2021: Árið sem Ísland varð snjallara

Síðan haustið 2020 höfum við, undirritaður og viðmælandi minn, Brynjólfur Borgar Jónsson, hist vikulega nær alla föstudagsmorgna stundvíslega kl. 8:00 á Kaffi Vest. Þar höfum við Brynjólfur – eða Binni Borgar, eins og margir þekkja hann – rætt um gervigreind, stafræna innviði og snjallar gagnalausnir.

Nema hvað?

Þegar við Binni byrjuðum að hittast stóðum við báðir á tímamótum og óvissa mikil framundan – líkt og gilti um samfélagið allt í kóvíðu fári. Staða okkar beggja hefur mikið breyst síðan, en sú saga tengist einmitt samspili faraldursins og hröðunar í stafrænni þróun.

Nú, undir lok árs 2021, fannst okkur tilvalið að taka stöðuna og fara yfir sviðið á liðnu ári og jafnvel lengra aftur. Fókus spjallsins var þó algjörlega á áhugaverða þróun hjá Binna og Datalab undanfarið, en ekki á mér – sem lesendur fyrirgefa trúlega greiðlega. 

Sem fyrr hittumst við á Kaffi Vest – í þetta skiptið með myndavél og hljóðnema til að týna engum gullmolum. Þeir komu þónokkrir.

Árið hófst í miðju kófi – og skyggni lítið áfram veginn

Rifjum þetta aðeins upp: Hver var staðan hjá ykkur í Datalab við lok árs í fyrra?

Fyrir ári vorum við í raun bara tveir í fyrirtækinu;  ég og Dennis, okkar reyndasti gagnasérfæðingur, en þriðji starfsmaður okkar, Stella, var í fæðingarorlofi (ekkert grín hér!). 

Staðan þá um haustið var sú að við vorum að þjónusta fyrirtæki sem við vorum með samninga við og þróa okkar innviði, aðferðafræði, lausnir og ferla, en það var ekki mikið nýtt að gerast á viðskiptahliðinni. 

Það er ekkert launungarmál að Covid hafði gríðarmikil áhrif á okkur og lengst af árið 2020 voru ekki margir að velta mikið fyrir sér snjöllum gagnalausnum. Slíkar vangaveltur voru einfaldlega ekki efstar á blaði. 

Þessi hefðbundna stafræna þróun hélt áfram víðast og jafnvel af auknum krafti, en næsta skrefið, þar sem okkar svið liggur, þar sem gögnin úr stafvæðingunni eru hagnýtt – það var sett í salt að miklu leyti. Það var vissulega mikil óvissa framundan, eins og hjá mörgum.

Það fer kannski ekki í gang alvöru nýsköpun eða fjárfesting í nýrri tækni fyrr en seinni hluta 2020, þegar ljóst var að heimurinn yrði að aðlagast nýjum veruleika, eða hvað?

Þetta var auðvitað gríðarmikið áfall í fyrra og það tekur okkur öll dálítinn tíma að átta okkur á stöðunni. Svo þegar rykið fer að setjast förum við öll að sjá betur inn í framtíðina, hvernig hlutirnir muni verða í einhvern tíma áfram.  

Það er hins vegar ljóst að vírusinn flýtti fyrir tækniþróun sem var í pípunum, sem við sjáum til dæmis í alls kyns sjálfvirknivæðingu, netverslun og aukinni þjónustu í gegnum tölvur og veflausnir.  Og við, neytendur, virðumst taka þessu fagnandi og erum jafnvel búin að vera að bíða eftir þessu lengi.

En þetta á líka við um alls kyns þjónustu og afgreiðslu hjá stofnunum, opinberum aðilum?

Jú, seinni hluta ársins (2020) þá fóru fyrirtækin að átta sig á því að þau urðu uppfæra sína stafrænu innviði. Sum voru náttúrulega komin langt, en áherslan var aukin enn frekar. Og ríkið gerði hið sama.

Mörg fyrirtæki gerðu sér grein fyrir því að ef þau ætluðu hreinlega að vera með í leiknum yrðu þau að hafa þessa hluti í lagi. Á sama tíma voru margir að flytja tækniinnviði sína í skýið. Og þegar gögnin eru komin þangað opnast alls kyns tækifæri og hugmyndir kvikna. 

Fyrirtækin átta sig á því að þau eru komin með gögnin sín í sama tækniumhverfi og framsæknustu fyrirtæki sem eru að hagnýta gögnin sín með gervigreind. Við getum talað um netverslanir eins og Asos eða veitur eins og Netflix. Augu margra fara að opnast.

