5 min read
Framfarir gervigreindar | Spunagreind
Ímyndið ykkur tækni sem þjappar allri þekkingu sem er aðgengileg á netinu í auðmeltanlega og sérsniðna mola. Þú spyrð um hvað sem er og færð svarið...
6 min read
Binni Borgar : May 30, 2023
Vangaveltur innblásnar af nýlegum framförum á sviði Generative AI — Spunagreindar.
Spunagreindin flýgur hátt um þessar mundir, eins og lesa má um í fyrsta hluta, en hvaðan er hún að koma og hvert er hún að fara?
Datt í hug að setja þróunina í stærra samhengi með því að tengja hana við vélvæðingu. Við höfum góða reynslu af henni, byrjuðum af krafti fyrir 200–300 árum og köllum það tímabil iðnbyltingar. Mikil framþróun er að baki en kannski erum við bara rétt að byrja þegar kemur að vélvæðingu.
Þessi umfjöllun skiptist í tvennt:
Við vorum að vélvæða hreyfingu — og höldum því sjálfsagt áfram — og erum að vélvæða hugsun.
Vélin snýr og knýr áfram tannhjól þessa heims. Afköst og verðmætasköpun tóku stökk. Það veitti okkur svigrúm til að sinna öðru en að draga, lyfta, færa, hræra, hnoða, mala, saga, bora, moka, berja, ýta…
Vélarnar sáu um það.
Og smám saman fóru aðrir eiginleikar en vöðvaafl að skipta máli. Til að gera langa sögu stutta fór menntun og þekking í auknum mæli að verða undirstaða verðmætasköpunar.
Hugsandi stéttir verða til. Stærri og sterkari vöðvar skipta þær litlu máli við verðmætasköpun. Stærri og betri hugmyndir eru hreyfiaflið. Heilu fyrirtækin eru nú full af fólki sem vinnur við að hugsa, oft með aðstoð tölvu.
Og hvað gerum við næst?
Jú, við höldum áfram á sömu braut — enda löngu orðin háð vélvæðingarhagvextinum — og erum nú komin eitthvað áleiðis með að vélvæða hugsun. Árangur áfram, ekkert stopp!
Við hermum hugsun (e. simulation).
Til þess notum við ‘digital minds’ sem eiga heima í skýinu og við eigum samskipti við í gegnum vefþjónustur (APIs).
Á bakvið tjöldin eru stór mállíkön (LLMs) þar sem fram fer eitthvað allt annað en hugsun eins og við eigum að venjast en útkoman er furðulík — svo lík að okkur er farið að finnast nóg um.
Þegar búið er að hjúpa þessa tækni í gott notendaviðmót er upplifunin keimlík því að eiga samskipti við afar víðlesna manneskju sem les og skrifar ágætan texta, kann að forrita og teikna fínustu myndir.
Sem sagt mjög fjölhæf, alltaf til taks, reiðbúin að aðstoða og kemur sífellt á óvart.
Enda hefur heimsbyggðin almennt tekið henni fagnandi þótt margir hafi áhyggjur af þróuninni.
Nýlega hafa komið fram dæmi um hagnýtingu tækninnar undir heitinu Auto-GPT. Tæknin er þá notuð til að skrifa kóða, framkvæma kóðann, finna villur í honum og endubæta.
Slík forrit, sem eru þá skrifuð af vél en ekki mönnum, eru kölluð AI Agents og má telja líklegt að þau verða hið mesta þarfaþing áður en langt um líður. Í raun getum við falið þeim að leysa ákveðin verkefni, sent þau út á internetið í leit að svörum og fengið niðurstöður t.d. í formi texta, mynda og hlekkja á tölvupósti.
Er þetta ekki ágætt dæmi um vélvæðingu verkefna hinna hugsandi stétta?
David Mattin hjá NewWorld SameHumans skrifar…
“AI agents such as AutoGPT promise to elevate the usefulness of generative models for millions of individual users…
…will allow users to set a goal and then let the LLM iterate its own way to a useful output.”
Og aftur má gera ráð fyrir að afköst og verðmætasköpun aukist.
Það gefur sumum okkar færi á að sinna öðrum verkefnum en að reikna, besta, áætla, forrita, lesa, skrifa, teikna…
Hinar hugsandi vélar aðstoða hinar hugsandi stéttir eða sjá alfarið um verkefnin. Sérstaklega þessi sem við vorum alltaf að ströggla við… og aðeins þau sem áttu auðvelt með að aðlaga sig að tölvunum náðu að mastera.
Og smám saman fara aðrir eiginleikar að skipta máli.
Til að gera langa sögu stutta fara eiginleikar sem vélarnar eiga erfitt með að herma að hækka í virðingarstiganum á kostnað hinna.
Eigum við að giska á leiðtogahæfni, sköpunargáfu, gagnrýna hugsun…þetta er efni í annan póst.
Gervigreindartækni gæti því komið að heilmiklu gagni í því sameiginlega verkefni okkar að vélvæða í nafni skilvirkni, gæða og aukinnar velmegunar…með tilheyrandi ruðningsáhrifum sem ekki verða útlistuð hér.
Þau sem hafa áhuga á að lesa meira um neikvæðar hliðar tækninnar gætu byrjað á þessum tveimur nýlegu greinum.
Fyrst er það guðfaðir gervigreindarinnar, Geoffrey Hinton, sem nú segist sjá eftir öllu saman. Hann hefur nýverið sagt skilið við Google og hefur verulegar áhyggjur af framtíðinni.
Svo er það sagnfræðingurinn Yuval Harari sem færir rök fyrir því að Spunagreindin sé á góðri leið með að ‘hakka stýrikerfi siðmenningarinnar’.
