4 min read

Nærhagaær spunagreindar

Nærhagaær spunagreindar
Vika er langur tími í gervigreind 

Nú er liðið meira en ár síðan spunagreindarlausnin okkar, Ari, kom fram. Við byrjuðum að skoða möguleikana í hagnýtingu spunagreindar snemma árs 2023 og settum saman lausn sem byggði á fremstu tækni þess tíma. Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík og á það sannarlega einnig við í heimi gervigreindar. Það hefur því ýmislegt breyst síðan 2023 og ástæða til að staldra við og taka stöðuna; hvaðan erum við að koma, hvar erum við núna og hvert erum við að fara? 

Við höfum undanfarið verið að innleiða Ara fyrir fjölbreytta viðskiptavini og spjallað við ótalmarga aðila sem vilja finna leiðir til að nýta sér þessa tækni í sinni starfsemi. Það er ljóst að væntingarnar eru miklar og verkefnin fjölbreytt. 

Sérfræðingur í starfseminni 

Við tókum snemma þá stefnu að innleiða Ara fyrst fyrir starfsfólk á meðan tæknin væri að þroskast. Það gaf okkur tækifæri til að þróa lausnir í minna áhættusömu umhverfi áður en þær færu út til viðskiptavina. Einnig mátti þá leysa verkefnin þannig að Ari kæmi með drög að lausn flóknari mála sem starfsmaður yfirfæri og aðlagaði áður en sett væri í framkvæmd eða viðskiptavini svarað. Ari varð þannig sérfræðingur í starfseminni sem aðstoðaði starfsfólk við sína vinnu.

Ari hjá Nordic Ari hjá Nordic Visitor. Sannkallaður sérfræðingur í starfseminni sem styður við starfsfólk sem svarar fjölbreyttum fyrirspurnum viðskiptavina um áfangastaði og þjónustu Nordic Visitor. 

 
Hugsum stærra 

Það sem fólk hugsar fyrst um þegar það hugsar um spunagreind er spjallmenni og það er góð ástæða fyrir því, enda magnað að sjá hversu öflugar slíkar lausnir geta verið. Eldri tækni sem var notuð til að gera spjallmenni gerði mögulegt að sjálfvirknivæða svörun við einföldum spurningum og mest var þá einblínt á þjónustuver þar sem mikið kom af einföldum spurningum.  Spunagreindin hefur sannarlega gert slíkar lausnir betri og auðveldari í þróun. 

En byltingin við nýju tæknina felst ekki í þessari hlutfallslegu bætingu heldur í möguleikanum á því að leysa flóknu málin sem ekki hefur verið fýsilegt að leysa með tækni hingað til. Það er okkar sýn að það sé of takmarkandi að hugsa um hagnýtingu spunagreindar einungis út frá spjallmennum. Til þess að virkja þessa nýju tækni til fulls sé ástæða til að hugsa stærra. 

IMG_7191Ein holdmikil á beit!

Spunagreind í víðara samhengi 

Einungis brot af starfsemi fyrirtækja og stofnana liggur í svörun einfaldra spurninga og erinda en önnur regluleg verkefni skrifstofufólks eru risastór óplægður akur á tímum spunagreindar. Þar eru holdmiklu nærhagaærnar. Með því að horfa á þessi flóknari verkefni getum við fengið mun meira virði út úr tækninni. Þetta getur t.d. verið: 

  • Samantekt á flóknum gögnum 
  • Úrvinnsla umsókna 
  • Upplegg að flóknari svörum 
  • Skýrsluskrif 

Einnig er hægt að nýta spunagreind í notendaviðmótum á frumlegan hátt án þess að vera með spjallmenni. Þetta getur t.d. snúist um að gera leit á heimasíðu snjallari eða gera erindamóttöku snjallari.

Spunagreindin hefur gert það að verkum að nú er orðið fýsilegt að sjálfvirknivæða mun fleiri ferla. Áður þurfti að sjá fyrir alla möguleika í ferlinu og útfæra alla ákvörðunartöku handvirkt í kóða eða með RPA tólum. Með spunagreindinni getur hugbúnaður hins vegar tekið sjálfstæðar ákvarðanir út frá fyrirliggjandi gögnum og þeim tólum sem mögulegt er að grípa til án þess að búið sé að hugsa fyrir öllum sértilfellum.  

Hugbúnaður sem hugsar og tekur sjálfstæðar ákvarðanir á grundvelli gagna getur haft mörg andlit.

Það þarf ekki alltaf að vera spjallmenni en ef spjallviðmót þykir heppilegt viðmót til að tala við kerfið er tilvalið að nýta það. Það er hins vegar ekki krafa og stundum er betra að tengja beint inn í núverandi kerfi og ferla. 

