Stafræn umbylting kallar á snjallvæðingu

Datalab réði á dögunum til starfa tvo unga sérfræðinga, Bjarna Braga Jónsson (t.v.) og Ágúst Heiðar Gunnarsson (t.h.), en þeir hafa báðir nýverið lokið framhaldsmenntun erlendis með sérhæfingu í gagnavísindum. 

Fersk sýn þeirra á möguleika Íslands í heimi stafvæðingar, þar sem fjórða iðnbyltingin er handan við hornið, er þeim hugleikin. 

Gefum þeim orðið:

Byrjum á byrjuninni: Hver er ykkar bakgrunnur?

Bjarni: Ég er uppalinn í Vestmannaeyjum og fór svo í Verzlunarskólann á eðlisfræðibraut. Eftir Verzló fór ég í eðlisfræði í HÍ og tók hugbúnaðarverkfræði á sama tíma, sem sagt tvöfalt BS próf, sem ég lauk á fjórum árum. Meðfram náminu vann ég hjá Veðurstofunni og hjá Datamarket. 

Þvi næst fór ég í meistaranám í ETH í Zurich í Sviss. Þar vann ég meðal annars að verkefni með Microsoft Research, sem snéri að því að herma skammtatölvur með vélnámi (e. machine learning).  

Það var mikill spenningur í kringum þessi fræði og ég hálfpartinn sogaðist inn í þetta. Svo var ég að vinna í ráðgjafarfyrirtækjum Zurich þar sem ég vann ýmis gagnadrifin verkefni tengd fjármálageiranum, bæði í Zurich og á vegum þeirra í London. 

Í þessum verkefnum var fókus á áhættustýringu. Þetta voru þung gagnamódel, miklar hermanir og svo framvegis. Þessi verkefni beindu mér líka inn á þessar brautir áfram.  Svo kom ég heim núna í byrjun hausts og hóf störf hjá Datalab.

Varstu að leita færis á að komast heim?

Bjarni: Já, við kærasta mín vorum farin að huga að því að koma heim en covid gerði svo útslagið. En mér fannst líka svo margt spennandi að vera að gerast á Íslandi, ekki síst í frumkvöðlasenunni. Og mér finnst ég fá það allt staðfest hér í Grósku, í þessu húsi.

En þú, Ágúst? Hver er saga þín?

Ágúst: Já, ég ólst upp í Svíþjóð en fluttist 8 ára til Íslands, í Laugardalinn, og hef verið þar síðan. Ég fór í Verzló á viðskiptabraut, en fannst námið ekki nógu tölulegt fyrir mig, ef svo má segja, fann að ég vildi fara í aðra átt og endaði á því að fara í fjármálaverkfræði í HR. 

Það nám snéri meira að tækni og forritun, sem höfðaði til mín.  Svo útskrifaðist ég úr verkfræðinni 2017 og fór að vinna hjá Kviku eignastýringu. Ég starfaði þar sem sérfræðingur á rekstrar- og fjármálasviði fyrirtækisins.  Þar fékk ég tækifæri til vera með nokkuð marga hatta og kynnast flestum hliðum félagsins.  Mín helstu verkefni voru þó tengd viðhaldi og þróun á gagnainnviðum, auk þess sem ég var með nokkuð frjálsar hendur tengt verkefnum sem einfölduðu og sjálfvirknivæddu ýmsa handavinnu.

Það var einmitt þá sem ég fór að tengja meira við þessa gagnavísindanálgun, taka eftir gögnunum, þau voru úti um allt. En ég tók líka eftir hinu, þ.e. hversu margir voru ekki að nýta gögnin. Þau lágu bara þarna, risavaxnir netþjónar, fullir af gögnum og enginn var að nýta þau. 

Ég fór að skoða meistaranám sem tengdist þessum heimi og valdi svo að lokum M.Sc. í Data Science í UCL í London. Ég kunni vel við mig þar, þetta var góð blanda af fræði og praktík. En svo kom covid og ég endaði að því að koma heim, eins og Bjarni. 

Ert þú jafn upprifinn yfir stemningunni hér heima og Bjarni?

Ágúst: Já, ég held að það séu gríðarmörg tækifæri hérna. Það sem er þó mest spennandi ekki endilega að við séum komin svo langt, heldur að við getum átt þátt í að taka þessi fyrstu skref. 

