Verslanir hagnýta gagnadrifnar og snjallar lausnir

Með hverju árinu sem líður verður tæknin hagkvæmari, aðgengilegri, og áreiðanlegri. Gagnadrifnar lausnir sem hagnýta gervigreind ryðja sér til rúms í verslun og smásölu á ógnarhraða.

Nú er að hrökkva eða stökkva.

Netverslun sækir í sig veðrið

Netverslun nýtur sívaxandi vinsælda á kostnað hefðbundinnar verslunar. Þar hafa atriði eins og vöruúrval, auðveldur verðsamanburður, aðgengi að upplýsingum um vörur, sérsniðin upplifun og þægindi skipt miklu máli.

Covid-19 faraldurinn hefur virkað eins og sterasprauta á þessa þróun eins og við þekkjum flest á eigin skinni. Nú er meginþorri landsmanna farinn að nota netverslanir að staðaldri, m.a. til að kaupa í matinn, og við munum aldrei líta til baka.

Eftirspurnin hefur aldrei verið meiri og hafa íslenskar verslanir brugðist við með aukinni fjárfestingu í tækni og ferlum sem styðja við netverslanir.

Vegferðin hefst á smíði og innleiðingu stafrænna innviða og samþættingu kerfa. Gagnasöfnun er hafin og þá er tímabært að þróa og innleiða gagnadrifinnar og snjallar lausnir sem m.a. hagnýta gervigreind. Þessar lausnir styðja sjálfvirkni, t.d. í verðlagningu, birgðastjórnun og stjórnun viðskiptatengsla, og sérsníða upplifun að hverjum og einum notanda.

Stafrænir innviðir…Gagnasöfnun …Gervigreind og snjallar lausnir… Sjálfvirkni…Sérsniðin upplifun

Boltinn er farinn að rúlla í íslenskri netverslun og á næstu misserum mun samkeppnisforskotið í meira mæli byggja á hagnýtingu gagna í snjöllum lausnum.

Hefðbundnar verslanir bregðast við

Neytendur munu að sjálfsögðu áfram að nota hefðbundnar verslanir í miklum mæli en gera auknar kröfur um persónusniðna þjónustu eins og þeir eiga að venjast úr netviðskiptum. Og þeir ætlast líka til að fá heildræna upplifun frá fyrirtækjum sem selja bæði í gegnum vefi sína og í verslunum.

Gervigreindin hefur áhrif í gegnum alla virðiskeðju smásölu og mun skera úr um hvaða fyrirtæki koma á báðum fótum niður út úr hvirfilbyl kórónukófsins. Og það er einmitt með gervigreindinni sem hefðbundin verslun á möguleika á að verja sína stöðu og jafnvel styrkja.

Hér eru nokkur dæmi um notkunarmöguleika gervigreindar í smásölu og hvernig leiðandi fyrirtæki eru að nýta sér hana.

Dýnamísk verðlagning

Gervigreindarlíkön eru mjög hentug til dýnamískrar verðlagningar í rauntíma. Slík verðbestun, þar sem verð er stillt af sem nákvæmast eftir framboði og eftirspurn á hverjum tíma, er bæði seljanda og kaupanda í hag.

Allir vilja kaupa — og selja — á besta verðinu. Þegar lítil eftirspurn er eða umframframboð á markaði er skynsamlegt að lækka verð til að hreyfa vöruna, og öfugt.

Til viðbótar við sveiflur í framboði og eftirspurn getur gervigreindin notað breytur eins og veðurfar, verðbreytingar samkeppnisaðila, umfjöllun um vöruna í fjölmiðlum, og tímasetningu innan dags, viku, mánaðar eða árs til að stilla af verð með sjálfvirkum hætti og í rauntíma. Jafnframt er skynsamlegt að hreyfa við verðinu þegar styttast fer í síðasta söludag til að koma í veg fyrir sóun. Þar dugar ekkert annað en sjálfvirkni.

Veðurfar hefur áhrif á eftirspurn eftir matvælum

Heildarupplifun viðskiptavina og einstaklingsmiðuð þjónusta

McKinsey spáir því að 85% af allri sölu fari enn fram í hefðbundnum verslunum 2025. Kaup Amazon á Whole Foods sýnir að netrisar veðja á vöxt og þróun í hefðbundinni dagvörusölu. Margir neytendur kjósa að leita upplýsinga um vörur á netinu en ganga frá viðskiptum í verslununum sjálfum.

Aðrir kaupa vörurnar í netsölu en sækja þær í verslanirnar eða aðra afhendingarstaði. Þar eru tækifæri til kross- og viðbótarsölu, enda geta gervigreindarlausnir mælt með vörum sem byggja á samskiptagögnum viðskiptavinarins í gegnum stafræna miðla; netviðskipti, samfélagsmiðla, snjallmenni eða tölvupóst.

