1 min read
„Gervigreindin gefur okkur sköpunarkraft“
Ungt fólk er áberandi meðal þeirra sem leiða vagninn í þróun gervigreindar. Það er ekki skrýtið, enda er þar unnið á jaðrinum, með nýjustu þekkingu...
Spunagreindin (e. generative AI) hefur farið eins og stormsveipur um samfélög manna undanfarin misseri. Fjölmiðlar keppast um að fjalla um nýjustu afrek ChatGPT, Co-pilot og Gemini, og skaparar tækninnar mæta í viðtöl eins og véfréttir eða hálfguðir. Við lifum á áhugaverðum tímum, vægast sagt.
Ari er hugbúnaðarlausn sem DataLab kynnti fyrr á árinu. Ari nýtir nýjustu tækni spunagreindar og hannaður til að verða sannkallaður sérfræðingur í þeirri starfsemi sem hann fær þjálfun í.
Ari er þegar í notkun hjá opinberum aðilum og fyrirtækjum á Íslandi, og hafa margir aðilar sýnt Ara áhuga.
Brynjólfur Borgar, stofnandi DataLab, segir frá Ara og lýsir hvernig geta hans mun þróast hratt á næstu mánuðum.
Af hverju er þessi áhugi hjá opinberum aðilum sérstaklega?
„Opinberir aðilar eru yfirleitt að vinna mikið með texta, fá fjölda fyrirspurna á hverjum degi sem þarf að svara. Til að geta gefið vönduð og rétt svör sem jafnvel vísa í lög og reglur þarftu sérfræðinga, en það er tímafrekt og dýrt fyrir þessar stofnanir.
Sumir þessara aðilar eru að fá þúsundir, jafnvel tugþúsundir fyrirspurna á ári, og það getur tekið klukkutíma að svara hverri og einni fyrirspurn. Það er því mikill áhugi á því að nýta þessa sérfræðinga betur, þannig að þeir geti svarað fyrirspurnum betur og fljótar.“
Hvað eða hver er Ari? Hvaðan kemur hann?
„Ari er gervigreindarlausn sem byggir á spunagreind. Við tölum um Ara sem „þarfasta þjóninn“, en það sem hann gerir og getur er stöðugt að breytast því tæknin er að þróast svo hratt. Ari eftir ár verður ekki sá sami og hann er í dag – líklega verður hann mun klárari.
Hvað gerir Ari, nákvæmlega?
Við segjum að þegar við erum búin að koma Ara fyrir og þjálfa hann verði sérfræðingur í starfsemi þinni. Ari tengist þá stafrænum skjalageymslum, þar sem eru geymd alls konar textagögn og textaskjöl, og Ari les og lærir þessi skjöl og þannig verður hann sérfræðingur í starfseminni. Hann vinnur því mikið á dýptina.
Við erum stundum spurð hver sé munurinn á Ara og til dæmis Co-pilot frá Microsoft. Uppsett Co-pilot lausn er ritari, gerir samantektir af tölvupóstum, bókar fundi og framkvæmir grunnaðgerðir í MS hugbúnaði – hann er aðstoðarmaður á skrifstofunni.
En í tilfelli Ara, þá erum við að búa til sérfræðing í starfseminni sem getur leyst verkefni sem krefjast sérfræðiþekkingar. Þetta er í grunninn stafræn lausn sem svarar spurningum og bregst við fyrirmælum. En svörin byggja eingöngu á fyrirliggjandi textagögnum sem geta verið umfangsmikil og viðkvæm.
Þannig að við erum að búa til þennan sérfræðing og hann svarar þínum spurningum, á grunni þess sem hann hefur áður lesið og eingöngu þess, hann er ekkert að fara út fyrir fyrirlagt efni – hann er ekkert að fabúlera eða bulla, eins ChatGPT hættir til.