Sprotasenan er annars að springa út á Íslandi, finnst mér. Og það er eitthvað sem við eigum að sækjast eftir, Íslendingar;  við erum vel menntuð þjóð, fámenn og hér er hár standard á hlutunum. Það á að vera frekar einfalt fyrir okkur að vera framarlega þegar kemur að frumkvöðlastarfi. 

Hver eru ykkar áhugasvið eða sérhæfing í gagnavísindunum?

Ágúst: Sem stendur er ég meira í smíði lausna en ráðgjöf, og áhugasvið mitt liggur líka þar. Það sem mér finnst áhugaverðast í vinnunni er að skilja betur hvar íslenski markaðurinn stendur í gagnavæðingunni; hver er skilningurinn, hvaða möguleika sjá þau í þessari tækni?

Bjarni: Já, ég er algjörlega sammála þessu.  Það er spennandi að fá innsýn í hvar fyrirtækin standa og hjálpa þeim að ýta þessum málum áfram og ná að skapa eitthvert virði úr gögnunum. Ef við náum því, þá er gaman. 

Ég hef sjálfur ákveðna sérhæfingu áhættustýringu, sem mér finnst áhugaverð og hef almennt áhuga á að nýta þessa tækni meira í fjármálageiranum. En svo eru augu mín að opnast mikið núna fyrir möguleikunum í smásölunni. 

Það eru alls konar spennandi tækifæri þar, bæði til að auka skilvirkni en líka til að sækja tekjur og styrkja viðskiptasambandið við kúnnann. Við erum að sjá aukna samkeppni frá útlöndum á öllum sviðum, sérstaklega í smásölunni. 

Smásalan keppir við allan heiminn

Það er gott að hafa í huga að þessi erlendu fyrirtæki sem hafa tileinkað sér snjalltæknina geta boðið persónulega upplifun, þannig að viðskiptavinurinn upplifir að fyrirtækið þekki sig. Kannski eru íslensk fyrirtæki ekki alveg komin þangað, en við erum komin af stað. Þarna eru mikil tækifæri – íslensk fyrirtæki verða bara að fara þangað. 

Ég er ekki viss um að komandi kynslóðir hengi sig endilega á það að versla við íslensk fyrirtæki af því þau eru íslensk.

Býður íslensk umhverfi upp á eitthvað forskot eða sérstöðu sem við getum nýtt okkur?

Bjarni: Já, ég held að það verði tækifæri til að þróa hluti hraðar hér en víða annars staðar. Erlendis eru skipuritin og valdastrúktúr miklu þyngri og flóknari. Við höfum til dæmis meiri aðgang að æðstu stjórnendum hér í okkar verkefnum heldur en væri mögulegt erlendis. Þetta flýtir fyrir þróuninni, keyrir verkefnin áfram.

En Íslendingar eiga líka möguleika í smásölunni, heimurinn er allur að minnka þar. Á næsta áratug mun bankageirinn til dæmis riðlast mikið, markaðir eru að opnast og renna saman. Bankarnir hér þurfa að gíra sig upp og undirbúa sig vel fyrir það.

Hvernig fer vinna ykkar fram? Hvaða aðferðir og tól eruð þið að nota?

Ágúst: Mesta forritunin hjá okkur fer fram í Python og R.  Fyrir þessi forritunarmál er til ógrynni af tólum sem hjálpa okkur að smíða lausnir.  Hvað varðar gagnainnviði fer það nokkuð eftir viðskiptavinum.  Skýjalausnir eru að verða nokkuð algengar hjá íslenskum fyrirtækjum og við smíðum þá lausnina með hliðsjón af því sem er búið að innleiða hjá hverjum og einum, hvort sem það er Azure, AWS eða önnur lausn.  Öll þessi tól sameinast svo í því sem við köllum gagnasmiðjur, sem á ensku er kallað Data Science and Machine Learning platforms

Smiðjan sem við notum kallast Dataiku sem er nokkurs konar platform sem sameinar alla þætti þess að vinna gagnaverkefni. Þar höfum við allt gagnastreymið og kóðana á einum stað, og alla vinnslu á gögnum. Þú færð ótrúlega þægileg myndræna yfirsýn yfir allt sem þú ert að gera, sem er mikilvægt þegar þú ert með risaverkefni og gagnastreymi úr mismunandi áttum. Þetta gerir allt utanumhald um verkefnið miklu auðveldara. 