Svokölluð „omni channel“ nálgun er lykilatriði í þessu samhengi. „Omni channel“ nálgun eða heildarupplifun viðskiptavinar af tilteknu fyrirtæki eða vörumerki byggir á því að gögn um samskipti og viðskipti viðskiptavina séu samhæfð og uppfærð í rauntíma á milli kerfa. Þannig er haldið utan um öll gögn á einum stað sem verða til um hvern viðskiptavin.

Samkvæmt könnun McKinsey kjósa 83% neytenda persónulega upplifun í verslunarferðum sínum og rannsóknir fyrirtækisins benda til að árangursrík innleiðing slíkra lausna gæti aukið sölu verslana um 20–30%. Það er til mikils að vinna á markaði þar sem bitist er um hvert brot úr prósenti í markaðshlutdeild.

Tryggðakerfi er önnur leið til að halda viðskiptavinum og bjóða þeim persónuleg kjör og þjónustu sem byggja á sögulegum viðskiptum þeirra. Gervigreindin hefur sömuleiðis mikla möguleika á að hámarka not af slíkum kerfum og má gera ráð fyrir að t.d. íslenskar matvöruverslanir séu nú þegar með áætlanir um að kynna tryggðarkerfi til sögunnar nú þegar netverslun hefur rutt sér til rúms á þeim markaði með tilheyrandi gagnasöfnun, auðkenningu og sjálfvirkni. Aðrir geirar gætu fylgt í kjölfarið.

Snjallmenni og sjálfvirkni

Flestar íslenskar matvörukeðjur hafa á skömmum tíma innleitt sjálfsafgreiðslustöðvar í verslanir sínar, sem styttir biðraðir og sparar launakostnað. En leiðandi smásölukeðjur í heiminum, til dæmis Tesco, Walmart og Carrefour hafa tekið slíka tækni til þjónustu við viðskiptavini á allt annað stig.

Snjallmenni gera sig ekki aðeins heimakomin á vefsíðum netverslana; þau eru nú farin að sjást rúllandi um í hefðbundnum verslunum þar sem þau geta til dæmis tekið við pöntunum eða veitt upplýsingar. Þetta er sérstaklega gagnlegt utan venjulegs opnunartíma og sparar fyrirtækjum launakostnað á yfirvinnutíma.

Hvar finn ég lífrænan kúskús?

Íslensk máltækni tekur nú miklum framförum en slík tækni er forsenda þess að við getum átt eðlileg samskipti við snjallmennin. Ekki er erfitt að sjá fyrir sér þessa tækni birtast einn góðan verðurdag á göngum stórra íslenskra sérverslana þar sem starfsfólk er sífellt á þönum daginn inn og út að svara fyrirspurnum ráðvilltra og óþolinmóðra viðskiptavina. Byggingavöruverslanir koma upp í hugann.

Snjalltækni er einnig nýtt til að skynja birgðastöðu í hillum og til að stýra mátunarklefum í fataverslunum. Walmart hefur sett upp um vélmenni í um 1000 verslunum sínum sem keyra um ganga og skanna hillur til að skrá vöruvöntun og panta áfyllingu.

Þá hafa keðjur eins og Kroger í Bandaríkjunum innleitt snjallskynjara til að fylgjast með réttu hitastigi matvæla og tilkynna um frávik. Það lágmarkar tjón vegna skemmda og eykur líftíma viðkvæmra vara (íslenska tæknifyrirtækið Controlant notar svipaða tækni til að fylgjast með hitastigi bóluefnis Pfizer vegna Covid-19).

Kroger hefur einnig innleitt stafræn verðskilti í verslanir sínar sem gerir þeim kleift að breyta verðum í rauntíma, samanber umfjöllun að ofan, en einnig að koma á framfæri upplýsingum um vöruna.

Stafræn verðskilti hjá Kroger

En skiltin eru líka notuð til að birta auglýsingar, sem eru sérsniðnar að þeim sem standa við hilluna. Hvernig er það gert? Jú, örsmáar myndavélar taka vídeó af viðskiptavinum og myndgreiningartækni greinir kyn og aldur þeirra.

Birgðastýring

Spálíkön sem byggja á gervigreind munu áfram setja mark sitt á þróun birgðastýringarkerfa smærri og stærri verslana. Líkönin taka með í útreikninga sína sögulegar sveiflur í eftirspurn og breytur eins og veður og annað sem hefur áhrif á eftirspurn. Innkaupakerfi Walmart hefur til dæmis uppgötvað að steikur seljast betur þegar veður er vindasamt og skýjað, en hamborgara rjúka út þegar heitt er úti og heiður himinn.

Þessi fann snakkið sitt og kemur pottþétt aftur

Það er fátt sem veldur viðskiptavinum meiri gremju en vöruvöntun sem kallar á enn eina heimsóknina eða bíltúr í aðra verslun í hinum enda bæjarins. Margir neytendur þekkja það vel á eigin raun að þurfa að heimsækja 2–3 matvöruverslanir til að fá allt sem þarf til heimilisins þá vikuna.

