5 min read

Framtíðin liggur í gagnasögum: Færðu gögnin í áhrifaríkar sögur

Framtíðin liggur í gagnasögum: Færðu gögnin í áhrifaríkar sögur

Gagnasögur (e. data stories, data storytelling) er aðferð til að setja fram tölulegar upplýsingar á myndrænan og áhrifaríkan hátt. Gögnum er umbreytt í skapandi myndefni sem segir sannfærandi sögu. 

Vel heppnaðar gagnasögur geta miðlað flóknum upplýsingum á mun áhrifaríkari hátt en annars væri hægt. 

Hin myndræna frásögn, þar sem tvinnað er saman textalýsingum, myndum, tölfræði og mælikvörðum, auðveldar miðlun þeirra upplýsinga sem gögnin fela í sér.

Sögurnar setja upplýsingarnar í merkingarbært samhengi sem bæði grípur betur athygli lesandans og veitir honum betri skilning á því sem fjallað er um. 

Ef vel tekst til við hönnun gagnasagna eru þær líka til þess fallnar að þeim sé deilt áfram, hvort sem er innan fyrirtækis eða út á við í gegnum samfélagsmiðla eða til viðskiptavina/skjólstæðinga – ef gögnin fjalla um þá.

Þetta hljómar trúlega ennþá dálítið óljóst, en best er að útskýra fyrirbærið með nokkrum notkunardæmum – og það gerum við hér örlítið neðar.

Helstu punktar til að taka með:

  • Gagnasögur eru áhrifarík aðferð til að miðla tölulegum upplýsum á myndrænan og skapandi hátt
  • Gagnasögur nýtast fyrirtækjum og stofnunum sem búa yfir miklum tölulegum gögnum um starfsemi sína og/eða viðskiptavini
  • Ýmsar útfærslur af gagnasögum eru til, en flestar gefa einhvers konar yfirlit yfir virkni yfir tímabil og henta því vel í ýmiss konar ársskýrslur og samantektir
  • DataLab kynnir eigin Gagnasögur fyrir íslensk fyrirtæki – lausn sem er innblásin af Spotify Wrapped

 

Dæmigerð línurit og gröf vekja ekki skilningsljósið eins og gagnasögur megna

Gagnasögur höfða til eiginleika mannsheilans

Áhrifamátt gagnasagna má rekja til nokkurra þátta, meðal annars til þess hvernig mannsheilinn hefur þróast í milljónir ára. Um 90% af þeim upplýsingum sem berast til heilans eru myndræns eðlis – við erum beinlínis harðvíruð til að skilja heiminn út frá myndrænum upplýsingum.

Við greinum einnig myndefni margfalt hraðar en texta.

Í öðru lagi hefur maðurinn sömuleiðis þróað með sér á löngum tíma næmni fyrir sögum og á mun auðveldara með að tengja við og tileinka sér upplýsingar sem búa í einhvers konar frásögn sem lýtur einhverjum röklegum þræði; með upphafi, miðju og enda.

Helst einhverri hetju, líka.

Að síðustu fela gagnasögur í sér áhrifamátt tölulegra staðreynda – það er til dæmis staðreynd að 87,5 % fólks treystir frekar tölulegum staðhæfingum en annars konar fullyrðingum (það er að vísu bull, engin heimild hér, en punkturinn er kominn). 

Sá sem styður sitt mál með vandlega fengnum tölulegum staðreyndum stendur betur að vígi þegar mikið liggur við. Gagnasögur beina slíkum upplýsingum að okkur á lifandi og áberandi hátt. Þær setja upplýsingarnar í samhengi og fá okkur til að staldra við og leiða hugann að þýðingu þeirra.

Spotify Wrapped er líklegasta þekktasta útgáfa gagnasagna enda hefur lausnin og herferð sem á henni byggir unnið ýmissa vefverðlauna

Hvernig nýtast gagnasögur best?

Gagnasögur nýtast best þar sem miklum gögnum er fyrir að fara og þar sem ávinningur felst í því að gefa reglulega einhvers konar yfirlit eða samantektir á starfseminni. 

Nærtæk og augljós dæmi eru ýmiss konar ársskýrslur eða samantekir um starfsemi tiltekinna rekstrar- eða starfseininga.

Árlegar sjálfbærniskýrslur stærstu fyrirtækja eru oft yfirhlaðnar af tölulegum upplýsingum sem tyrfið getur verið að grafa sig í gegnum, nema fyrir sérfræðinga sem vita að hverju þeir leita – fyrir okkur hin verður freistingin óbærileg að renna hratt og skilningslítið í gegnum efnið.

Gagnasögur geta hins vegar dregið fram mikilvægustu þætti í þess konar skýrslum og sett í stærra samhengi sem eykur skilning og áhuga. Slík framsetning hentar því fjölbreyttum hagsmunaaðilum eins og fjölmiðlafólki, stjórnarmeðlimum eða almenningi.