Við erum að nota svokallaða „RAG“-aðferðafræði sem kemur í veg fyrir fabúleringar. Við erum að nota sérstakar aðferðir til að lesa inn gögnin og leita í þeim til að hann verði mjög góður í því viðfangsefni sem hann er að læra. Hann getur tileinkað sér mjög sértækt og afmarkað efni – og íslenskan er upp á 10.“
En þið eruð að nýta tækni frá OpenAI?
„Við erum að nota GPT-4 frá OpenAI, þannig að það er hægt að eiga samskipti bæði á ensku og íslensku. Við erum þó ekki háð GPT-4 í sjálfu sér, en hún hefur verið þjálfuð á íslensku, sem er kostur fyrir íslenskar stofnanir. Við getum hins vegar alltaf skipt yfir í aðra tækni ef það hentar betur. Það gæti verið Gemini eða Lama 3 eða hvað sem hentar best hverju sinni.
Við tengjum Ara við skjalageymslur og gagnagrunna, og tengingin er lifandi þannig að þegar þessi grunngögn breytast þá uppfærast svörin með sjálfvirkum hætti. Ari er alltaf að svara þér á grunni nýjustu gagna – hann er ekki að fara með gamlar, úreltar tuggur.
Hann er einfaldur í notkun, notar svipað viðmót og í ChatGPT, og heldur þræði í samtölum og vísar í heimildir. “
„Ari er lausn sem er sérhönnuð til að styðja starfsfólk fyrirtækja og stofnana. Ari er ekki dæmigert spjallmenni sem almenningur notar í samskiptum við stofnanir og fyrirtæki, enda tölum við ekki um „spjallmenni“.
Við tölum um „Ara, þarfasta þjóninn“ sem bætir aðgengi starfsmanna að þekkingu sem er falin í texta, og verður þessi allrahanda sérfræðingur í starfseminni og getur leiðbeint starfsfólki með einföld jafnt sem flókin úrlausnarefni. “
Hvers konar verkefni hefur Ari verið að leysa?
“Ari hefur til dæmis verið sveittur að lesa og læra sveitarstjórnarlög og reglugerðir hjá Samband íslenskra sveitarfélaga. Hann er hreinlega orðinn alger sérfræðingur í málefnum sveitarfélaga og þannig getur hann liðsinnt starfsfólki sveitarfélaga með málefni sem koma inn á þeirra borð.
Nú er innleiðingin þar að hefjast og þegar Ari er kominn í gagnið er kominn mikið betri aðgangur að þekkingu, hægt að taka betri ákvarðanir og svara borgurum mun fljótar.
Það er miklu styttri bið eftir leit, skimun og lestur skjala, starfsmenn verða sjálfstæðari í störfum og geta afgreitt málin sjálfir, í stað þess að bíða í margar vikur eftir svari.
Sérfræðingarnir hafa þá meiri tíma til að svara sérhæfðari og flóknari fyrirspurnum. “
Geturðu nefnt mér fleiri notkunardæmi fyrir Ara? Í hvers kyns verkefnum nýtist hann best?
„Já, eitt dæmi væri að nýta Ara sem þjálfunartól fyrir nýja starfsmenn. Hann gæti komið í stað stafla af verklagsreglum og handbóka, eða a.m.k. sem þjálfari til stuðnings við slíkt efni.
Ari getur líka unnið sem sérfræðingur á afmörkuðu sviði, til dæmis í öllu sem varðar vörur og þjónustu tiltekins fyrirtækis.
Ari getur líka verið liður í virkri þekkingarstjórnun viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Hann geymir „stofnanaminnið“, þannig þegar reynslumikið fólk hættir – fólkið sem hefur öll svörin – þá fer ekki öll þekkingin með, því Ari hefur meðtekið svo mikið af henni.“
Og Ari heldur áfram að læra og bæta við þekkingu sína?
„Ari heldur stöðugt áfram að læra og bætir við þekkingu sína eftir því sem skjölum er bætt við gagnbankana eða þau uppfærð. Ari byggir ekki á úreltri þekkingu, er ekki að tyggja úreltar tuggur ofan í fólk, hann nýtir alltaf nýjustu gögn. Það er kostur hans að hann getur gleymt og nýtir ekki gögn sem búið er að fjarlægja.”