Þannig að allt árið í fyrra var þessi umbreyting í gangi. Í desember, um þetta leyti í fyrra, fundum við svo fyrir því að eitthvað var að fara af stað, við fórum að sjá til sólar aftur og bættum nýju viðskiptavinum í hópinn.

 

Dennis Mattsson í fullum skrúða í heimsókn hjá Algalíf sem bættist í hóp viðskiptavina DataLab undir lok árs 2020

Það sem er svo að gerast á árinu, sem nú er að líða, er stígandi eftirspurn og skilningur á því að næsti leikur á þessari stafrænu vegferð er óumflýjanlega hagnýting gagnanna með gervigreind.

Snjallvæðingin er komin rækilega á dagskrá

Þannig að staðan hefur breyst?

Landslagið í dag er allt annað. Við finnum nú að allt í einu eru alls kyns aðilar að setja sig í samband við okkur og vilja hefja samtalið.  Áður þurftum við að sækja verkefnin mikið meira, sannfæra um gildi tækninnar. Þess þarf miklu síður núna. Áður var þetta frekar tilraunastarfsemi einstakra áhugamanna innan fyrirtækja um þessa tækni fremur en afurð einhverrar stefnu.

Nú eruð þið kannski frekar að eiga við aðila sem hafa tekið ákveðna stefnu í nýtingu gagna og hafa stuðning stjórnar og fjármagn til að fylgja því eftir?

Já, nú eru frekar að hafa samband aðilar sem hafa hreinlega fengið þetta verkefni, að gera verðmæti úr gögnunum, útfæra þetta tæknilega og skila af sér einhverju mati til framkvæmdastjórnar.  Þetta fólk er að setja sig í samband og er mjög opið fyrir hugmyndum og möguleikum í stöðunni. 

Allt hefst á vandaðri greiningu

Hvernig virkar ferlið fyrir nýja samstarfsaðila?

Fyrir nýja aðila liggur vel við að fara í greiningarvinnu, sem við köllum Vegvísi, þar sem við erum að hjálpa þeim að svara grundvallarspurningum um það hvernig þau geti nýtt tæknina sem best. 

Í þeirri vinnu erum við líka að skanna tækifæri til að hagnýta gögnin til að styðja við markmið í rekstrinum. Það þarf oft utanaðkomandi augu til að greina það sem best.  Út úr slíkri vinnu kemur gjarnan listi yfir hugmyndir að verkefnum. 

En svo erum við líka að fá til okkar aðila sem eru búnir að hugsa vel hagnýtingartilfellin hjá sér sem spyrja okkur hvort við getum leyst hitt eða þetta verkefnið.

Hvers konar verkefni eru það?

Ja, eitt dæmi væri smíði á lausn sem spáir fyrir um þróun lykilmælikvarða í rauntíma þar sem henni er komið fyrir í sínum kerfum, eða lausn sem bendir á frávik eða vel falin en áhugaverð tilfelli í miklu magni gagna sem aðilar í ‘eftirliti’  skoða svo nánar. 

Annars er þetta bara allur skalinn, frá lausnum með fókus á viðskiptavini og upplifun þeirra yfir í lausnir með fókus á fjárhaginn eða afar afmörkuð en mikilvæg svið rekstrarins.  Þetta er mikill munur frá því áður. 

Er þetta alþjóðleg þróun, þessi aukni áhugi á hagnýtingu gagna? Er þróunin hér vegna áhrifa að utan eða er íslenska smæðin og samanburðurinn að smita út frá sér?

Ég held að undanfarin 10 ár hafi verið erfitt að komast hjá því að heyra um þessa tækni á ráðstefnum erlendis, sama á hvaða markaði það er. Þessi tækni kemur hvarvetna við sögu. Og auðvitað síast þetta smám saman inn. 

Og snjallvæðingin verður líka rökrétt framhald af stafvæðingunni sem er komin mjög langt víða. Fyrirtækin komast á þann punkt að það verður að takast á við þetta, kanna möguleikana á næstu skrefum? 

Já, allt byrjar þetta á stafvæðingunni, og hún leiðir svo bara áfram að þessari rökréttu niðurstöðu. Þannig að jafnvel þó þú hafir aldrei farið á nokkra ráðstefnu eða heyrt neitt um þessa tækni erlendis frá og bara farið af stað í einhverja stafvæðingu í þínum einangraða afdal, þá myndir þú hitta fyrir þetta tækifæri og grípa það á lofti –  ef það er eitthvað vit í kollinum! 

