Stella Kristín Hallgrímsdóttir er eina konan – ennþá – í öflugu teymi Datalab. En hún er þó meðal fyrstu starfsmanna fyrirtækisins og skynjar töluverðan mun á markaðnum síðan hún hóf störf fyrst, enda þróast möguleikar snjalltækninnar hratt og viðhorf til hennar sömuleiðis.
Það er mikið að gera hjá Datalab þessa dagana. Undirrituðum tókst að nappa Stellu í stutt spjall í Grósku, þar sem Datalab hefur bækistöðvar.
Gefum henni orðið, hún hefur frá ýmsu að segja.
Þú ert MAS í hagnýtri tölfræði – hvers konar gráða er það?
Það stendur fyrir Master of Applied Statistics, sem er líkara sérhæfðu meistaranámi eins og MBA og MPM en MS. Ég tók þetta nám hér heima en áður hafði ég lokið BS í umhverfis- og byggingarverkfræði í HÍ.
Af hverju valdirðu að fara úr byggingarverkfræðinni yfir í tölfræðina og gagnasöfnin?
Ég var bara ekki viss um að þetta væri eitthvað sem mig langaði að vinna við í framtíðinni, þótt námið væri áhugavert. Ég skráði mig þó í MS í umhverfisverkfræði og kláraði eitt ár en fann að mig langaði að prófa eitthvað annað.
Þá var ég búin að fá að kynnast úrvinnslu gagna, forritun, líkanasmíði og fleiru í verkfræðinni, og það höfðaði mjög til mín. Þannig ég ákvað að prófa þetta, og skellti mér í hagnýta tölfræði, sem var þá nýtt nám hér á Íslandi en er þekkt víðast hvar erlendis. Ég held að ég hafi verið í öðrum hópnum sem útskrifaðist úr því námi.
Voru fleiri stelpur með þér í þessu námi?
Það var nokkuð jöfn kynjaskipting í tölfræðinni, og það er reyndar orðið nokkuð jafnt hlutfallið líka í verkfræðinni, ekki síst í umhverfis- og byggingarverkfræðinni. Þetta er misjafnt eftir sviðum.
Í rafmagns- og tölvuverkfræði eru nánast bara strákar, allavega þegar ég var í námi, og í tölvunarfræðinni eru þeir enn í meirihluta. En ég held að þróunin sé samt að þokast í rétta átt í flestum deildum.
Snúum okkur að Datalab – hvar liggur þín sérhæfing í teyminu?
Ég tek við gögnum þegar tengingar eru komnar á við gagnasöfnin, undirbý þau fyrir líkanasmíði og smíða líkön. Svo kem ég líka að framsetningu gagnanna, til dæmis með smíði mælaborða fyrir viðskiptavini.
Þannig að ég kem í raun að vinnslu gagnanna allt frá því þau koma inn, eru keyrð í gegnum líkön og svo birt í mælaborðum.
Sérhæfingin felst kannski meira í hvers konar verkefnum við sinnum. Mitt áhugasvið hefur svolítið færst í áttina að viðskiptavinamiðuðum lausnum sem nýta gögn til að hjálpa fyrirtækjum að kynnast viðskiptavinum sínum betur, bæta upplifun viðskiptavina og styrkja viðskiptasambönd.
En það er ákveðin sérhæfing í hópnum samt sem áður?
Áhugi minn liggur líka í framsetningu gagna, en það er mikilvægur hluti af gagnavísindunum að miðla upplýsingum úr gögnum þannig sagan sem gögnin segja komist skýrt til skila. Ég hef líka tekið að mér verkefnastjórn og lagt vinnu í það að skoða hvernig við getum best unnið saman sem teymi, hvaða tól við notum til að skipuleggja okkur og þess háttar.
Já, og með stækkun teymisins núna hefur líka orðið meiri sérhæfing. Núna er meiri verkaskipting sem kemur bæði til af mismunandi sérþekkingu en líka áhugasviðum. Við reynum að skipta okkur þannig að við fáum að fást við það sem okkur þykir skemmtilegast og erum sterkust í.
Snjalllausnir þróast hraðar en flest önnur tækni – finnst þér þú skynja mun á markaðnum eða tækninni nú frá því sem var þegar þú byrjaðir – þótt stutt sé síðan?
Já, maður sér mikinn mun á umhverfinu. Fyrirtæki eru mun meira tilbúin í þetta núna, í þessa snjallvæðingu, heldur en þegar ég byrjaði, og farin að leita til okkar í auknum mæli.
Markaðurinn er farinn að átta sig meira á því að þetta er eitthvað sem þarf að ráðast í til þess að verja samkeppnishæfni. Þetta er klárlega breyting sem ég sé.
Varðandi viðfangsefnin sjálf þá má segja að við erum að fá fjölbreyttari fyrirtæki og starfsemi til okkar. Þetta eru ekki bara stærstu fyrirtækin, þau eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá litlum sprotafyrirtækjum upp í rótgróin fyrirtæki og stofnanir.
Þannig að tæknin er ekki lengur eins framandi og miklu fleiri eru óhræddir við að kanna möguleikana. Stjórnendur eru almennt að átta sig á því að þessi tækni verður innleidd fyrr eða síðar.
Það má tala um nokkurs konar vitundarvakningu.
Alþjóðlegar efnisveitur og netverslanir hafa nýtt sér mjög gervigreindartækni – eiga íslensk fyrirtæki einhverja möguleika í slíkri samkeppni?