„Það er eitt að nota ChatGPT og biðja hann um að gera samantekt um hitt og þetta. En ChatGPT er ekki sérfræðingur í þinni starfsemi, hefur ekki þessa einstöku innsýn í samhengi hlutanna sem á aðeins við um fyrirtæki þitt.
Þegar Ari er búinn að lesa allt um fyrirtækið hefur hann öðlast þennan skilning – hann veit meira um fyrirtækið en nokkur einstakur starfsmaður og getur svarað hvers kyns spurningum hikstalaust.”
Þarf Ari ekki starfsþjálfun eins og aðrir? Tekur mikinn tíma að þjálfa hann upp?
„Það tekur nokkrar vikur að koma Ara fyrir og tengja gögnin við hann og svo er hann bara til þjónustu reiðubúinn. Við sjáum svo bara um að uppfæra, viðhalda og reka lausnina.
Svona virkar þetta: Við byrjum á “proof of concept”, prótótýpu, til að máta Ara við starfsemina og meta hvernig hann nýtist best. Svo höldum við bara áfram og Ari verður sérfræðingur í starfseminni á nokkrum vikum. Þetta gengur furðufljótt fyrir sig.“
Nú er væntanlega oft verið að vinna með viðkvæmar upplýsingar, er öryggi gagna tryggt í svona lausnum?
„Já, fyrir fyrir marga aðila skiptir öryggið öllu máli. Við erum búin að útfæra uppsetninguna þannig að fyllsta öryggis sé gætt. Við getum rekið hann og hýst á Azure fyrir okkar viðskiptavini en viðskiptavinir geta líka hýst hann á sínu eigin svæði í Azure, og tékkað í öll box hjá öryggisstjóranum.
Þá geta þeir leyft Ara að lesa viðkvæm gögn og öll samskipti við Ara eru á öruggu svæði viðskiptavinarins.“
Hvað er framundan hjá Ara? Er hann að þroskast?
„Í dag er Ari „enterprise“ lausn sem hentar fyrirtækjum og stofnunum sem liggja á miklu magni textagagna. Ari kann að lesa og lærir allt sem hann kemst yfir.
Í gegnum Ara hafa starfsmenn aðgang að uppsafnaðri þekkingu sem er falin í þúsundum blaðsíðna af handbókum og leiðbeiningum, lögum og reglum, alls kyns textum sem lýsa hinu og þessu.
Þegar Ari hefur verið innleiddur, orðinn sérfræðingur í starfseminni og kominn á Azure svæði viðskiptavinarins, þá eru þar í kring alls kyns töluleg gögn sem væri gagn af að hafa samskipti við líka.
Ef hann fær að stúdera þessi gögn líka er hægt að spyrja Ara spurninga út í þau, til dæmis „hvað seldum við margar regnhlífar í síðustu viku?“, „hversu margar regnhlífar seldum við í sömu viku fyrir ári?“ eða „hvað á ég marga frídaga eftir?“ Möguleikarnir eru endalausir.
Í nánustu framtíð verður hægt að eiga samtal við Ara um hvers kyns gögn, bæði texta og tölur – það verður alger bylting í aðgengi að þessum gögnum og miklu auðveldara að taka gagnadrifnar ákvarðanir.
Þú þarft ekki að bíða í einhverja daga eftir því að PowerBI sérfræðingurinn matreiði upplýsingar ofan í þig – þú talar bara við Ara.“
Þessi tækni snýr að hagræðingu, að auka afköst – er markmið stofnana að fækka fólki?
„Í dag er staðan reyndar þannig að flestar stofnanir telja sig þurfa að bæta við fólki til að sinna skyldum sínum og veitt góða þjónustu. Þessi tækni gerir þeim hins vegar kleift að sinna sínu hlutverki án þess að þurfa endalaust að bæta við fólki. Þú margfaldar getu hvers sérfræðings til að sinna sínu starfi.