Svo kæmi upplýstur einstaklingur, eigum við að segja gagnasérfræðingur, í heimsókn í dalinn þinn og benti þér á nýjar leiðir og þá ertu kominn á kaf í snjallvæðinguna áður en þú veist af. 

En umræðan hefur svo sem verið að stigmagnast síðastliðin 10 ár.  Stóru tæknifyrirtækin eru fyrir löngu farin að hagnýta sér þessa tækni, Netflix, Amazon, Facebook o.s.frv. 

Þeir sem voru að fylgjast með því sem framsækin erlend fyrirtæki voru að gera vissu nákvæmlega hvað var í pípunum og ég var auðvitað sjálfur að básúna um þetta hérna heima.

Ný kynslóð stjórnenda og sérfræðinga er mikið hreyfiafl

Þannig að það eru ýmsir punktar að mætast á sama tíma?

Einmitt. Fyrir utan þessa rökréttu þróun þá er líka að koma upp ný kynslóð í stjórnendastöður sem er ekki hrædd við þessa tækni og finnst hún alls ekki eins framandi og fyrri kynslóðum fannst.

Gagnavísindi er líka orðið stórt fag. Ég auglýsti fyrst eftir gagnasérfræðingi 2012 þegar ég vann í ráðgjöfinni hjá Capacent, þetta var hreinlega ekki til þá og orðið ‘data science’ eða gagnavísindi varla komið fram. Þetta var heilmikið verkefni að finna réttu manneskjuna.

Teymi DataLab í desember 2021: Axel, Binni, Ágúst, Dennis, Stella og Bjarni

Við höfum auglýst og ráðið þrjá sérfræðinga á þessu ári og munurinn er mikill frá því sem var – þetta er orðið öflugt fag í dag með mjög vel menntuðu fólki. 

Eru gagnavísindi ekki bara heitasta fagið til að sérhæfa sig í dag?

Ja, ég las grein 2014 sem bar titilinn “Data Scientist: The sexiest job of the 21st century?” Svarið er nú líklegast “nei” – en eftirspurnin eftir þessum sérfræðingum hefur sannarlega aukist mikið. 

Datalab er ekki lengur eini aðilinn sem er að sækjast eftir þessu fólki, en verkefni okkar eru hins vegar mjög áhugaverð. Þú ert að koma í hóp annarra sérfræðinga sem þú getur lært mikið af – þú ert eiginlega í landsliðinu. 

Íslensk fyrirtæki eru að taka hratt við sér

Já, þið eru í framvarðasveit í þróun fyrir íslenskan markað. Við höfum fylgst með þessum erlendu risum nýta gögnin sín með gervigreind að vopni, en íslensk fyrirtæki eru auðvitað svo smá í þessum samanburði.  Erum við að sjá það erlendis að fyrirtæki af sambærilegri stærð, lítil og millistór fyrirtæki, séu að hefja þessa vegferð með sama hætti?

Ég er ekki viss um að þróunin sé jafn hröð erlendis hjá fyrirtækjum af sambærilegri stærð. Til dæmis las ég nýlega grein um stöðuna í Þýskalandi. Þar er allt í rugli og íhaldssemin með eindæmum – þar eru 70% fyrirtækja enn að nota faxtæki, sem er ótrúlegt. 

Okkar fremstu fyrirtæki á Íslandi eru farin að taka við sér núna, til dæmis leiðandi fyrirtæki á ýmsum sviðum atvinnulífsins; fjarskiptamarkaði, bankageira og smásölu. Og þetta gerist hratt hérna, á örfáum árum. Erlendis virðast þessi litlu og millistóru fyrirtæki enn að draga lappirnar.

Okkar fyrirtæki, þótt þau séu smá, eru auðvitað í beinni samkeppni á netinu við risafyrirtækin og geta ekki annað en nýtt bestu tækni til að eiga möguleika í þeim slag – þaðan kemur auðvitað þrýstingurinn líka?

Jú, jú, við höfum líka séð að Íslendingar vilja versla í innlendum netverslunum ef þær eru góðar. Ef þær standast samanburð við þær erlendu þá kjósa neytendur íslenskt. 