En vindum okkur þá í síðari hluta þessarar greinar og skoðum lauslega tæknina sem Generative AI er ágætis dæmi um.
Líklega er hugmyndin um smíðisgrip með greind sem jafnast á við okkar orðin fjörgömul, eða voru ekki Sókrates og félagar að spá í þetta líka? En segja má að nútímaútgáfan af þessari draumsýn hafi komið fram um leið og tölvurnar í kringum 1950.
Eins og myndin hér að neðan sýnir hefur þróun tölvutækni og gervigreindar haldist í hendur sl. 70 ár. Segja má að framþróun í tölvutækni hafi verið forsenda framþróunar í gervigreind, t.d. reiknigeta, internetið og snjallsímar með tilheyrandi gagnasöfnun.
Gera má ráð fyrir að þessi víxlverkun haldi áfram. Skilvirkari leiðir til að keyra sífellt öflugri tölvur munu án efa leiða til enn meiri framfara í gervigreindartækni. Og mögulega mun gervigreindartæknin nýtast til að þróa enn fullkomnari tölvur.
Þegar horft er á myndina hér að ofan vaknar óneitanlega sú hugmynd að gervigreind hafi hreinlega ávallt verið hluti af stóra planinu varðandi framþróun tölvunnar, einfaldlega til að auka notagildi hennar.
Fyrstu áratugina má segja að tölvur hafi verið ansi óþjálar til brúks og aðeins á færi sérhæfðra einstaklinga að eiga við þær samskipti.
Við þurftum svo sannarlega að aðlaga okkur að tölvunum.
En nú er það óðum að breytast samhliða framþróun á sviði gervigreindar, nú síðast Generative AI. Við erum farin að eiga samskipti við tölvur á okkar eigin tungumáli, við getum gefið þeim skipanir og þær svarað okkur til baka án þess að þurfa að kunna forrita. Dæmið hér að ofan um AI Agents er vísbending um það sem koma skal.
Tölvurnar eru í auknum mæli að aðlagast okkur, koma til móts við okkur, og það mun gera þær mun hagnýtari — þær nýtast fleirum í fleiri tilfellum.
Myndin hér að neðan sýnir getu gervigreindartækni til að vinna með tungumálið og myndir í samanburði við getu okkar manna. Á allra síðustu árum hefur tæknin siglt fram úr mönnum á þessum sviðum og má sjá að framþróunin varð ansi hröð eftir að LLMs komu fram í kringum 2017.
Hversu langt er í að tæknin taki fram úr okkur á fleiri sviðum? Hér má vísa í áðurnefnda grein um guðföðurinn Geoffrey Hinton:
“Look at how it was five years ago and how it is now. Take the difference and propagate it forwards. That’s scary.”
Myndin hér að ofan kallar að sjálfsögðu á framhaldsspurninguna, hvert er hún að fara?
Generative AI er að mati sérfræðinga aðeins eitt af mörgum pússlum sem þurfa að koma saman til að mynda kerfi sem gæti mögulega kallast AGI kerfi, kerfi með greind sem er á pari við mannlega greind.
Þegar við lítum til baka eftir 20–40 ár eða svo má vel vera að þetta GPT móment verði bara eitt af mörgum litlum skrefum í átt að AGI.
En er ChatGPT á AGI rófinu? Sýnir það fyrstu merki um að slík tækni er möguleg?
Nú virðist það fara eftir því hvern þú spyrð, hvernig þú spyrð og hvernig viðkomandi skilgreinir AGI — sem virðist vera loðið hugtak rétt eins og ‘human intelligence’ ef útí það er farið.
Sum sjá fyrstu merki um eitthvað slíkt en önnur blása á það eins og fjallað er um þessari grein frá Wired.
Til að svara spurningum um líklega þróun tækninnar hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir sem má lesa um hér. Rannsóknirnar voru gerðar á árunum 2018 til 2022. Sérfræðingar í gervigreind voru beðnir um að svara því hvenær vélarnar næðu eða færu framúr mönnum…
…when unaided machines will be able to accomplish every task better and more cheaply than human workers?
…when machines will collectively be able to perform more than 90% of all tasks that are economically relevant better than the median human paid to do that task
…when AI systems will collectively be able to accomplish 99% of tasks that humans are paid to do at or above the level of a typical human.
Niðurstaðan var eftirfarandi: Um helmingur 1.000 sérfræðinga telur að við náum þessum tímamótum á næstu 40 árum eða svo. Hinn helmingurinn telur að það sé lengra í það eða við náum því ekki yfirhöfuð.
Í þessu sambandi er áhugavert að vísa aftur í Hinton:
“The idea that this stuff could actually get smarter than people — a few people believed that, but most people thought it was way off. And I thought it was way off. I thought it was 30 to 50 years or even longer away. Obviously, I no longer think that.”
Hann er því kominn í hóp þeirra sem vilja stöðva kapphlaupið ekki seinna en strax og smíða regluverk og umgjörð til að tryggja að tæknin nýtist til góðs.
En sumum finnst umræðan um AGI til lítils gagns, vilja fremur eyða kröftum í að skilja og hagnýta tæknina með skynsamlegum og jákvæðum hætti til verðmætasköpunar strax í dag.
Það verður umfjöllunarefni í þriðja og síðasta póstinum um Generative AI: Gervigreindin allumlykjandi
5 min read
Ímyndið ykkur tækni sem þjappar allri þekkingu sem er aðgengileg á netinu í auðmeltanlega og sérsniðna mola. Þú spyrð um hvað sem er og færð svarið...
Vangaveltur innblásnar af nýlegum framförum á sviði Generative AI.
Síðan haustið 2020 höfum við, undirritaður og viðmælandi minn, Brynjólfur Borgar Jónsson, hist vikulega nær alla föstudagsmorgna stundvíslega kl....