Starfsmaðurinn þarf ekki að eyða megninu af tíma sínum í að leita og garfa í gögnum, hann fær svörin frá Ara og getur svo unnið úr þeim sjálfur; metið og túlkað eða umritað að hluta, útskýrt fyrir aðilum innanhúss eða utan.
Tíminn sem áður fór í að leita að leita að upplýsingum og setja saman svar getur nú farið í miðla þessari þekkingu og nýta raunverulega sérþekkingu, ekki í tímafreka handavinnu og uppflettingar. “
„Við erum að vinna í dag fyrir aðila í ferðaþjónustu þar sem berast þúsundir fyrirspurna með tölvupósti í hverjum mánuði. Margar af þessum fyrirspurnum leiða til sölu; fólk er að skoða pakka á netinu og sendir tölvupóst til að spyrja um hitt og þetta. Starfsfólkið verður að vanda sig í hverju svari.
Þegar Ari er kominn í vinnu og búinn að lesa sér vel til getur hann afgreitt slíkar fyrirspurnir. Hann gerir drög að svari, starfsmaður les yfir, staðfestir eða breytir og sendir til baka.
Þetta sparar gríðarlega vinnu og stórbætir þjónustu til viðskiptavina. “
Hvernig líkist þessi lausn spjallmennum sem við sjáum fyrirtæki auglýsa og nýta gervigreind og þjónusta notendur? Eru þetta skyldar lausnir?
„Ég sé fyrir mér að þessi tækni sem við erum að nota, að hún muni á endanum taka yfir þessi spjallmenni, sem viðskiptavinir og almenningur notar.
Í dag eru flest þessi spjallmenni að nota eldri tækni þar sem svörin eru dálítið fyrirfram ákveðin. Þú spyrð um eitthvað og búið að ákveða fyrirfram hvert svarið verður – aðeins eitt svar sem kemur til greina – og ef þú ferð aðeins út fyrir rammann þá skilur spjallmennið ekki spurninguna.
Sú tækni sem við erum að nota myndar nýtt svar sem hefur aldrei verið samið áður. Svarið er samið í rauntíma, á staðnum, rétt eins og manneskja myndi gera “
„Þegar við erum búin að ná betri tökum á tækninni – sem er bara á allra næstu mánuðum – þá má vel vera að hún verði boðin ytri notendum, til dæmis viðskiptavinum, til að þeir geti nýtt sér möguleika hennar.
Fyrst þurfum við að álagsprófa hana, fá löglega hakkara til að hamast og pönkast í henni. Hökkurum finnst nefnilega mjög gaman að fikta í svona opnum spunagreindarlausnum sem ætlaðar eru almenningi og fá þær til að gera eitthvað af sér, gefa sér upplýsingar sem þær mega ekki. Þannig að við viljum fyrirbyggja allt slíkt.
Það er líka eðlismunur á notkun starfsmanns og ytri notanda á tækninni – ef starfsmaður er að nota þessa lausn og misnotar hana, þá er hann einfaldlega að brjóta samning. Ef þú setur hana út til almennings getur fólk gert hvað sem er.
Nýlegt dæmi og víti til varnaðar er kanadísk flugfélag sem fór að bjóða upp á svona lausn fyrir viðskiptavini og spjallmennið fór að bjóða viðskiptavinum ferðir á allt of lágu verði, miklu lægra en félagið vildi nokkurn tíma bjóða. Og flugfélagið var auðvitað dæmt til að selja á verðinu sem lausnin bauð – nema hvað?
Þessi tækni mun þó keyra hvers kyns spjallmenni í framtíðinni og það gerist á allra næstu mánuðum og árum.”
Hvers konar aðilar hafa mestan áhuga á Ara í dag?
„Við erum um þessar mundir að ljúka innleiðingu á Ara hjá tveimur aðilum. Samstarfið við Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur gengið afar vel og er lausnin að fara í innleiðingu hjá sveitarfélögum landsins á næstunni. Þar er Ari sannkallaður sérfræðingur í málefnum sveitarfélaga.