Og örugglega eru ýmsar ástæður fyrir því.  Þú ert nær því að skila og skipta, minna vesen, en okkur finnst líka gott að versla í okkar “heimabyggð”, ef svo má segja, sumum okkar allavega.

Fjármálageirinn býr yfir gögnum en samkeppni knýr ekki áfram þróun

Þannig að það eru ákveðnir geirar umfram aðra sem eru að keyra þetta áfram, t.d. smásalan?

Það eru í raun geirarnir sem eru komnir langt í stafvæðingunni sem keyra þetta áfram. En geirinn sem byrjaði í raun fyrst á stafvæðingunni, bankageirinn, þar er ekki nægilega virk samkeppni við erlenda aðila, og fákeppni og ‘kósíheit’ hér heima. 

Þannig að þótt þeir hafi verið snemma í stafvæðingunni hafa þeir verið seinir að mínu mati að kveikja á gervigreindinni, nýta gögnin til að bæta notendaupplifun. Jú, þeir nýta auðvitað gögn til dæmis til áhættustýringar en það hefur ekki yfirfærst á önnur svið bankanna, sem er alveg furðulegt. 

Ég veit samt að sumir þeirra hafa verið að skoða þessi mál en það væri gaman að sjá einhvern bankanna setja gögn og snjallar lausnir á oddinn. 

Þegar þú ert kominn á tryggingamarkaðinn ertu kominn með aðeins harðari samkeppni, það er mikið auðveldara fyrir þig að skipta um tryggingafélag heldur en banka. En sá markaður stafvæddist seinna. 

Þegar bankarnir voru komnir með netbanka voru tryggingafélögin ennþá að senda þér einhver skírteini og pappíra heim með einhverju ‘jargoni’ sem þú skildir ekkert í. 

En svo stafvæddust þau með öppum og fleiru, og verða líklega fljót að hagnýta sér þessa tækni og sum eru þegar byrjuð.

Fjarskiptamarkaðurinn er kominn vel áleiðis

Hvað með aðra geira?

Svo ertu með fjarskiptamarkaðinn sem stafvæddist frekar snemma og þau fyrirtæki eru komin talsvert áleiðis til að hagnýta sér þessa tækni þótt þau séu bara rétt að byrja, en þar er einmitt ennþá harðari samkeppni. 

Smásalan er líka að stafvæðast um þessar mundir. Netverslun kom tiltölulega snemma fram, en svo varð fljótt ákveðin stöðnun þar. Netverslunum var hent upp sem nokkurs konar framlengingu af hefðbundinni starfsemi. En þetta voru einangruð verkefni og oft lítið sinnt í nokkur ár á eftir.

Svo voru líka ákveðin atriði sem þurfti að leysa varðandi afgreiðslu pantana, sem í rauninni voru leyst í covid, sem fyrirtæki eins og Pósturinn, Aha, N1 og fleiri hafa komið að. 

Nú er smásalan að kveikja á því að þessi þjónusta þarf að vera góð og snjöll eins og okkar stærstu samkeppnisaðilar erlendis bjóða.

Svo er það opinberi geirinn. Mér sýnist ríkið hafa sett markmið mjög hátt.  Ég held að fyrirmyndin sé Eistland. Eistar eru hreinlega frumkvöðlar í heiminum í stafvæðingu opinberrar þjónustu. 

Þeir fóru bara af stað og sáu tækifæri í því að stafvæða opinbera þjónustu, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, og ég veit að íslensk stjórnvöld hafa einmitt heimsótt Eistland og þeir hafa sömuleiðis komið hingað til að gefa góð ráð. 

Samantekið er þróunin frekar skýr – þetta snýst um magn og gæði gagnanna, þ.e. að þau svið eða geirar þar sem gögnin eru fyrir hendi eiga mesta möguleika í stöðunni?

Já, það er á ýmsa vegu. Þú hefur til dæmis bankana og tryggingafélögin sem byggja á miklum gögnum en eru skammt á veg komin í snjallvæðingunni, en svo eru aðrir geirar sem eru ekki enn farnir að safna miklum gögnum af því stafvæðingin er svo óþroskuð. 

Tökum sem dæmi ýmiss konar veitustarfsemi. Þar ertu að eiga við pípur og víra – og þú hefur kannski ekki alveg rauntímaupplýsingar um stöðu þessara innviða – hversu mikið heitt vatn er að flæða um hina pípuna vs. aðra. 

