Oceans nýtir auðlindir í hafsjó gagna [reynslusaga]

Anna Björk Theódórsdóttir

Datalab og Oceans smíða snjallar gagnalausnir

Fjórða iðnbyltingin er handan við hornið en hún snýst fyrst og fremst um hagnýtingu gagna og gervigreind. Mörg fyrirtæki munu leggja upp laupana í komandi umsköpun, en ný sprotafyrirtæki líta dagsins ljós sem koma auga á möguleikana sem liggja í snjöllum gagnalausnum. 

UM OCEANS

Oceans er kornungt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig gagnadrifnum markaðsupplýsingalausnum til fyrirtækja í sjávarútvegi. Nánar tiltekið hagnýtir fyrirtækið upplýsingar sem uppfærðar eru daglega og ýmiss konar gagnauppsprettur til að spá fyrir um framboð og verð á einstökum fisktegundum. 

Oceans setur markið hátt – nefnilega að umbylta leikreglum á markaði með sjávarfang með gögn og gervigreind að vopni. 

Stofnandi Oceans er Anna Björk Theodórsdóttir, en hún á langan feril á ýmsum sviðum í sjávarútvegi. Hún hefur unnið frá blautu barnsbeini við útgerðarfyrirtæki fjölskyldu sinnar en starfaði einnig eftir nám sem leiðandi sérfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækjum í sjávarútvegi.

ÁSKORUNIN

Sprotafyrirtæki byggja iðulega á snjallri hugmynd eða lausn á vanda sem ekki hefur verið útfærð áður, en markaðurinn hefur mikil not fyrir. Í dag er varla stofnað sprotafyrirtæki án þess að lausnir þess tengist upplýsingatækni og gögnum, með einum eða öðrum hætti. 

Gögn safnast nú hratt upp í kerfum fyrirtækja og opinberra aðila um allan heim og eru frjór jarðvegur fyrir frumkvöðla sem koma auga á tækifærin sem liggja þar. Og það var einmitt tilfellið í tilviki Oceans. 

Sem fyrr segir býr Anna að mikilli reynslu í sjávarútvegi og þekkir því fjölmargar áskoranir sem aðilar á þessum markaði standa frammi fyrir daglega.

Ein þeirra er samspil framboðs og verðs, en verð á mörkuðum getur sveiflast á nokkrum dögum, sem markast af framboði á hverjum tíma. Það getur verið kostnaðarsamt að kaupa eða selja á röngum tíma.

Framleiðslufyrirtæki þurfa líka að tryggja afla til vinnslu til að standa við gerða samninga. Erfitt er þó fyrir aðila á markaði að áætla framboð og hvernig það muni hafa áhrif á verð enda margar breytur sem skipta máli og spila saman.

Vandinn sem Anna stóð frammi fyrir var að þótt hún hefði skilning á þörfum markaðarins og þekkingu á ýmsum gagnasöfnum sem tengjast sjávarútvegi þurfti hún sérhæfða tækniþekkingu sér til aðstoðar til útfæra og þróa lausnirnar.

Þróun nýrra gagnalausna krefst náinnar samvinnu, stöðugra prófana og endurmats

BETRA AÐ ÞRÓA SJÁLFUR EÐA VINNA MEÐ ÖÐRUM?

Ein möguleg leið fyrir Oceans var að ráða inn sérfræðing í gagnavinnslu, byggja upp færnina innanhúss frá grunni og smíða allar lausnir sjálf.  

Það hefði þó haft ýmsa annmarka og ókosti í för með sér: 

  • Þróun lausna hefði tafist um marga mánuði, jafnvel ár.
  • Reynslumiklir gagnasérfræðingar eru dýrir og fáir slíkir á lausu.
  • Verkefnið er umfangsmikið og kallar á ólíka sérhæfingu innan gagnavísinda – einn starfsmaður hefði tæpast dugað til.
  • Dýrmætur tími og kostnaður hefði farið í tilraunastarfsemi og mistök.

Anna leitaði til Brynjólfs Borgars Jónssonar, stofnanda Datalab, og viðraði metnaðarfullar hugmyndir sínar við hann. Þau höfðu þekkst í nokkur ár og meðal unnið saman í verkefnum þegar Brynjólfur starfaði hjá Marel. Það kom fljótt í ljós að Datalab hafði nákvæmlega lausnina sem Oceans þurfti.

DATALAB SMÍÐAR LÍKÖN

Undanfarna mánuði hefur Datalab unnið þétt með Oceans að þróun gagnalausna og heldur raunar utan um tæknilega hryggjastykkið í lausnum Oceans. 