Almennt er gríðarmikill áhugi hjá mörgum opinberum aðilum, ráðuneytum og stofnunum, þar sem mikið er verið að vinna með texta, svara formlegum fyrirspurnum, skrifa skýrslur, vinna í stefnumótun og svo framvegis.
Hins vegar eru það stærri fyrirtæki og fyrirtæki sem þjóna erlendum mörkuðum, ekki síst í ferðaþjónustu, sem sjá mikil tækifæri í þessu.
Sömuleiðis fjarskiptafyrirtæki, tryggingafélög og bankar. Arion banki er til dæmis að ljúka innleiða Ara núna, sem við erum mjög spennt að fylgja eftir.
Þetta eru fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á miklu textaefni, með einum eða öðrum hætti, til dæmis í formi samningsskilmála við viðskiptavini, verklagsreglur, öryggisreglur og handbækur fyrir starfsmenn. En efnið er yfirgripsmikið, oft fremur torlesið og leiðinlegt að leita í því að tilteknum svörum.
Það er bara offramboð af tyrfnum texta sem leiðinlegt er að lesa, en Ari er með lausnina:
Ari: „Þú þarft ekkert að lesa þennan texta, talaðu bara við mig, hvað þarftu að vita?“
Þú: „Hvað á ég að gera þegar X villa kemur upp í kerfi A?“
Ari: „Já, ekkert mál, þá gerir þú A, B og C.“
Þú: „Ok frábært, ég þarf ekki að lesa þessa 15 þúsund blaðsíðna öryggishandbók?“
Ari: “Nei, nei, ég er til aðstoðar. Ég er Ari, þarfasti þjónninn – hvað þarftu að vita meira?”
„Þegar Ari er kominn til starfa sem sérfræðingur í þinni starfsemi blasir við næsta þróunarskref: að fela honum verkefni til að framkvæma. Hann er nefnilega fullfær um að framkvæma einfaldar aðgerðir með því að tengja hann við ýmis kerfi sem þegar eru í notkun í rekstrinum, til dæmis tölvupóstkerfi.
Þegar fyrirspurn berst þannig til Ara getur hann útbúið drög að svari og vistað í útboxi, sem bíður bara eftir að starfsmaður renni yfir og staðfesti, sem sparar gríðarlega vinnu.
Þetta er ekkert ósvipað því að þjálfa upp sérfræðing til starfa. Starfsmaðurinn fær þjálfun og fræðslu og fær svo tæki og tól til að geta nýtt þekkingu sína. Hann þarf tengingu við tól – og aðra starfsmenn – til að geta gert eitthvað gagn. Það þarf að setja hann í samband.
Það á hið sama við um Ara. Honum er komið fyrir í fyrirtækinu, í tækniumhverfi þess, hann les og lærir allt um fyrirtækið og verður svo tilbúinn að tengjast öðrum tólum til að geta byrjað að vinna sjálfur og verða sífellt sjálfstæðari eftir því sem hann þróast.
Þannig að lausnirnar þróast úr því að vera ráðgjafar sem vita öll svörin yfir í að verða erindrekar sem vinna einföld verk sjálfstætt. Og jafnvel þótt að hin undirliggjandi spunatækni myndi ekkert þróast næstu fimm ár erum við samt að sjá fram á mjög mikla framleiðniaukningu bara vegna þessa möguleika á „agency“.
Það verður mikil þróun á þessu sviði á næstu mánuðum.
Bíðið bara.”
Hans Júlíus Þórðarson
1 min read
Ungt fólk er áberandi meðal þeirra sem leiða vagninn í þróun gervigreindar. Það er ekki skrýtið, enda er þar unnið á jaðrinum, með nýjustu þekkingu...
Brynjólfur Borgar Jónsson, forsprakki DataLab, mætti hundblautur í Origo stúdióið eitt föstudagseftirmiðdegi snemma sumars. Hann kom þangað hjólandi...
Axel Örn Jansson er nýjasti meðlimur Datalab teymisins, en hann kemur fullur af eldmóð og nýstárlegum hugmyndum úr meistaranámi sínu í...