknari.
Eftir því sem við náum betri tökum á spunagreindinni má gera ráð fyrir að við felum lausnum eins og Ara sífellt fleiri verkefni.
Hann verður líklega aldrei kallaður bakari, rokkari eða fiskari en mögulega ritari og allsherjar meðhjálpari í dagsins önn : )
Ari hefur frá upphafi verið þróaður í samstarfi við viðskiptavini og þeirra notendur sem er frábær leið til að leysa raunveruleg vandamál og skapa virði.
Á árinu héldum við áfram að þróa Ara í góðu samstarfi við enn fleiri viðskiptavini sem komu fram með nýjar og áhugaverðar kröfur sem við höfum reynt að mæta. Þannig hefur þekkingin í teyminu á þessari nýju tækni margfaldast á skömmum tíma og bætist ofan á þá miklu þekkingu sem fyrir var á gagnatækni.
Nú erum við farin að lýsa Ara sem hugbúnaðarlausn hugsar með mállíkönum. Til þess nýtir hann erindreka (e. AI agents).
Erindrekin gervigreind (e. agentic AI) er það sem koma skal eins og okkar helsti sérfræðingur í þeim efnum lýsti svo vel í bloggpósti frá nóvember sl.
Og á þeim grunni eykur Ari aðgengi að þekkingu sem falin er í fjölbreyttum og jafnvel viðkvæmum og aðgangsstýrðum gögnum og leysir verkefni. Þannig margfaldar Ari nú afköst sérfræðinga í fjármálaþjónustu, ferðaþjónustu, opinberri þjónustu og víðar. Og ef marka má áhugann og fjölda kynningarfunda má ætla að listinn eigi eftir að lengjast talsvert á nýju ári.
Samhliða munum við gera Ara að enn öflugri og fjölhæfari hugbúnaðarlausn. Árið 2025 mun Ari t.d. geta svarað fyrirspurnum og brugðist við fyrirmælum almennings, þ.e brugðið sér í hlutverk spjallara! á ytri vef.
Það verður stórt skref en hingað til höfum við eingöngu innleitt Ara til brúks innan vinnustaðarins, þ.e. til að styðja starfsfólk.
Dennis og Sigurður Óli leggja á ráðin um framtíð Ara í Hörpu í nóvember sl.
Já það hefur aldeilis verið stuð í mannauðsdeild DataLab á árinu sem er að líða. Við misstum afar gott fólk á vit ævintýranna en sóttum enn betra í staðinn og bættum svo í.
Nú í upphafi ársins munum við líklega rjúfa tíu manna múrinn og rúmlega það. Við höfum verið einkar heppin að fá inn í teymið gott fólk sem kann sitt fag en líka að halda uppi stuðinu.
Það er því gaman í vinnunni, sama hvernig vindar blása í Borgartúninu.
Teymi DataLab í desember 2024. Enn komumst við öll í eina lyftu en við þurfum brátt stærri lyftu ef vel á að vera. Hún er farin að pípa!
Þegar við erum ekki að forrita þá dönsum við húlahopp til að gleyma amstri dagsins.
Sum halda með gömlu góðu gervigreindinni (e. Traditional AI) sem einnig hefur verið kölluð þröng gervigreind. Tími hennar er löngu kominn en segja má að DataLab hafi verið stofnað um hagnýtingu hennar hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Við höfum svo tekið þeirri nýju, spunagreindinni (e. Generative AI), opnum örmum.
Á meðan hæp-vagn spunagreindarinnar fer með himintunglunum er gamla góða gervigreindin jafnt og þétt að sækja í sig veðrið. Það fer kannski ekki hátt en við finnum svo sannarlega fyrir því. Þegar íhaldssamir lögfræðingar og embættismenn útí bæ eru farnir að tala um vélnám, spálíkön og þvíumlíkt þá vitum við hvað klukkan slær.
Hefðbundin gervigreind á enn eftir að skila miklu virði hér á landi á næstu árum og áratugum. Spunagreindin er afar spennandi og á mikið lof skilið en á ekki alltaf við. Stundum er það sú hefðbunda sem leysir málið mun betur.
Hér gæti Jónas verið að tala um hefðbundna gervigreind. Sigurður Óli leggur við hlustir.
Í upphafi skyldi endinn skoða.
Og á það einkar vel við um gervigreindina.
Nú um stundir er freistandi að hlaupa af stað og gera nánast bara eitthvað. Það er þrýstingur úr öllum áttum að byrja að nýta þessa 'töfratækni' og þá eru mörg tilbúin að keyra af stað, slá keilur...jafnvel án þess að hugsa málið til enda.
Það má alveg byrja á nokkrum tilraunum með þessa tækni en ef alvara er í spilinu mælum við með að taka gott samtal innan vinnustaðarins undir leiðsögn fagfólks.
Frá stofnun DataLab hefur ráðgjöf um hagnýtingu gagna og gervigreindar verið hluti af okkar þjónustuframboði. Einfaldlega vegna þess að við teljum góðan undirbúning margborga sig. Hann sparar tíma og fé og dregur úr líkum á afdrifaríkum mistökum.
Af hverju að fálma stefnulaust útí myrkrið þegar það er óþarfi? Sífellt fleiri komast að þeirri niðurstöðu að góður undirbúningur er gulls í gildi.
DataLab á Alþingi. Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis og Binni Borgar handsala samning um Vegvísi um hagnýtingu gervigreindar á skrifstofu Alþingis í desember 2024.
Þegar við gerum þetta allt saman upp er líklegt að ársins 2024 verði minnst sem ársins þegar starfsemi DataLab hóf sig til flugs.
Nú erum við komin á loft og hækkum enn flugið.
Ókyrrð framundan? Ef svo er, þá er bara að spenna beltin og njóta ferðalagsins með góðu fólki.
Við hlöðum batteríin í jólafríinu og komum fersk og ákveðin til baka.
Við þökkum góð samskipti á árinu sem er að líða.
Teymi DataLab í jólastuði í desember 2024. Frá vinstri: Fannar, Bergur, Kjartan, Sigurður, Stella, Helga, Jónas, Dennis og Binni.
Við höldum áfram þar sem frá var horfið…á þessu tímamótaári í tæknisögunni þegar gervigreind varð í fyrsta sinni hluti af meginstraumnum.
Við vissum að árið 2023 yrði áhugavert.