Fyrirtæki geta einnig nýtt sér gagnasögur til að gefa skýrslur til viðskiptavina um aðgerðir eða árangur á miklu áhrifaríkari hátt en þurr viðskiptayfirlit eða mælaborð geta nokkurn tíma skilað. 

Sömuleiðis má upplýsa einstök útibú eða starfseiningar um mælanlega frammistöðu þeirra með snjöllum gagnasögum sem setja hluti í alveg nýtt samhengi og hvetja áfram.

Ýmsar opinberar stofnanir sem þurfa að sinna upplýsingaskyldu gagnvart yfirvöldum og almenningi hafa líka valið gagnasögur til að bregða ljósi á starfsemi sína, umfang verkefna og svo framvegis.

Neytendur fá sínar sögur líka

Allra síðustu ár hafa svo komið fram frumlegar og skemmtilegar útfærslur af gagnasögum sem ætlaðar eru viðskiptavinum netþjónustufyrirtækja, sem safna gríðarmiklum magni gagna um virkni þeirra. 

Þekktust gagnasagna fyrir neytendur er líklega “Spotify Wrapped”, sem er safn gagnasagna sem Spotify gefur út árlega og sýnir á frábærlega skemmtilegan hátt hvernig liðið ár spilaðist í tölum fyrir notandann.  Annað dæmi er hlaupaforritið Strava sem birtir einnig gagnasögur fyrir sína notendur reglulega.

Gagnasögur til markaðsstarfs

Vel heppnaðar gagnasögur þjóna margs konar tilgangi. Hér hefur verið nefnd þörfin fyrir að miðla upplýsingum til hagsmunaaðila á skýran og sannfærandi hátt. En snjallar gagnasögur geta líka nýst í markaðs- og sölustarfi. 

Skemmtilegar og frumlegar gagnasögur henta nefnilega sérstaklega vel til dreifingar á samfélagsmiðlum, þar sem notendur geta borið saman sögur sínar og sérkenni.

Á “Examining Inequality” vef Gates hjónanna má finna skemmtilegar, gagnvirkar gagnasögur sem setja tölur í samhengi.

Gervigreindin tekur gagnasögurnar á annað stig

Þau fyrirtæki sem lengst eru komin í nýtingu gagna með snjöllum gagnalausnum nýta gervigreindartækni til að taka gagnasögur á alveg nýtt stig. 

Hér hefur verið minnst á Spotify, sem nýtir sannarlega reiknirit og snjöll meðmælakerfi til að bæta notendaupplifun og notkun miðils síns. “Spotify Wrapped”, árleg samantekt þeirra, er því nokkurs konar ársuppgjör reikniritanna.

Og nýlega hefur komið fram gervigreindartækni sem framleiðir hvers konar myndefni með sjálfvirkum hætti, sem mun í nálægri framtíð hleypa miklu lífi í útfærslur gagnasagna.

Þessar nýju gagnasögur munu tvinna saman annars vegar nýjustu gagnatækni, sem getur framleitt sérsniðna mælikvarða um hvern og einn notanda, og gervigreindartækni hins vegar sem skapar hina myndrænu frásögn.

Nokkrar skemmtilegar gagnasögur

Við lofuðum ofar að útskýra betur með dæmum um hvað málið snýst. Hér er yfirlit yfir nokkrar ólíkar en áhrifaríkar gagnasögur sem þjóna misjöfnum tilgangi:

Spotify Wrapped

Hið árlega Spotify Wrapped, sem áður er lýst, er skemmtileg yfirferð yfir notkun notenda yfir árið sem er að líða. Spotify tekur saman öll gögn um hlustun ársins og sýður saman úr þeim frumlega hljóðræna og myndræna upplifun.

Spotify hefur líka sett saman gagnasögur fyrir listamenn, til að hjálpa þeim að tengja enn betur við hlustendur sína og bæta árangur sinn. 

UNODC (United Nations Office of Drug and Crime)

Þetta er áhrifarík veflausn sem smíðuð var til bregða ljósi á umsvifamikla starfsemi stofnunarinnar um allan heim. Örsögurnar sem þarna birtast setja hlutina sannarlega í nýtt samhengi og kveikja á nýjum skilningsljósum.  

Facebook – samfélagsskýrsla

Skýrslur stórfyrirtækja um verkefni þeirra á sviði samfélagsábyrgðar eru iðulega stútfullar af tölum. Skýrsla Facebook er engin undantekning, en fyrirtækið nýtir líka gagnasögur til að draga fram mikilvægustu þættina á myndrænan hátt á þessari síðu. Þar geta notendur líka opnað eða hlaðið niður skýrslunni í heild sinni, kjósi þeir svo. 