Hvað er er á döfinni hjá Datalab þessa dagana?

Bjarni: Við erum núna í nokkrum Vegvísum [stefnumótunarvinna í snjallvæðingu, innskot höfundar] með fyrirtækjum og stofnunum, þar sem við erum að kortleggja tækifærin sem eru til staðar. 

Ég held að slík vinna sé mikils virði fyrir báða aðila.  Við fáum tækifæri til að tala við mjög marga innan fyrirtækjanna, sem er mjög mikilvægt því oft eru þessi tækifæri þvert á svið og deildir, og þú kemur ekki endilega auga á þau þegar þú ert í miðju fyrirtækinu. 

Í kjölfarið koma fram verkefni sem spretta upp úr þessari grunnvinnu. Þetta eru nokkurs konar prufuverkefni (e. proof of concepts) til að koma þeim inn á gagnabrautina og taka fyrstu skrefin. Við kortleggjum tækifærin í Vegvísinum og skilgreinum í framhaldi af því fyrstu verkefnin.

En svo erum við þegar í vinnu með nokkrum fyrirtækjum og höldum þeirri vinnu áfram. Ég var sjálfur að vinna fyrir ráðgjafarfyrirtæki úti í Sviss og nú erum við í samstarfi við það varðandi gagnaverkefni fyrir tryggingafélag. Einnig erum við í viðræðum við orkufyrirtæki þar úti, þannig að það er ýmislegt á prjónunum.

Mikil tækifæri í fjármálageiranum

Ágúst: Varðandi áframhaldið, hvar við sjáum tækifærin í gervigreindinni, þá held ég það það séu bankarnir. Það eru þeir sem ættu að stökkva á þetta, ef einhverjir. Á síðustu árum hafa orðið straumhvörf í því hvernig þjónusta frá banka er veitt. Útibú eru varla til lengur, þú ert ekki lengur með þinn þjónusturáðgjafa sem þú ferð til, það er allt búið. 

Ég held að bankarnir verði að átta sig á því að þegar þessi útibú eru að hverfa og persónulega þjónusta er að fara sömuleiðis, þá má það ekki verða þannig að fólki finnist þjónustan verða verri, að bankinn sé bara hættur að veita fólki þjónustu.  

Af hverju er ekki bara búið að sjálfvirknivæða þessa persónubundnu þjónustu? Það er óumflýjanlegt skref. Viðskiptavinum bankans þarf að finnast þeir ennþá vera viðskiptavinir bankans þó þeir séu ekkert að fara í útibúið. 

Bankarnir henta bara almennt svo augljóslega vel í svona verkefni. Þeir eru sennilega gagnadrifnasta tegund fyrirtækja sem til er.  Þetta er kjarninn í því sem bankinn gerir, sama hvaða deild þú ert að skoða, að taka ákvarðanir út frá gögnum –  hvort sem það er ákvörðun um að selja eða kaupa hlutabréf, veita lán eða ekki, eða hvað sem það er. Þetta eru allt ákvarðanir sem byggja á gögnum, þannig að þetta er rakið dæmi fyrir þá. 

En þessi stafræna umbylting virðist vera á öllum sviðum, eða hvað?

Ágúst: Já, það nefnilega málið, það er mjög víða vera að stafvæða þjónustu og afgreiðsluferla. Tökum sem dæmi smásöluna: Ef fatabúðin þín er bara netverslun þá er mér persónulega alveg sama hvort hún er íslensk eða bresk. Það er annað mál ef ég fer í verslunina og fæ þar persónulega þjónustu. 

Og það er það sama með bankana – ef ég er hættur að fara í útibúið og það kemur einhver spútnik netbanki þá hika ég ekki við að skipta ef hann býður mér eitthvað betra. Ég tala ekki um ef þú færð á tilfinninguna að bankinn þekki þig – og núverandi banki gerir ekki einu sinni tilraun til að þykjast þekkja þig. Hollustan minnkar hratt ef þér finnst þú ekki vera að fá þá þjónustu sem þú ætlast til. 

Ef við horfum aðeins lengra, kannski 5-10 ár fram í tímann, hvernig verður hið stafræna landslag á Íslandi?

Ágúst: Ég held að þau fyrirtæki á Íslandi sem eru í samkeppni við önnur sem nota gervigreind muni annað hvort taka skrefið líka eða lenda annars illa í því. Það verður hraðari þróun hjá þannig fyrirtækjum á meðan önnur eru ekkert að stressa sig á þessu. 

