Stefnur og gagnastraumar 2023: Datalab spáir í spilin

2023 er gengið í garð og Datalab spáir í spilin fyrir árið. Það er gríðarhröð þróun í snjöllum gagnalausnum eins og í allri stafrænni tækni. Hér verður tæpt á fimm helstu sveiflum í gervigreindinni sem verða áberandi á þessu ári, að mati okkar hjá Datalab.

Haldið ykkur fast!

#1: Lýðvæðing gagnalausna

Gagnadrifin menning er mikilvægur þáttur í árangursríkri innleiðingu snjalllausna. Slík menning felur í sér skilning þvert yfir skipulagsheildina á gildi og verðmæti gagna. 

Í öðru samhengi er talað um lýðvæðingu tækninnar: Mikilvægt að leikir sem lærðir hafi aðgang að tækninni, bæði í leik og starfi. Gervigreindin og verkfæri hennar mega ekki vera frátekin fyrir forritara og innvígða gagnasérfræðinga. 

Og það er raunar forsenda þess að hún nái raunverulega fótfestu í hag- og tæknikerfinu og skapi eitthvað virði – við höfum einfaldlega ekki nægilega marga sérfræðinga til að innleiða tæknina, ef við ætlum að fara þá leið.

Það verður að virkja krafta miklu fleiri.

Gervigreindin nær ekki flugi nema hún verði almenningseign. Sem betur fer stefnir margt í þá átt.

Þetta tengist líka óttanum við tæknina og móttækileika gagnvart óumflýjanlegum breytingum á störfum og skipulagi vinnustaða. Gervigreindin nær ekki að uppfylla væntingar sem til hennar eru gerðar nema hún sé aðgengileg öllum; einstaklingum sem og fyrirtækjum og stofnunum af öllum stærðum og gerðum. 

En mikil þróun í þessa átt hefur orðið á skömmum tíma. Í dag er til dæmis frekar einfalt fyrir leikmenn með litla eða enga þekkingu á forritun – hvað þá gervigreind – að hanna og þróa öpp sem nýta sér háþróuð reiknirit. Dæmi um slíkar þróunarumhverfi er SwayAI og Akkio, sem vert er að kynna sér. 

Þetta er sömuleiðis stefna Dataiku, sem Datalab er í samstarfi við; að bjóða sérfræðingum með fjölbreyttan bakgrunn kosti á því að taka þátt í þróun snjalllausna.

Á þessu ári munum við sjá fleiri svona lausnir spretta fram, sem gera fleirum en gagnasérfræðingum kleift að þróa og vinna með snjallar gagnalausnir.

#2: Spunagreindin tekur stökkið

Annars konar lýðvæðingu gervigreindar urðum við vitni að á síðasta ári. Hver prófaði ekki ChatGDT frá OpenAI á síðasta ári eða myndvinnsluappið Lensa, sem fór sem eldur um sinu samfélagsmiðlanna?

Djúpfölsuð vídeó af Tom Cruise og fleiri stjörnum í ólíklegum kringumstæðum hafa líka flogið á milli fólks. Þar er á ferðinni svipuð tækni.

Sjálfvirknilausnir eru vissulega mikið notaðar til að leysa mannshöndina af hólmi við leiðinleg rútínuverkefni, en snjöll reiknirit geta einnig unnið úr gögnum sem þau eru fóðruð á og spunnið ófyrirsjánleg sköpunarverk, sbr. lausnirnar sem getið er að ofan – látum heimspekilegu spurninguna um hvort vélar geti yfirleitt “skapað” nokkurn hlut liggja milli hluta. 

Þess háttar reiknirit herma í raun eftir sköpunargáfu mannsins.

Árið 2023 munum við sjá enn hraðari þróun í svona lausnum. Brátt verður til dæmis hægt að fóðra spunagreindarforrit með nokkrum setningum sem umsvifalaust framleiða fullbúið vídeóefni með mynd og hljóði.

Ný útgáfa af ChatGPT er væntanleg á árinu sem mun hafa margfalda getu. Hún mun meðal annars geta þýtt jafnóðum á önnur tungumál umbeðnar upplýsingar. Stjórnendur Google boðuðu í fyrra til neyðarfundar vegna þessarar þróunar. 

Lái þeim hver sem vill.

Spunagreindin heldur sigurför sinni áfram á þessu ári. Nú mega bloggarar fara að vara sig.

#3: Data-as-a-Service

Gögnin eru olía nýja hagkerfisins. Fyrirtæki samtímans munu standa og falla með gagnastefnu sinni. Markaður með fjölbreyttar gagnalausnir stækkar enda hratt. 

Einn mikilvægasti vaxtarsprotinn snýr að hinu gríðarlega magni af gögnum sem framleitt er af og miðlað stöðugt í gegnum jaðartæki eins og IoT skynjara og farsíma. 