Samhæfð lausn með mörg andlit 

Ari er í grunninn lausn til þess að tala við texta- og talnagögnin sín á mannamáli.  Annars vegar er hægt að notast við spjallviðmót sem líkist klassíska ChatGPT viðmótinu fyrir flóknari samtöl, og hins vegar spjallglugga sem má setja í hornið á vefsíðu, og er þá meira eins og klassískt spjallmenni. Spjallviðmót er hins vegar bara ein leið til þess að tala við Ara og það má nýta hann á fjölbreyttari hátt.  

Uppsetning á Ara felst í því að tengja hann við gögn og gera honum kleift að skilja þau. Hægt er að þróa hann til að læra betur á sérstök afmörkuð verkefni og þá má tengjast honum með vefþjónustu til að leyfa kerfunum þínum að tala við hann og keyra einstök ferli. 

Það sem við höfum lært í okkar samtölum og verkefnum er að þessi mismunandi andlit Ara byggja oft á sama grunninum. Hvort sem svara á spurningum viðskiptavina, hjálpa starfsfólki að leysa verkefni, eða leysa verkefni beint inni í kerfum þarf Ari að hafa ákveðna grunnþekkingu. Hann þarf að vera sérfræðingur í starfseminni. 

Því sjáum við mismunandi verkefni byggja hvert á öðru og mikil samlegð getur verið milli notkunartilfella. Því höfum við þróað Ara með erindrekinni (e. agentic) uppsetningu þannig að auðvelt sé að kenna honum að leysa mismunandi verkefni, með mismunandi kröfum og gegnum mismunandi viðmót.  

IMG_9594 (1)-1Sigurður Óli (höfundur) og Dennis Mattsson hjá DataLab horfa fram á veginn.

Hvað er fram undan 

Það er ýmislegt fram undan hjá okkur á árinu og við sjáum að það er mikil eftirspurn eftir lausn eins og Ara. Hér eru nokkur atriði sem við erum að vinna að: 

  • Ari svarar viðskiptavinum: Við erum að vinna að því að geta sett Ara í spjallglugga á heimasíður og tengt við þjónustuverslausnir til að færa samtal yfir til manneskju. Slík verkefni eru á teikniborðinu með nokkrum viðskiptavinum eins og er. 
  • Persónuleg gögn: Við erum að þróa aðferðir sem gera Ara kleift að tala við persónuleg gögn notenda upp úr gagnagrunnum. Ari getur þá svarað t.d. tölulegum upplýsingum upp úr grunnkerfum. Hér er sérstök áskorun í því að ekki má treysta á mállíkönin til að tryggja skýr skil milli gagna notenda heldur þarf að finna aðrar leiðir til að tryggja að ekkert geti lekið á milli. 
  • Forþjálfuð sérþekkingarsvið: Við ætlum að byggja upp tilbúna sérþekkingarpakka sem verða hluti af Ara. Flestir vinnustaðir eiga ýmislegt sameiginlegt. Það þarf t.d. að sjá um mannauðsmál, tala við lögfræðinga og sinna öryggismálum. Ari mun læra á þessi svið og hægt verður að aðlaga þekkinguna að hverri starfsemi. Þannig má setja upp Ara sem kann á starfsemina í víðari skilningi á styttri tíma. 
  • Erindrekin flæði: Við munum nota Ara til að leysa einstök flókin verkefni og tengja inn í núverandi kerfi viðskiptavina. Nokkur gríðarlega spennandi verkefni eru í startholunum sem nýta Ara á þennan hátt. 
  • Tengja talnagögn við textagögn: Við höfum tengt Ara við mikið af textagögnum í verkefnunum okkar en hann hefur líka tengst talnagögnum í gagnagrunnum. Næsta skref er að finna samlegðina í því að geta lesið bæði. 

Það er því nóg að gera hjá okkur þessa dagana og margt spennandi í mótun. Það er ómögulegt að vita hver staðan verður á tækninni eftir ár en við hjá DataLab fylgjumst æst með og stökkvum á tækifærin til að hagnýta öll þau byltingarkenndu tól sem aðilar um allan heim keppast við að gefa okkur aðgang að. 

Asset-1@300x-1024x878-1

 

Árið sem Ari fullorðnaðist

Árið sem Ari fullorðnaðist

DataLab byrjaði að vinna með spunagreind (e. generative AI) og gera markvissar tilraunir með tæknina snemma árs 2023, í kjölfar ChatGPT-4. Fljótlega...

Read More
Hefjumst handa við snjallvæðinguna!

Hefjumst handa við snjallvæðinguna!

Sjálfvirknivæðing með gervigreind að vopni mun á þessum áratug búa til verðmæti í heimshagkerfinu sem svarar til um 15,7 þúsund milljörðum dollara....

Read More
Spálíkön og Spunagreind

Spálíkön og Spunagreind

Í hverri viku eigum við samtöl við aðila sem leita til okkar vegna mikils áhuga á að hagnýta gervigreind í starfseminni.

Read More