Hjá Datalab starfa nokkrir af helstu sérfræðingum landsins í smíði snjallra gagnalausna, enda unnið að flóknum gagnalausnum fyrir mörg framsækin fyrirtæki og stofnanir á Íslandi.  

Líkönin sem Datalab hefur verið að þróa fyrir Oceans sameina áhugaverða gagnastrauma um veður, landanir, gerð og staðsetningu skipa til að auka skilning og þekkingu á veiðinni í Noregi. Þessi vinna mun veita nýja innsýn og gagnsæi fyrir aðila á markaði með sjávarafurðir. 

Við leyfum tauganetum að spreyta sig á hinum ýmsu gögnum og gagnasamsetningum og notum bæði aðferðir tímaraðagreiningar og aðhvarfsgreiningar.  Þar höfum við séð að finna megi margar tengingar sem áður voru ekki augljósar.

Axel Örn Jansson, sérfræðingur hjá Datalab.

Axel Örn Jansson, sérfræðingur hjá Datalab.

SAMSTARFIÐ FRAM ÚR BJÖRTUSTU VONUM

Datalab og Oceans vinna þétt saman, en Anna hefur heildarsýnina og leiðir verkefnið áfram, enda skilur hún það sem býr á bak við gögnin og veit hvað markaðurinn vill. Sérfræðingar Datalab vinna svo hörðum höndum að því að gera sýn Önnu að veruleika.

Það þarf bæði mikla sérfræðiþekkingu á sjávarútveginum og á gagnavísindum til að geta leyst þetta verkefni.

Það hefur verið krefjandi að safna saman öllum þessum gögnum úr ólíkum áttum, enda þær stofnanir og fyrirtæki sem við fáum gögnin frá misjafnlega stödd tæknilega og ekki alltaf einfalt að ná í gögnin með sjálfvirkum hætti.

Stella Kristín Hallgrímsdóttir, sérfræðingur hjá Datalab.

Samstarf Oceans og Datalab hefur farið fram úr björtustu vonum og væntingum, að sögn Önnu.  Teymi Datalab er mjög öflugt og góð samskipti á milli fólks. 

Báðir aðilar skynja að verkefnið er mikilvægt og getur haft mikla þýðingu fyrir undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar ef vel lukkast.

Greining, þróun, prófun, endurmat, ítrun

Síðan samstarf Datalab og Oceans hófst hefur upphafleg hugmynd Önnu þróast. Afurðin er ekki sú sama í dag og lagt var af stað með í upphafi. 

Þetta er reyndar dæmigert ferli í þróun snjallra gagnalausna. Fyrsta prótótýpa er smíðuð á grunni fyrirliggjandi gagna og upplýstrar kenningar um hvers konar lausn eða líkan sé líklegast til árangurs. 

Þegar reikniritin hafa fengið að spreyta sig á gögnunum og læra á þau í nokkurn tíma er nauðsynlegt að yfirfara árangur og endurskoða forsendur og útfærslur.

Mikið hefur mætt á Stellu Kristínu síðustu mánuði við þróun líkana fyrir Oceans.

Vegferðin er rétt að hefjast

Vegferðin er rétt að hefjast hjá Oceans en mjór er margs vísir. Fókusinn í dag er á Atlantshafsþorskinn, enda eru breytur í norskum gögnum spennandi og nýtast vel í forspárlíkön sem fyrirtækin vinna saman að.

Þorskurinn mun því veita góðan grunn fyrir framhaldið en stefnan er vissulega sett á fleiri fiskistofna og markaði á næstu mánuðum.

Þá er einnig í þróun í samstarfi við Datalab öflugt og notendavænt mælaborð sem sýnir í einni svipan mikilvægustu markaðsupplýsingar og mælikvarða í rauntíma.

Mikilvægt er að notendaupplifun og aðgengi sé fyrsta flokks og því felst annað framtíðarverkefnið í smíði apps sem mun veita sömu mikilvægar upplýsingar, hvar svo sem notandinn er staddur og þarf að taka mikilvægar kaupákvarðanir.

Hans Júlíus Þórðarson

Deila grein

Fleiri greinar

Ari er

Þarfasti þjónninn frá DataLab eykur aðgengi að þekkingu sem falin er í texta.

Lesa meira »

NÝTUM GÖGNIN.
NÁUM ÁRANGRI.

DataLab Ísland ehf.
kt. 570816-1870

Borgartúni 37
105 Reykjavík

datalab@datalab.is
693 0100