Bjarni: Ég held að þau fyrirtæki sem tileinka sér ekki þessa tækni muni lenda hratt í vandræðum gagnvart fyrirtækjum sem eru þegar búin innleiða hana og komin af stað. Ég hef pínu áhyggjur af þeim fyrirtækjum sem munu vakna upp við vondan draum þegar samkeppnisaðilinn er búinn að kveikja á gervigreindinni og kominn vel af stað – ætlarðu þá að byrja? 

Er ekki mikilvægt bara að byrja vegferðina, taka einhver fyrstu skref?

Bjarni: Algjörlega. Þau fyrirtæki hérlendis sem eru í samkeppni við erlend fyrirtæki sem eru nú þegar hér á markaðnum munu finna vel fyrir þessu. Hinir stóru, erlendu risar munu innleiða tæknina hratt á næstu árum – þá er eins gott fyrir íslensk fyrirtæki að hafa tekið fyrstu skrefin. Þetta á við um alla geira; fjármálafyrirtækin, smásöluna alla – því hún er að færast á netið – tryggingafyrirtækin, nefndu það.

Gögnin eru verðmæti sem liggja víðast ónýtt

Hið opinbera situr á miklum gagnaverðmætum

Hvað með opinbera geirann? Hvar eru tækifæri fyrir ríkið til þess að sjálfvirknivæða?

Bjarni: Ég held að það sé líka tækifæri þar úti um allt. Fyrsta skrefið þar er að koma skikki á gögnin. Það liggur gríðarlega mikið magn gagna hjá stofnunum ríkisins, en það þarf að samþætta kerfi, og nýta gögnin grimmt til að auka skilvirkni. 

Ágúst: Ég held að tækifærið í opinbera geiranum liggi í því að lágmarka sóun og fá betri yfirsýn yfir hvert skattpeningarnir fara, hverju eru þeir að skila okkur. 

Bjarni: Þetta snýr líka að upplýsingum til almennings, gera þær aðgengilegri.  Og þetta snýr líka að atvinnulífinu. Við getum tekið dæmi af fasteignamarkaðnum:  Þar er verið að henda skjölum á milli aðila og enginn hefur yfirsýn fyrr en allt birtist í einu, seint og um síðir, eins og til dæmis hvað varðar upplýsingar um byggingarmagn sem er að koma inn á markaðinn hverju sinni. 

Þú verður að hafa þessar upplýsingar aðgengilegar, því annars geta hagsmunaaðilar stjórnað umræðunni, sbr. þessar talningar hjá Samtökum iðnaðarins, sem eru í sjálfu sér góðra gjalda verðar.

Við ættum líka að stefna á persónulegri þjónustu og leiðsögn í gegnum kerfið. Stafræn umbylting er að eiga sér stað hjá hinu opinbera, en þá verður gervigreindin að koma á móti, líkt og hjá bönkunum.

Ágúst: Það er ótrúlegt hversu mikil pappírsvinna er enn í gangi í mörgum stofnunum. Það er makalaust að þú þurfir að ganga bókstaflega á milli húsa með einhver pappírsgögn. Það er jafnvel verið að faxa skjöl á milli stofnana. 

Ég hélt þetta væri búið fyrir 30 árum, en þetta er enn gert á mörgum stöðum. Annað hvort er ekki búið að uppfæra regluverkið eða tæknina sem er í kringum þetta. Hringlið með kjörseðlana í síðustu kosningum er annað dæmi. 

Bjarni: Ég held að það séu einmitt mikil tækifæri í kringum alla þessa pappírsvinnu, en við erum samt mörgum árum á undan þjóðum eins og Sviss. Það kom mér dálítið á óvart.  Þar er það bara pappírinn sem gildir, allt snýst um gamla, góða póstinn. Að mörgu leyti erum við því komin með mjög góðan grunn á Íslandi. 

Ágúst: Við erum kannski ekki á eftir en það munu fleiri tækifæri opnast núna þegar þessi tækni verður sjálfsagðari, þegar ferlin verða almennt orðin rafræn. Við höfum náttúrulega séð ótrúlega mikla þróun á síðustu árum, til dæmis hvað varðar rafrænar undirskriftir.

Bjarni: Nú þegar ákveðinn grunnur er kominn þá er hægt að halda hratt áfram inn í framtíðina.

