Hefjumst handa við snjallvæðinguna!
Sjálfvirknivæðing með gervigreind að vopni mun á þessum áratug búa til verðmæti í heimshagkerfinu sem svarar til um 15,7 þúsund milljörðum dollara....
6 min read
binni : May 4, 2021
Það gera sér ekki allir grein fyrir því að gervigreindin er ekki einhver framtíðarmúsík sem við eftirlátum börnum okkar að fást við. Hún er þegar komin á fulla ferð á öllum stöðum þar sem tækni kemur við sögu og gagna er aflað – og þeir staðir eru fleiri en færri í nútímasamfélagi.
Það er kominn tími til að fyrirtæki og stofnanir setji niður stefnu og aðgerðaráætlun um hvernig þau hyggist nýta sér möguleika gagnalausna og gervigreindar. Án skýrrar stefnu verða allar tilraunir með tæknina ómarkvissar og fálmkenndar, og árangur eftir því.
Stefna um gervigreind eða snjallvæðingu gagna útlistar hvernig gervigreindin styður við heildarstefnu og markmið sem sett hafa verið í rekstrinum. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er að skilgreina hvers kyns gagnaverðmæti og -lausnir skila mestu forskoti á markaði, sem erfitt er fyrir samkeppnisaðila að leika eftir.
Hér verður fjallað um 7 lykilþætti sem þarf að hafa sérstaklega í huga þegar stefna gagnvart gervigreind er mótuð.
Er fyrirtæki þitt tilbúið fyrir gervigreindarbyltinguna? Hjá DataLab starfa sérfræðingar á sviði hagnýtingar gagna í snjöllum lausnum sem m.a. aðstoða við stefnumótun, fræðslu og leiðsögn vegna hagnýtingar slíkra lausna. Hafðu samband og fáðu stutta kynningu á möguleikum gagnadrifinna og snjallra lausna þér að kostnaðarlausu.
Fyrsta skrefið í stefnumörkun á sviði gervigreindar ætti að vera að öðlast grundvallarskilning á tækninni og möguleikum hennar. Þeir stjórnendur fyrirtækja og stofnana sem hafa ekki þegar tekið þetta skref ættu að gera það sem allra fyrst. Gervigreindartækni fleygir stöðugt fram og þeir sem taka ekki þátt strax verða hratt undir í samkeppni á næstu árum.
Gríðarlegt magn gagnlegra upplýsingavefa og aðgengilegra námskeiða er að finna á netinu – og oft er þetta ókeypis efni.
Bernard Marr, einn helsti fyrirlesari og bloggari á sviði gervigreindar, heldur utan um og vísar á námskeið sem hægt er að sækja endurgjaldslaust. Meðal þeirra er „Elements of AI“ frá Háskólanum í Helsinki (á ensku) og „Learn with Google AI“, sem er stórt og hratt stækkandi safn leiðbeininga og upplýsinga um gervigreind.
Almennt má mæla með vef Bernard Marr fyrir stjórnendur og aðra sem ekki hafa tæknigrunn, til að kynna sér nýja strauma í gervigreindartækni.
Einnig má benda á inngangskúrsinn „AI for everyone”, á Coursera í umsjá Andrew Ng, sem er einn helsti gervigreindarsérfræðingur heimsins um þessar mundir.
Mikilvægt er að hlaupa ekki af stað í þróun snjalllausna sem hafa ekki skýran rekstrarlegan ávinning í för með sér. Tæknin á að styðja við markmið í rekstrinum en ekki að vera markmið í sjálfu sér.
Gervigreindin býður fjölmarga möguleika til nýtingar á gögnum, en við val á verkefnum verður að taka mið af því sem skilar mestum ávinningi fyrir reksturinn, ekki því hvað hægt er að gera – bara af því gögnin eru til.
Hér, eins og annars staðar, er gott að hafa 80/20 regluna í huga og forgangsraða verkefnum eftir því hver þeirra skila mestum ávinningi á sem skemmstum tíma, miðað við setta stefnu.
Það liggur til dæmis beint við fyrir þjónustustofnun, þar sem regluleg afgreiðsla og upplýsingagjöf til skjólstæðinga er kjarnastarfsemi, að nýta gögn sín til að bæta þjónustu og flýta afgreiðslu, en fyrir framleiðslufyrirtæki er kannski skynsamlegra að fókusa á snjallvæðingu ferla til að lágmarka sóun og hámörkun á nýtingu aðfanga, eða nýta reiknirit sem spá fyrir um viðhaldsþörf.