Why do cats and dogs..? 

Þessi skemmtilega veflausn (www.whydocatsanddogs.com) tínir til ýmiss konar gögn frá Google Trends um veruleika katta og hunda – sem margir hafa áhuga á – og matreiðir á frumlegan hátt.

Margir eru forvitnir um veruleika katta og hunda: “Why do cats and dogs..? ” safnar gögnum af Google Trends og birtir á gagnvirkan og skemmtilegan hátt.

“Examining Inequality” – The Gates Foundation

Þessi vandaða samantekt frá mannúðarsamtökun Gates hjónanna sýnir í lifandi hátt hvernig gæðum heimsins er misskipt.

Avfall Sverige

Þessi sænska stofnun ber ábyrgð á meðferð og losun úrgangs í Svíþjóð setti upp sérstaka upplýsingasíðu sem segir áhrifaríkar gagnasögur um framleiðslu ýmiss konar neysluvara. 

Brexit by numbers

Trúlega eru flestir hættir að velta sér upp úr Brexit, en Sky setti saman þessar athyglisverðu gagnasögur sem fjalla um helstu staðreyndir um hinn sögulega viðskilnað Breta við Evrópusambandið og afleiðingar hans.

Gagnasögur frá DataLab

Það er svo auðvitað ekki hægt að ljúka umfjöllun um gagnasögur án þess að nefna framlag okkar hjá DataLab, en við framleiðum einmitt gagnasögur sem birtar eru á ýmsum stafrænum snertiflötum. 

Þær eru með ýmsu móti, en í mörgum tilfellum er um sérsniðnar sögur fyrir notendur að ræða, líkt og hjá Spotify. Meginmarkmið þeirra er að vekja áhuga, upplýsa og mynda tengsl. Þá er um að ræða persónugreinanleg gögn, sem jafnvel er tvinnað saman við ýmis ytri gögn, til að ná til viðskiptavina á persónulegan og eftirminnilegan máta.

Almennar gagnasögur

En einnig segjum við „almennar“ gagnasögur – sögur sem ekki eru sérsniðnar og krefjast því ekki persónugreinanlegra gagna.

Í slíkum sögum er fókus á starfsemina, það virði sem fyrirtækið er að skapa og hlutverkið sem það gegnir í samfélaginu. 

Þá eru gögnin matreidd svo þau lýsi vel til dæmis umfangi starfseminnar og áhugaverðar staðreyndir dregnar fram. En einnig má nýta tækifærið og varpa ljósi á markmið og árangur, til dæmis á sviði sjálfbærni.  

Og til að tryggja að sem flestir sjái og meðtaki upplýsingarnar er sérstaklega hugað að hinni myndrænu framsetningu og sögunni miðlað á stafrænum snertiflötum. Þetta er hægt að gera samhliða útgáfu ársskýrslu og sjálfbærniuppgjörs.

Möguleikarnir eru allavega margir – og þeim fjölgar eftir því sem tækninni fleygir fram.

Við fylgjumst sannarlega með henni!

Samantekt

Gagnasögugerð er nýr og spennandi framsetningarmáti á tölulegum upplýsingum, sem grípur athygli lesenda og setur viðfangsefnið í nýtt samhengi. Gagnasögur nýtast sérstaklega vel þar sem mikið magn tölulegra gagna er safnað í starfseminni og/eða starfsemin hefur sérstaka hagsmuni af því að deila tölulegum upplýsingum til hagsmunaaðila og viðskiptavina.

Datalab er nýtir gervigreindartækni til að þróa slíkar lausnir fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.

Heimildir og ítarefni:

8 examples of powerful data storytelling

Accurat

Improving Collaboration Through Data Stories

What is Data Storytelling? | Data Stories Definition | Nugit

Hans Júlíus Þórðarson.

Aðferð DataLab: Þróun og innleiðing gagnadrifinna og snjallra lausna

Aðferð DataLab: Þróun og innleiðing gagnadrifinna og snjallra lausna

Í dag eru flest fyrirtæki og stofnanir á einhvers konar stafrænni vegferð, sem snýr að því að nota stafræna tækni til að færa ferla, vörur og...

Read More
III. Gervigreindin verður alltumlykjandi

III. Gervigreindin verður alltumlykjandi

Velkomin á öld gervigreindar þar sem tækifærin til að fela tölvum ný verkefni eru óteljandi.

Read More
Framfarir gervigreindar | Spunagreind

5 min read

Framfarir gervigreindar | Spunagreind

Ímyndið ykkur tækni sem þjappar allri þekkingu sem er aðgengileg á netinu í auðmeltanlega og sérsniðna mola. Þú spyrð um hvað sem er og færð svarið...

Read More