En þetta er einmitt verkefnið núna – það er verið að stafvæða þessa innviði með því að hengja á þá einhvers konar mælitæki. Gott dæmi eru snjallmælarnir sem Veitur eru að setja upp, þannig að það sé hægt að fylgjast með rafmagnsnotkun í rauntíma í stað þess að taka mynd af mælunum eins og er í dag. 

Svo eru fyrirtæki eins og Laki Power, sem eru að þróa mælitæki sem þú setur á raforkuinnviðina, til að fylgjast með ástandi þeirra og spá fyrir um bilanir. Þetta höfum við ekki séð áður.  

Allt í einu erum við að fá gögn frá hefðbundnum innviðum sem við höfðum ekki áður, og þá er hægt að fara að hagnýta þau til að taka betri ákvarðanir, draga úr sóun, spara pening og svo framvegis. 

Og nú er þetta allt í einu orðið mikið mál, þar sem orkuskipti eru að gerast hratt, rafmagnsbílar til dæmis orðnir miklu algengari.

Nú er okkur meira að segja sagt að ekki sé næg orka til, þannig að gögnin verða mjög mikilvæg fyrir okkur; fyrirtæki, einstaklinga og opinbera aðila, til að nýta rafmagnið betur og hagkvæmar. 

Þetta er dæmi um geira sem staðvæðast síðar, en eru nú komnir á fullt.

5G mun margfalda gögnin sem nærir snjallvæðinguna

Hvaða áhrif mun 5G væðingin, sem er handan við hornið, hafa á snjallvæðinguna?

Með 5G fara ólíklegustu hlutir að breytast í tölvu, hvort sem það er ruslafatan eða ljósastaurinn, reiðhjólið eða hvaðeina. Og þegar þú ert búinn að breyta öllu í tölvu, ætlarðu ekki að hirða gögnin og nýta þau? Í upphafi árs voru um 500 5G símar í notkun – nú eru þeir orðnir 12 þúsund.  

Bomban að koma. 

5G mun líka flýta fyrir þróuninni í geirum þar sem stafvæðingin er varla hafin. Gott dæmi um þetta er landbúnaðurinn. 5G á eftir að breyta öllu þar. 

Það hljóta einmitt að vera mikil tækifæri í landbúnaði til að hámarka alls kyns nýtingu þegar gögnin fara að streyma inn? Verður ekki hver belja úti í haga með nema á spenunum?

Jú, Branda verður með nema sem segir bóndanum nákvæmlega hvar hún er og hvað hún er búin að hreyfa sig mikið.  Við munum vita nákvæmlega jafn mikið um beljurnar og við vitum um fótboltamennina í dag. Branda og Salah verða jafningjar í gagnaheiminum! Landbúnaðartækin verða líka 5G vædd. 

Stóra frétt ársins er samstarf við Origo – vöxtur framundan 

Hver er stóra fréttin hjá Datalab á árinu?

Við fórum í strategískt samstarf við Origo, þau keyptu þriðjungshlut í félaginu. Og það er auðvitað annars vegar til marks um okkar stöðu á þessum markaði og svo því að hérna, í þessari tækni, er framtíðin að verða til. 

Origo hefur víðari sýn yfir UT geirann og þarfir þar, og sjá að þarna eru klárlega tækifæri. Þannig að okkur líst mjög vel á þetta samstarf. Við getum líka sótt sérhæfða þjónustu til Origo sem við bjóðum ekki sjálf en á heima í þessari sömu virðiskeðju. En þetta eru alveg aðskilin fyrirtæki. 

Origo og DataLab hófu samstarf á árinu

Annar hápunktur á árinu er stækkun teymisins og við endum árið með sex manna teymi sem er met. Við höfum áður verið fimm, rétt fyrir covid og vorum að veðja á vöxt árið 2020. Það gerðist nú ekki. 

Vöxturinn var settur á bið, en er kannski að koma inn núna ennþá sterkari fyrir vikið?

Já, þetta var alveg rétt metið að vöxturinn væri í pípunum, en svo kom covid.  Nú er þetta að dúndrast inn. Covid frestaði þessu um ár eða svo. Við þurftum að draga sama í covid, en erum nú að blása í seglin og fjölga. 

Við endum árið í góðum gír, verkefnin framundan eru stærri og áhugaverðari, ekki bara tilraunaverkefni heldur lykilverkefni sem fyrirtæki eru að veðja á fyrir framtíðarvöxt. 