Já, það held ég, tvímælalaust. Íslenskar netverslanir geta alveg keppt við hinar erlendu. Meðmælakerfi sem veita sérsniðin meðmæli og bæta notendaupplifun geta nýst hér eins og annars staðar.
Íslenskar netverslanir eru auðvitað mun minni, minni gögn að baki til að byggja líkönin á, en þetta er klárlega gerlegt eins og við höfum sannað með Domino´s, sem hefur náð miklum árangri, einmitt með meðmælakerfi sem við þróuðum með þeim.
Og þetta er eitthvað sem íslenskar verslanir verða hreinlega að gera til að vera samkeppnishæfar. Samkeppnin er alltaf að harðna að utan, afhendingartíminn á vörum er til dæmis alltaf að styttast.
Nú geturðu jafnvel fengið vörur afhentar fyrr frá netverslun í útlöndum heldur en frá verslun hér sem er í næsta nágrenni. Og ef sú verslun er jafnvel ódýrari, með sérsniðin meðmæli og betri upplifun – af hverju ættirðu að velja íslensku netverslunina?
Það sama má segja um efnisveiturnar. Það er orðin svo mikil samkeppni á þessu sviði, það er sífellt meira efni í boði og neytendur að verða kröfuharðari. Við höfum ekki tíma til að fletta í gegnum allt sem er í boði og erum orðin vön því að gervigreindin hjálpi okkur að velja afþreyingu.
Ég held að neytendur geri alveg sömu kröfur á íslensku efnisveiturnar eins og þær erlendu og að þær muni því þurfa að snjallvæðast fyrr eða síðar ef þær vilja vera samkeppnishæfar.
Nú ert þú, sem fyrr segir, eina konan sem starfar hjá Datalab – hvernig upplifirðu það?
Það er bara mjög fínt, enda góður mórall á vinnustaðnum, en ég neita því ekkert að það væri gaman að hafa fleiri konur í hópnum, og ég held við séum öll sammála um það. Það er auðvitað skemmtilegt að hafa fjölbreyttan hóp og sem jafnasta kynjaskiptingu.
Heldurðu að konur hafi aðrar áherslur eða sýn á gervigreindina en karlar, hvernig ætti að nýta hana helst, hvaða tækifæri liggja í nýtingu hennar?
Já, það tel ég, án þess að geta bent nákvæmlega á einhver atriði að þá skiptir auðvitað máli að þróunarteymið sé fjölbreytt, að ólík sjónarmið fái að heyrast. Því fjölbreyttari sjónarmið sem heyrast því fjölbreyttari hugmyndir og lausnir koma fram. Ég held það sé nauðsynlegt að fá inn fólk með mismunandi bakgrunn og sýn á hlutina.
Það er alltaf fólk á bak við alla tækni, og meðvitað eða ekki, að þá er alltaf hætta á að innbyggðar skekkjur læðist í lausnirnar. Því fjölbreyttara sem teymið er því minni líkur eru á slíkum skekkjum. Þetta snertir líka alla hugmyndavinnu og nýsköpun – í fjölbreyttum hópi koma fram fleiri hugmyndir og ólíkar lausnir við vandamálum.
Rekist þið á siðferðisleg álitamál í ykkar verkefnum hjá Datalab?
Nei, reyndar höfum við ekki rekið okkur enn á verkefni þar sem reynir í raun á siðferðileg álitamál, en það er líklega bara tímaspursmál. Eftir því sem við fáum fleiri og dýpri verkefni má búast að við að spurningar vakni varðandi áhrif á samfélagið og viðkvæma hópa.
Við höfum til dæmis verið að vinna verkefni fyrir fjármálafyrirtæki og tryggingafyrirtæki, og í slíku umhverfi eru vissulega spurningar sem gætu komið upp.
Það er auðvitað þannig að víða um heim er nú þegar verið að nota alls konar líkön og reiknirit sem meta, og jafnvel taka ákvörðun með sjálfvirkum hætti, um hvort þú fáir lán eða komist í atvinnuviðtal, svo dæmi séu nefnd.
Þannig að það eru auðvitað siðferðileg sjónarmið uppi þegar við leyfum tækninni að einfalda vinnslu og taka ákvarðanir fyrir okkur.
En svo hefur gervigreindin áhrif á störf fólks, afkomu einstaklinga?
Já, gervigreindin mun vissulega gera einhver störf óþörf sem áður þurfti fólk til að sinna, en hún mun einnig skapa mörg störf. Eftir því sem tækninni fleygir fram eykst þörfin fyrir tæknimenntað fólk, svo sem á sviði gagnavísinda, á meðan þörfin minnkar á öðrum sviðum.
Það verður því einhver umbylting á vinnumarkaðnum á næstu árum, sem er nú þegar hafin, þar sem sum störf breytast, önnur hverfa og ný verða til.
Þar birtist líka kynjavinkillinn á annan hátt. Oft eru þetta störf sem konur hafa að miklu leyti sinnt, svo sem í bakvinnslu eða afgreiðslu, sem eru í hættu þegar snjallar gagnalausnir eru innleiddar.
Þannig að tæknin hefur vissulega áhrif á samfélagslega þætti eins og jafnrétti og stöðu kynjanna. Þetta sýnir líka nauðsyn þess að mennta fleiri konur í tækni, því þarna mun losna um störf.
Við verðum að passa að samfélagið verði betra og réttlátara með tækninni – ekki öfugt.
Hans Júlíus Þórðarson