Áður en ráðist er í ný verkefni sem byggja á nýrri hugsun, færni og tækni er mikilvægt að greina hvort fyrirtækið er tilbúið í slaginn. Það þarf að meta bilið milli nauðsynlegrar getu og raunverulegrar stöðu í dag. Þetta getugap snýr að ýmsum þáttum, en þeir mikilvægustu eru gæði gagna, mannauður og tækniinnviðir.
Aðrir tengdir þættir eru skipulag, ferlar og forysta. Helstu hindranir gagnvart snjallvæðingu fyrirtækja eru yfirleitt ekki tæknilegar heldur varða stjórnun og menningu fyrirtækisins.
Þessa þætti þarf að meta vel áður en ráðist er í umfangsmikil innleiðingarverkefni.
Til að möguleikar gervigreindar nýtist sem best og víðast í fyrirtækinu er mikilvægt að fá fram ólík sjónarhorn og hagsmuni í fyrirtækinu. Þegar stýrihópur um gagnalausnir er settur saman er mikilvægt að þar séu fulltrúar úr flestum lykildeildum, til dæmis vöruþróun, sölusviði og framleiðslu, auk tæknifólks.
Þegar stýrihópur er settur saman af góðri blöndu af tæknifólki og rekstrarfólki er líklegra en ella að hópurinn komi auga á þær skipulags- og ferlabreytingar sem nauðsynlegt er að ráðast í til að árangur náist með nýrri tækni.
Slíkur hópur kæmi til dæmis auga á að nýju reikniriti sem spáir fyrir um viðhaldsþörf þarf að fylgja yfirhalning á verkferlum við viðhaldið. Og þegar þróunarteymi virkja notendurna sjálfa í hönnun lausnar aukast líkur verulega á að þeir nýti vel lausnina og leggi til mikilvægar breytingar til að þróa hana áfram.
Eitt af hlutverkum slíks teymis gæti til dæmis verið að hreinsa og samræma gögn til að bæta gæði þeirra og gera nýtileg til gagnalausna. Innri gögn fyrirtækja eru iðulega dreifð í margs konar gagnasílóum ólíkra kerfa og í höndum rekstrareininga með mjög mismunandi markmið og forgangsröð.
Öflugir tæknilegir innviðir þurfa að vera fyrir hendi til að takast á við stærri gagnalausnir.
Fyrsti snertiflötur tækninnar er gagnaöflunin. Gögn eru margs konar og koma víða að en í öllu falli þarf gervigreindin hugbúnað sem tekur við og greinir upplýsingar (hljóð, myndir, stafræn gögn úr IoT nemum) og miðlar áfram til vistunar.
Ef þessi hlekkur í tæknikeðjunni er ófullkominn, þá skiptir restin engu máli. Gnægð gæðagagna er fóður snjallra lausna.
Vistun gagna tekur svo við og er mjög mikilvægur liður í tæknihliðinni. Snjallar gagnalausnir þurfa mikið magn gagna til að vinna sína vinnu sem kallar á umtalsverða og örugga gagnavistun. Grundvallaratriði er líka að tenging við gagnageymsluna sé hröð.
Sum stærri fyrirtæki hafa getu til að vista gögnin sjálf, en mörg kjósa að nýta skýjalausnir sem hægt er að skala eftir þörfum, til dæmis Amazon Web Services, Azure frá Microsoft eða Snowflake. Slíkar lausnir bjóða einnig tengingar við fjölbreytt úrval af greiningartólum frá öðrum þjónustuaðilum.
Gagnavinnsla og -greining er svo næsta lag í tækninni. Það eru lausnir á þessu stigi sem koma upp í huga flestra sem hugsa um gervigreind – þetta er heimur reikniritanna.
Mikil þróun hefur átt sér stað undanfarin misseri í AIaaS (e. AI as a Service), eða skýjalausnum fyrir gervigreind. Stór fyrirtæki eins og Amazon, IBM, Google og Microsoft hafa leitt vagninn, en fleiri smærri aðilar bjóðar aðgang að sértækari lausnum fyrir afmarkaðri verkefni. Dæmi um slíka sérhæfða þjónustu er myndgreiningarreiknirit sem greinir myndir af skemmdum bílum vegna bótakrafna.