Að ofan var rætt um öpp sem nýta sér spunagreind (e. generative AI) til að reiða fram alls kyns sköpunarverk, t.d. myndir og texta. Það eru dæmi um lausnir sem þurfa að vinna úr gríðarlegu magni gagna á örskömmum tíma. 

Annars konar gagnadrifnar lausnir, sem byggja á sjálfvirkni, eru til dæmis notaðar við stjórnun aðfangakeðja, í iðnaði, í læknisrannsóknum, við áhættumat og viðbrögðum við náttúruvá. Og lengi mætti áfram telja. 

Þess háttar gagnavinnsla krefst, hraða, skalanleika og sveigjanleika sem er ekki í boði nema í þróuðum skýjalausnum.

Gagnavinnsla í gegnum netþjónustur, eða Data-as-a-Service (hér eftir DaaS), mun halda áfram að vaxa mikið á þessu ári. Slíkar þjónustur líkjast SaaS, en í DaaS fer fram gagnasöfnun, tengingar milli gagnasafna, geymsla gagna og vinnsla þeirra. Snowflake er dæmi um slíka þjónustu.

DaaS lausnir stuðla líka að betra aðgengi að upplýsingum og lýðvæðingu gagnalausna innan stórra fyrirtækja og stofnana, þar sem gögnin eru losuð úr gagnasílóum einstakra deilda.

Þetta er mikilvæg og spennandi þróun sem mun taka kipp á árinu.

#4: Aðgengi að rauntímagögnum eykst

Kröfurnar aukast sífellt um aðgengi að rauntímaupplýsingum (e. real-time data).  Tæknin býður upp á slíka möguleika og mælaborð ýmiss konar eru vinsæl birtingartól fyrir þessa háttar upplýsingar.

En gervigreindin gefur þegar færi á hinu næsta, rökrétta skrefi – sem er að túlka gögnin sem birtast og spá fyrir um framtíðina.

Sprotafyrirtæki eins og Oceans nýtir snjöll reiknirit einmitt til þess, en Oceans sérhæfir sig í miðlun markaðsupplýsinga fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Lestu meira um vegferð Oceans hér.

Nýjar snjalllausnir á árinu munu í auknum mæli nýta sér þjónustur sem vinna úr gögnum og taka ákvarðanir, sem byggja á þeim, í rauntíma. Gartner talar um “continuous intelligence” til að lýsa þessari tækni og spáir því að helmingur nýrra viðskiptakerfa á árinu muni nýta sér hana. 

Apache Flink er dæmi um slíka lausn. Þessi opni hugbúnaður getur unnið úr lifandi gagnastreymi á nokkrum millísekúndum.

Margar nýjar snjalllausnir á árinu munu byggja á rauntímavinnslu gagnastreymis.

#5: Gagnasögur taka flugið

Hvern einasta dag framleiðir stafræn tækni í öllum geirum gríðarlegt magn gagna (getur verið að þetta hafi áður komið fram?). 

Heimurinn er einfaldlega að drukkna í gögnum. 

Í gögnunum leynast oft nytsamlegar upplýsingar, sem geta stutt við betri ákvarðanatöku, og reynt að draga fram í skýrslum og mælaborðum ýmiss konar. 

En það dugar bara sjaldnast til. Flestir eru nefnilega að drukkna í algjöru yfirflæði stafrænna upplýsinga hvers konar og afþreyingar. Tíminn er dýrmætur og þolinmæðin er takmörkuð. 

Þeir sem geta komið tölulegum upplýsingum frá sér þannig að hratt og vel skiljist standa vel að vígi. 

Svokallaðar Gagnasögur (e. data storytelling) svara þessu kalli. Sögurnar setja upplýsingarnar í merkingarbært samhengi sem bæði grípur betur athygli lesandans og veitir honum betri skilning á því sem fjallað er um. 

“Domino’s árið þitt 2022” og Spotify Wrapped, sem eru einmitt afbragðs dæmi um slíkar sögur.

Lestu allt um gagnasögur hér! 

Gagnasögur eins og Spotify Wrapped hafa slegið í gegn víða um heim.

Lokaorð

Árið 2023 er fer sannarlega vel af stað fyrir áhugafólk um gervigreind og snjallar lausnir. Hér hefur verið tæpt á nokkrum tæknilausnum sem Datalab veðjar á að verði í forgrunni á þessu ári- og lengur. En þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum. Gervigreindin er að keyra sig inn í daglegt líf okkar hvert sem litið er.

Við fylgjumst spennt með!

Deila grein

Fleiri greinar

Ari er

Þarfasti þjónninn frá DataLab eykur aðgengi að þekkingu sem falin er í texta.

Lesa meira »

NÝTUM GÖGNIN.
NÁUM ÁRANGRI.

DataLab Ísland ehf.
kt. 570816-1870

Borgartúni 37
105 Reykjavík

datalab@datalab.is
693 0100