Nú eru níu mánuðir frá því að við kynntum til sögunnar hugbúnaðarlausnina Ara | Þarfasta þjóninn frá DataLab. Það gerðum við á UT messunni fyrr á þessu ári.
Þá hafði þróun staðið yfir í tæpt ár með fyrstu viðskiptavinum og notendum Ara, þ.e. Arion banka og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Á síðustu mánuðum hafa hlutirnir þróast hratt. Viðskiptavinum hefur fjölgað og Ari er smám saman að verða fjölhæfari og öflugri í að nýta spunagreindina.
Í dag lýsum Ara með eftirfarandi hætti...
Ari er sannkallaður sérfræðingur í starfseminni. Hann eykur aðgengi að þekkingu sem falin er í gögnum, leysir verkefni og margfaldar afköst sérfræðinga.
Honum er því ýmislegt til lista lagt. Nánari upplýsingar um Ara má finna hér.
Í fyrstu var Ari fær um að 'lesa og skrifa' og þótti okkur nóg um. Nú getur hann líka 'reiknað og teiknað' sem þýðir að bæði textagögn og töluleg gögn eru nú gjaldgeng. Ari eykur aðgengi að þeim öllum með öruggum hætti svo notendur geti átt samskipti við gögnin og hagnýtt þekkingu sem í þeim er falin.
Hvað með viðkvæm gögn? Viðskiptaleyndarmál og annað sem ekki má fara á flakk? Við höfum líka leyst það svo nú eru öryggisstjórinn og Ari mestu mátar.
Ari verður erindreki
Og það sem okkur þykir einna mest spennandi um þessar mundir er hvernig Ari er nú farinn að leysa ýmis verkefni sem áður voru aðeins á færi starfsfólks með sérfræðiþekkingu. Ari tengist hugbúnaði, t.d. Office pakkanum, og sendir svörin sín þangað, eða fær upplýsingar í gegnum API tengingar sem hann nýtir til að leysa verkefni sem honum eru falin. Og framundan eru fleiri slík dæmi.
Ari er nefninlega erindreki! AI Agent
Hann rekur fyrir þig erindi á hraða tölvunnar.
Við munum flytja fleiri fréttir af Ara á næstunni, m.a. ætlum við að gefa út reynslusögur með okkar fyrstu viðskiptavinum þar sem m.a. verður fjallað um ávinning af innleiðingu Ara í starfseminni.
Þar verður sagt frá ferðaþjónustufyrirtæki sem er að taka Ara í notkun til að svara þúsundum fyrirspurna sem berast í hverjum mánuði...og tímasparnaðurinn sprengir alla skala!
Svo langar okkur líka að segja frá stéttarfélaginu sem ætlar að nota Ara til að svara flóknum fyrirspurnum þar sem leita þarf í lögum og reglum, kjarasamningum og öðru efni sem Ari hakkar í sig en okkur þykir jafnvel erfitt að meðtaka.
Og svo mætti lengi telja. Það er frá svo mörgu að segja.
Við erum smám saman að átta okkur á því hvernig þessi tækni getur búið til raunverulegt virði hjá íslenskum fyrirtækjum og stofnunum. Mörg þeirra hafa sýnt Ara og DataLab mikinn áhuga upp á síðkastið.
Og við erum afar þakklát fyrir það!
DataLab teymið kom saman í Hörpu sl. föstudag þar sem við létum hugann reika um áherslur og verkefni næsta árs tengd áframhaldandi þróun Ara. Myndin að ofan var tekin þar og sýnir þá reynslubolta Dennis Mattsson, Lead Data Engineer, og Sigurð Óla Árnason gervigreindarsérfræðing og Arastjóra.