Verslanir sem leysa vandann selja meira.

IoT tækni og nemar

Tæknirisar eins og Amazon með Amazon Fresh og Amazon Go verslunum sínum og Walmart með tilraunaverslun sinni „Intelligent Retail Lab“ (IRL) eru að prófa sig áfram með fjölbreytta snjallnema og háþróuðum myndavélum hlaðnar myndgreiningartækni.

Amazon leggur áherslu á stílfærða, stafræna upplifun þar sem skráning inn í verslunina fer fram í símaappi og viðskiptavinurinn gengur út án þess að þurfa að ganga frá greiðslu sjálfur (sjá myndbrot hér að neðan), en Walmart vill nýta tæknina til hámarksnýtingar á plássi og fólki; hafa hillur fullar á réttum tíma, minnka sóun á matvælum og bregðast strax við eitthvað fer úrskeiðis.https://cdn.embedly.com/widgets/media.html?src=https%3A%2F%2Fwww.youtube.com%2Fembed%2FmiCGDT8L17c%3Ffeature%3Doembed&display_name=YouTube&url=https%3A%2F%2Fwww.youtube.com%2Fwatch%3Fv%3DmiCGDT8L17c&image=https%3A%2F%2Fi.ytimg.com%2Fvi%2FmiCGDT8L17c%2Fhqdefault.jpg&key=a19fcc184b9711e1b4764040d3dc5c07&type=text%2Fhtml&schema=youtubeVerslunarferð í Amazon Fresh veitir jafnframt innsýn í framtíðina

Tækniverslun Walmart er ekki eins stílhrein og Amazon Go, en gríðarlega öflug tækni er í prófun þar, bæði í versluninni sjálfri og í öflugustu netþjónum í bakvinnsluherbergjum sem vinnur úr gögnunum.

Árangur Walmart áhugaverður. Til dæmis hefur tekist að auka kjötsölu um 30% með aðstoð myndgreiningartækni, og 90% árangur í áfyllingum hefur skilað sér í stórminnkaðri rýrnun og aukinni sölu, en fullar hillur á annatíma getur aukið sölu um 20%.

Fullar hillur, meiri sala

Báðar keðjurnar nota myndgreiningartækni til að teikna upp hitakort af umferð um verslanir sínar til að bæta skipulag, flæði og upplifun viðskiptavina. Þessa tækni er einnig verið að þróa til að greina grunsamlega hegðun viðskiptavina og koma í veg fyrir þjófnað.

Keðjur eins og Kroger eru einnig komnar vel á veg með alsjálfvirkni birgðastýringu, og franska keðjan Carrefour gerði samning við SAS Vija, og er fyrst franskra dagvörukeðja til að ráðast í snjallvæðingu á sinni starfsemi.

Samantekt og staðan hér heima

Tækni í smásölu er í mjög hraðri þróun, þar sem meðal annars er verið er að útfæra „omni channel“ upplifun fyrir viðskiptavini, samþætta upplýsingar úr mörgum kerfum í eitt í rauntíma, til að bæta þjónustu og upplifun viðskiptavina. Gervigreindartækni er nú víða í prófun eða þegar í notkun í verslunum, þar sem snjallmenni aðstoða við þjónustu, upplýsingar og afgreiðslu, skynja birgðastöðu í hillum og panta.

Gervigreindin er notuð til að draga úr rýrnun, koma í veg fyrir þjófnað og til að gera upplifun kaupandans persónulegri. Ein mikilvæg notkun tækninnar er að stýra verðlagningu dýnamískt eftir sveiflum í ytri breytum eins og verði samkeppnisaðila, tímabundnum framboðsskorti, tíma vikunnar o.s.frv.

Það er mikil hreyfing nú á dagvörumarkaðnum, bæði hér og erlendis, og miklar tæknibreytingar framundan sem íslenskir neytendur munu örugglega kynnast innan skamms. Keðjur eins og Samkaup hafa kynnt samninga við danska samstarfaðila um innleiðingu tæknilausna, Krónan er nútímaleg í hugsun og mjög meðvituð um þarfir viðskiptavina sinna.

Nýlega voru kynntir tveir nýir stjórnendur til Haga sem augljóslega eru ráðnir til að ráðast í það spennandi verkefni að draga Hagkaup og Bónus inn í nútímann.

Það eru spennandi tímar framundan.

Deila grein

Fleiri greinar

Ari er

Þarfasti þjónninn frá DataLab eykur aðgengi að þekkingu sem falin er í texta.

Lesa meira »

NÝTUM GÖGNIN.
NÁUM ÁRANGRI.

DataLab Ísland ehf.
kt. 570816-1870

Borgartúni 37
105 Reykjavík

datalab@datalab.is
693 0100