Snjallvæðingunni fylgja félagslegar áskoranir

Sjáið þið einhverjar samfélagslegar hættur af snjallvæðingunni?

Bjarni: Jú, við þurfum til dæmis að passa okkur á að kóða ekki inn kerfisbundnu skekkjurnar sem þegar eru inni í módelunum okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Dæmi um það væri að einhver fengi ekki lánað af því hann ætti heima á einhverju ákveðnu svæði eða væri af ákveðnum kynþætti. 

Ég vann verkefni fyrir banka í Sviss þar sem við vorum að meta líkur á vanskilum og þá sáum við að það voru ákveðin svæði sem voru varasöm. Þá er það orðin siðferðisleg spurning hvort þú ætlar að kóða slíkar upplýsingar inn í módelið þitt.  

Við þurfum að vera vakandi fyrir alls kyns svona atriðum. Þú getur ekki bara verið að kafa í gögn og kóða og gleymt félagslega þættinum.  

Ágúst: Einmitt. Önnur siðferðileg spurning snýr að umbyltingu vinnumarkaðarins á næstu árum. Hvaða félagslegu afleiðingar hefur það að sjálfvirknivæða verkefni sem áður voru hluti af starfi einhverrar manneskju? Hvað verður um fólkið sem er sinna handavinnunni sem verður kannski ekki handvirk lengur? 

En ég held að þetta verði ekki svo mikið spurning um að fólk missi vinnuna heldur að við getum þá beint kröftum fólks í verðmætari vinnu, frekar en að eyða tímanum í leiðinleg rútínuhandtök.

Það hlýtur að þurfa að endurmennta stóran hluta vinnuaflsins?

Ágúst: Já, ég held að það sé óumflýjanlegt. Það er svo sem eðlilegt að einhverjir líti neikvæðum augum á þessa tækni ef þeir eru hræddir um að missa vinnuna, það þarf bara að taka þessa umræðu. 

Bjarni: Við höfum þó ekki orðið varir við neikvæðni starfsmanna í okkar verkefnum. Það er miklu frekar að fólk sé spennt fyrir þessum breytingum og fólkið á gólfinu er jafnvel er búið að kynna sér þetta mjög vel.

Íslenska smæðin er styrkleiki

Hvað hefur komið ykkur mest á óvart síðan þið komuð heim?

Bjarni: Það hefur komið mér mest á óvart að finna hvað markaðurinn er bara rosalega tilbúinn í þessa vegferð. Það eru einhver straumhvörf núna. Markaðurinn bara öskrar á þessar lausnir. 

Við erum á mjög áhugaverðum tímapunkti núna. Það er svo mikil orka í gangi og ég hef sjálfur ekki upplifað svona stemningu í þeim fyrirtækjum sem ég hef verið að vinna fyrir úti. Það eru allir að kveikja á þessu á sama tíma – kannski er það Covid sem er hefur hleypt þessu af stað. 

Ágúst: Ég er sammála með hraðann í þróuninni. Íslenska smæðin skiptir líka máli, þetta þétta samfélag okkar. Við fylgjumst vel með því sem næsti maður er að gera og það er mikil samanburður og samkeppni. Ísland er lítið samfélag og þegar umræðan fer af stað af einhverri alvöru, þá gerast hlutirnir hratt. 

Við megum ekki lenda á eftir núna, hugsa konur og menn, það eru allir í kringum okkur komnir af stað. 

Við verðum að stökkva með. 

HJÞ.

Deila grein

Fleiri greinar

Ari margfaldar afköst sérfræðinga

Ari er hugbúnaðarlausn sem DataLab kynnti fyrr á árinu. Ari nýtir nýjustu tækni spunagreindar og hannaður til að verða sannkallaður sérfræðingur í þeirri starfsemi sem hann fær þjálfun í. Brynjólfur Borgar, stofnandi DataLab, segir frá Ara og lýsir hvernig geta hans muni þróast hratt á næstu mánuðum.

Lesa meira »

Ari er

Þarfasti þjónninn frá DataLab eykur aðgengi að þekkingu sem falin er í texta.

Lesa meira »

NÝTUM GÖGNIN.
NÁUM ÁRANGRI.

DataLab Ísland ehf.
kt. 570816-1870

Borgartúni 37
105 Reykjavík

datalab@datalab.is
693 0100