Og við höfum fengið til okkar gríðaröflugt og flott fólk. Hæfasta  fólkið hefur mikinn áhuga á að vinna hjá Datalab, við getum valið úr góðu fólki, sem er frábært. 

Þetta hættir að vera einhver framandleg framtíðarmúsik og tilraunastarf, verður eins og rafmagnið eða internetið þegar það var tekið í notkun á öllum heimilum og fyrirtækjum?

Já, eða bara eins og bassaleikarinn í hljómsveitinni, sem heldur öllu saman. Þetta verður hrynkjarninn í bandinu – bassinn og tromman, þar viljum við vera. Ekki alltaf í sólógítarnum, heldur ómissandi þáttur í starfseminni, að gera það sem gera þarf, þannig að allt sé tipp topp, ekki bara eitthvað til skrauts.

Hverju spáirðu fyrir næsta ár? Hver verður stóra fréttin á næsta ári? Viltu spá einhverju djörfu?

Þetta verður engin bylting, þróunin heldur áfram. Það gæti komið stökk á næsta eða þarnæsta ári, ef skölunin hefst fyrir alvöru. Þá þroskast líka umræðan, við förum að ræða um hvað má og hvað má ekki í tækninni; hvernig við ætlum að hagnýta þessa tækni þannig að hún nýtist okkar samfélagi sem best og á ábyrgan hátt.

Við höfum til dæmis séð hvernig andlitsgreiningartækni er notuð erlendis í myndavélum, þar er hætta á mismunun. Svo munum við sjá fyrirtæki fjárfesta í mannauði og tæknilegum innviðum til að hagnýta þessa tækni. 

Þú ert að tala um fjárfestingu í snjalltæknilausnum?

Já, þá erum við að tala um það sem höfum kallað “gagnasmiðjur”. Við munum sjá stærri aðila hér á markaði fjárfesta í slíkum hugbúnaðarlausnum sem gerir þeim kleift að þróa og innleiða gervigreindartækni og hafa betri yfirsýn yfir hana. 

Já, og slíkar hugbúnaðarlausnir tryggja líka hlítni við alþjóðlega staðla og reglur um gervigreind sem sífellt meiri krafa verður gerð um, t.d. hvað varðar rekjanleika ákvarðana sem eru teknar af reikniritum?

Já, þetta hættir að vera einhver sparkleikur sem þú stundar úti á frosinni tjörn þar sem allt er leyfilegt og yfir í það að leikurinn verður spilaður inni á velli með dómara og reglum – alvöru umgjörð. 

Og til að tryggja að þú sért að fylgja reglunum þarftu að færa leikinn inn í einhvern ramma. Þessi rammi er þessar svokölluðu gagnasmiðjur.

Næstu þróunarskref snúa ekki bara að tækni – og þó

Eitthvað gull að lokum?

Einn af næstu leikjunum í samfélagsþróuninni eru verkefni á sviði umhverfis- og samfélagsmála. Við þurfum að lækka kolefnisfótsporið og leiðrétta ýmiss konar samfélagslegt óréttlæti sem hefur viðgengist. 

En það er sannarlega skörun þarna á milli: Hagnýting gagna og snjallra lausna mun til dæmis klárlega nýtast í mörgum sjálfbærniverkefnum, til dæmis með því að til að draga úr sóun. Líklega verður tæknin einmitt lykillinn að raunverulegum árangri á því sviði eins og mörgum öðrum. 

Eitt er víst: Framtíðin er snjöll – og framtíðin er gagnadrifin.

Hans Júlíus Þórðarson.

Höfuðstöðvar DataLab eru í Grósku ‘hugmyndahúsi’

Deila grein

Fleiri greinar

Ari margfaldar afköst sérfræðinga

Ari er hugbúnaðarlausn sem DataLab kynnti fyrr á árinu. Ari nýtir nýjustu tækni spunagreindar og hannaður til að verða sannkallaður sérfræðingur í þeirri starfsemi sem hann fær þjálfun í. Brynjólfur Borgar, stofnandi DataLab, segir frá Ara og lýsir hvernig geta hans muni þróast hratt á næstu mánuðum.

Lesa meira »

Ari er

Þarfasti þjónninn frá DataLab eykur aðgengi að þekkingu sem falin er í texta.

Lesa meira »

NÝTUM GÖGNIN.
NÁUM ÁRANGRI.

DataLab Ísland ehf.
kt. 570816-1870

Borgartúni 37
105 Reykjavík

datalab@datalab.is
693 0100