Með slíkri tækni er hægt að auðvelda mjög aðgengi fleiri að möguleikum gervigreindar og tækla betur fyrirsjáanleg skort á gagnasérfræðingum í næstu framtíð.
Þegar skilgreint hefur verið hvers kyns gagnalausnir styðja best við stefnu og kjarnastarfsemi fyrirtækisins er komið að því að setja fyrstu verkefnin í gang. Skynsamlegast er að byrja á smáum, afmörkuðum verkefnum sem hægt er að ljúka á nokkrum vikum og skila fljótt ávinningi fyrir starfsmenn og/eða viðskiptavini.
Þessi verkefni verða nokkurs konar vegvísar sem varða leiðina áfram, virka sem hvatning til frekari þróunar gagnalausna og fela í sér dýrmætan lærdóm fyrir fyrirtækið.
Þegar þessi fyrstu verkefni eru valin þarf að taka til greina mikilvægi þeirra fyrir kjarnastarfsemi fyrirtækisins, umfang þess, tímaramma og gæði gagna sem eru fyrir hendi.
Þessi litlu sigrar eru svo endurteknir til að sá enn frekar fræjum þeirrar umsköpunar sem fyrir fyrirtækinu liggur. Þróunarteymin vaxa að getu og sjálfsöryggi, og öðlast smám saman sjálfstæði til að drífa áfram ný og spennandi verkefni.
Innleiðing snjallra gagnalausna er leið vörðuð tilraunastarfsemi. Tilraunaverkefnin þurfa að standast prófið, stöðugt þarf að bæta við þekkingu starfsmanna og ferla þarf að straumlínulaga og aðlaga. Og sumt missir marks – gerð verða mistök, sem er nauðsynlegur hluti af þróunarferlinu.
Stefna um innleiðingu snjalllausna verður líka í stöðugri þróun og endurskoðun. Umhverfi fyrirtækja breytist stöðugt og tækninni fleygir fram. Stefnan þarf að bera í sér langtímahugsun og staðfestu, en framkvæmdin þarf að vera sveigjanleg.
Hér hæfir best svokölluð „agile“ nálgun, þar sem þróunaráfangar eru stuttir og reynsla metin eftir hvern áfanga.
Stefna um gervigreind er vegvísir sem er í stöðugri þróun þvert yfir öll svið og víddir fyrirtækisins, hvort sem það er mannauður, ferli eða tækni.
Mikilvægast er að innleiða menningu sem fagnar tilraunastarfsemi og samstarfi þvert á deildir. Þannig menning er best til þess fallin að aðlagast hratt óhjákvæmilegum og stöðugum tæknibreytingum.
Í upphafi skyldi endinn skoða: Áður en ráðist er í snjallvæðingu fyrirtækja er mikilvægt að setja niður stefnu og aðgerðaáætlun. Nokkur atriði er mikilvægt að hafa í huga í slíkri vinnu. Efst þar á blaði er að skilgreina hvernig og hvers kyns gagnalausnir styðja við heildarstefnu fyrirtækisins.
Þá þarf að greina hvar fyrirtækið er á vegi statt til að hefja sína snjallvegferð: Eru gögnin nægilega góð? Er nægileg þekking til staðar? Styður menning og skipulag við umbreytinguna?
Til að hámarka líkur á árangursríkri snjallvegferð er skynsamlegt að byrja á smáum, vel afmörkuðum verkefnum sem skila fljótt árangri og ávinningi fyrir hagsmunaaðila. Þau verða svo leiðarljós fyrir áframhaldandi snjallvæðingu í fyrirtækinu.
Sjálfvirknivæðing með gervigreind að vopni mun á þessum áratug búa til verðmæti í heimshagkerfinu sem svarar til um 15,7 þúsund milljörðum dollara....
Datalab og Oceans smíða snjallar gagnalausnir Fjórða iðnbyltingin er handan við hornið en hún snýst fyrst og fremst um hagnýtingu gagna og...
Íslensk fyrirtæki hafa mörg ráðist í umfangsmikla stafvæðingu undanfarin misseri. Hið sama má segja um opinberar stofnanir. Slegist er um öfluga...